Smávirkjanir í sveitum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:46:03 (1894)

2001-11-21 14:46:03# 127. lþ. 33.11 fundur 284. mál: #A smávirkjanir í sveitum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ljóst er að möguleikar á virkjun bæjarlækja eru gífurlega miklir, enda áhugi afskaplega mikill mjög víða um land eins og hér hefur komið fram. Á það hefur verið bent að möguleikar í virkjun bæjarlækja kunna að vera á bilinu 50--200 megavött, hvorki meira né minna. Og þarna er örugglega um að ræða þá vistvænustu leið sem hægt er að hugsa sér varðandi raforkuvinnslu, enda skapar þetta gífurlega möguleika. Hins vegar er afskaplega mikilvægt að mæla þessa möguleika, hversu mikið magn er í rauninni til staðar en ekki að hafa slíkar tölur á reiki.

Einnig liggur ljóst fyrir að fjöldi aðila er að skoða þetta og nú þegar eru sex til sjö minni virkjanir þegar komnar á koppinn. Grundvallaratriðið er að undirbúa þetta faglega. Það er tvennt sem nefndin lagði til og unnið er eftir, annars vegar að um sé að ræða viðurkenndar rennslismælingar og hins vegar að einhver rekstraráætlun búi á bak við þannig að þetta verði raunhæft, bæði faglega og fjárhagslega. Það er kannski mikilvægasta atriðið í þessu og ég spái því að innan örfárra ára muni slíkum virkjunum hafa fjölgað um nokkra tugi.