Smávirkjanir í sveitum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:50:49 (1898)

2001-11-21 14:50:49# 127. lþ. 33.11 fundur 284. mál: #A smávirkjanir í sveitum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Pálssyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og þingmönnum fyrir undirtektir. Ég held nú að engin sérstök hætta sé uppi þó að ekki hafi verið gífurlegur ágreiningur í málinu. En ég skil þær athugasemdir eða ábendingar sem koma fram frá hv. þingmönnum í sambandi við það að hlutirnir gangi hægt fyrir sig þannig séð. Auðvitað tekur ákveðinn tíma að rannsaka bæði rennsli og annað svo hægt sé að treysta því að viðkomandi framkvæmd verði hagkvæm. Kannski hefur örlítið borið á því að menn hafi verið svolítið örir og skort þolinmæði hvað það varðar, því eiginlega er ekki hægt að sætta sig við það að farið sé út í framkvæmdir fyrr en ákveðnar rannsóknir liggja fyrir. Ég vil taka undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að viðurkenndar rennslismælingar eru mikilvægar, og eins þurfa náttúrlega að liggja fyrir rekstraráætlanir hjá viðkomandi þannig að ástæða sé til að fara í framkvæmdir.

Um að leiðbeiningar vanti þá er það eflaust rétt hjá hv. þm. Gunnari Pálssyni, en mjög fljótlega mun rætast úr hvað það varðar. Bæði veit ég að nemendur við Háskóla Íslands hafa gefið út leiðbeiningar í þessum efnum og eins einkaaðilar.

Ég vil segja í sambandi við það sem fram kom hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, um nefndir að störfum, að þriggja fasa nefndin er nú ekki búin að starfa mjög lengi en hún hefur líka farið mjög faglega í þá vinnu, miklu faglegar en gert hefur verið áður, þannig að við erum að reyna að forgangsraða. Það er ekki mikið fjármagn sem fæst í þetta en við erum að reyna að forgangsraða þannig að fjármagnið fari á réttu staðina.

Um stýrihópinn er það að segja að fljótlega, eins og ég greindi frá í máli mínu, mun hann skila tillögum um hvernig skynsamlegast sé að fara í hlutina, því að þetta er ekkert einfalt. Það eru margir sem koma að málum, margir sjóðir. En iðnrn. ber náttúrlega ekki ábyrgð á því að viðkomandi aðilar sem fara í framkvæmdir fái lán hjá þeim sjóðum sem ég taldi upp. Það eru sjóðirnir sjálfir og þær stjórnir sem þar ríkja.