Smávirkjanir í sveitum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:35:55 (1890)

2001-11-21 14:35:55# 127. lþ. 33.11 fundur 284. mál: #A smávirkjanir í sveitum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GPál
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Pálsson):

Herra forseti. Í desember 1999 var skipuð nefnd til að kanna hagkvæmni, tækni og möguleika smávirkjana í sveitum. Nefndin með hv. þm. Hjálmar Árnason sem formann skilaði skýrslu í júní 2000, þessari skýrslu hérna sem ég er með hér. Þetta er ágætasta skýrsla að mínu áliti og þar kemur m.a. fram að hugsanlega megi framleiða 30--50 megavött með virkjun bæjarlækja og smááa, þ.e. eins og hálfa Sigöldu, það kunni að styrkja byggð og auka fjölbreytni atvinnulífs og á því er sannarlega þörf.

Í skýrslunni segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fjármögnun einkarafstöðva þarf að gerast með lánum og styrkjum frá Lánasjóði landbúnaðarins, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Orkusjóði, iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun.``

Nefndin gerði síðan tillögu um hvernig fjármagna skyldi slíkar rafstöðvar og lagði til að iðnrh. skipaði starfshóp til að afgreiða beiðnir um styrki til einkarafstöðva.

Það mun hafa verið gert. Þessi starfshópur mun hafa verið stofnaður en síðan virðist þeim sem hafa kannað þessa mögleika sem einhver stífla sé komin í málið og hvergi hægt að fá skýr svör hjá þeim stofnunum sem ég nefndi áðan. Fæstir munu geta hafið framkvæmdir án þess að fyrir liggi lánsloforð eða loforð um styrki, um niðurgreiðslu rafmagns o.fl.

Eigi að gera eitthvað úr þessari hugmynd um raforkuframleiðslu eða að raforkuframleiðsla verði aukabúgrein í sveitum þarf að ganga frá fjármögnunarþættinum og setja reglur um hvaða gögn menn þurfa til þess að geta sótt um fyrirgreiðslu.

Því spyr ég:

1. Hvað líður efndum á tillögum nefndar um málefni raforkubænda sem skilaði áliti í júní á síðastliðnu ári?

2. Er einhver áætlun í gangi um að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum og leggja þriggja fasa rafmagn þannig að væntanlegir raforkubændur geti selt frá sér umframframleiðslu?

Það mun vera forsenda fyrir sölu að vera tengdur við þriggja fasa rafmagn, en mönnum sem hafa verið að skoða þetta hefur virst sem áhugi Rariks sé ekki geysilega mikill, þeir hafi fremur áhuga á að selja rafmagn en kaupa það.