Afnám kvótasetningar

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 15:00:25 (1901)

2001-11-21 15:00:25# 127. lþ. 33.7 fundur 210. mál: #A afnám kvótasetningar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þótti það einhver vaskasta ákvörðun sem hæstv. sjútvrh. hafði tekið á ferli sínum þegar hann ákvað að leyfa frjálsar veiðar á steinbít. Ég verð að segja að ég harmaði það þegar hann féll síðan frá þeirri ákvörðun sinni. Ég tel að með hinni fyrri ákvörðun, um að leyfa frjálsar veiðar, hafi hæstv. ráðherra eftir að hafa vegið öll gögn og rök í málinu komist að þeirri niðurstöðu að hægur leikur væri að stýra veiðum á steinbít og að stofninum væri engin hætta búin þó að veiðar væru frjálsar. Þar með tel ég að hæstv. ráðherra hafi í reynd komist að þeirri niðurstöðu að ein veigamikil forsenda aflamarkskerfisins gilti ekki, a.m.k. fyrir þessa tegund.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að menn ættu að leyfa sér þann munað, í ljósi þeirra niðurstaðna sem fram hafa komið um veikleikann við fiskverndarþátt aflamarkskerfisins, að gera tilraunir á þessu sviði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telur ekki mögulegt að gera tilraun með að leyfa frjálsar veiðar á ýsu á tiltekinni stærð báta, með tilteknum sóknartakmörkunum á næstu fimm árum. Ég væri t.d. í samkomulagi við hæstv. ráðherra reiðubúinn til að fallast á að slík tilraun yrði gerð á ákveðnu svæði.

Ég var einn þeirra sem, eins og hæstv. ráðherra, höfðu ofurtrú á aflamarkskerfinu en hef hana ekki lengur. Ég verð sem gamall vísindamaður að draga mínar ályktanir í ljósi vísindalegra gagna. Nú hef ég þær og ég er þeirrar skoðunar að aflamarkskerfið sé ekki það fiskverndarkerfi sem við töldum áður. Ég held, herra forseti, að það væri heppilegt að ráðast í tilraun af þessu tagi. Hún mundi gera vísindalegt gagn.