Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:36:41 (2024)

2001-11-27 21:36:41# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:36]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag um frv. til fjárlaga sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir í upphafi þings og við erum að ræða nú á sér náttúrlega stað undir ákaflega sérkennilegum kringumstæðum. Sérkennilegum kringumstæðum í efnahagslífi landsmanna, sem e.t.v. eru þannig að við þekkjum ekki annað eins mörg síðustu ár, sem betur fer.

En í dag stöndum við í þessari ísköldu sturtu ef svo má að orði komast. Það er sannarlega mikil vá fyrir dyrum og ég hygg að það geri sér allir grein fyrir því, jafnt hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn sem aðrir, þó svo að hæstv. forsrh. keppist við að fara í alla þá fjölmiðla sem hægt er að komast í til að telja okkur trú um að allt sé í besta lagi. Sennilega getur maður skilið mjög vel að það sé reynt.

Það sem við Íslendingar þyrftum að standa í núna um þessar mundir væri kannski ekki að eyða hér 12, 15, 20 tímum í að ræða um fjárlög við 2. umr. heldur ættu ríkisstjórn og stjórnarandstaða, aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtök atvinnulífsins að sitja inni í lokuðu herbergi og ekki koma út fyrr en þau eru búin að ná sátt, þjóðarsátt um varnir gegn þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir sem því miður, það er ljótt að segja það, getur flokkast undir ákveðin hryðjuverk. Ég kem kannski að því síðar hvernig þessir miklu erfiðleikar blasa við.

Ég held, herra forseti, að það sé allt of mikil einföldun á þeim vanda eins og komið hefur fram hjá hæstv. forsrh., að þetta sé m.a. vegna þess að verið sé að fylla Smáralindina, verið sé að fylla hillur í Smáralindinni af vörum og jólavertíð sé að koma. Ég held að það sé of mikil einföldun. Vandinn er miklu meiri.

Ég ætla að fara aðeins aftur til þess þegar við á hinu háa Alþingi samþykktum lög um Seðlabanka með 56 samhljóða atkvæðum þeirra þingmanna sem í salnum voru. Þær breytingar sem gerðar voru hér 27. mars sl. stefndu í raun og veru að mjög einföldu markmiði, þ.e. að stuðla að stöðugu verðlagi, Seðlabankanum var falið að stuðla að stöðugu verðlagi. Seðlabankanum var veitt fullt sjálfstæði til að beita tækjum sínum í þeim efnum. Með öðrum orðum, sveigjanleg fastgengisstefna sem verið hefur hér um alllanga hríð vék og upp voru tekin verðbólgumarkmið og fljótandi gengi. Rétt er að hafa í huga að það verðbólgumarkmið var skilgreint sem hækkun vísitölu neysluverðs á 12 mánuðum.

Ég hef áður í ræðustól hins háa Alþingis gagnrýnt þá vísitölu sem þarna er notuð, þ.e. vísitölu neysluverðs, og hef tekið sem dæmi að hún mælir eingöngu fasteignaþáttinn í Reykjavík, tekur ekki meðaltal af landinu öllu. Með öðrum orðum, í þeirri miklu þenslu sem verið hefur á höfuðborgarsvæðinu, í þeim miklu flutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem átt hafa sér stað sl. 10--12 ár, hefur orðið verðsprengja vegna vöntunar á íbúðarhúsnæði. Það hefur undanfarin ár leitt til hækkunar á þeirri vísitölu sem hefur síðan gert það að verkum að lán jafnt þeirra sem búa í Reykjavík og lifa í því húsnæði sem hefur verið að hækka og hækka, þá hækka jafnt lán Íbúðalánasjóðs hjá íbúa úti á landi, sama hvort hann býr á Raufarhöfn, Reyðarfirði eða Ólafsfirði svo við tökum dæmi. Þetta er auðvitað mjög ósanngjörn vísitala og hefur komið illa út fyrir landsbyggðafólk. Þetta vildi ég láta koma fram.

Það er ansi sniðugt vil ég segja eða kostulegt eftir að þessi verðbólgumarkmið voru tekin upp og fljótandi gengi, að hlusta á tvo hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þ.e. hæstv. landbrh., Guðna Ágústsson, og hæstv. félmrh., Pál Pétursson, sem báðir hafa talað þannig að þetta hafi verið mikil mistök. En í Dagblaðinu í dag segir hæstv. landbrh. m.a. þar sem hann ræðir um efnahagsástandið --- verið er að tala um misvísandi skilaboð frá formanni og varaformanni Framsfl. um evruna, hugsanlega að taka hana upp og Evrópumálin, en í lokin er talað um það sem við erum hér að ræða, þessa mestu vá sem að okkur steðjar um þessar mundir, þ.e. efnahagsstefnuna.

En með leyfi forseta, segir hæstv. landbrh. þetta í Dagblaðinu í dag:

,,Guðni segir brýnast fyrir okkur Íslendinga að takast sjálfir á við efnahagsvandann og hætta að leita að lausnum annars staðar. Þetta sé heimavandi sem þurfi að takast á við með því að treysta gengið, lækka vexti og verðbólgu. Og Seðlabankinn verði að taka þátt í því verkefni.``

Þetta er merkileg yfirlýsing. Áfram skal lesið úr þessu blaðaviðtali, með leyfi forseta:

,,Kannski voru lögin um Seðlabankann snarvitlaus af okkar hálfu, að gera bankanum það að einblína svona lögum samkvæmt á verðbólguþáttinn, segir Guðni. Aðspurður um hvort hann vilji þá takmarka sjálfstæði bankans aftur, segist Guðni e.t.v. frekar vera að velta fyrir sér hvort ástæða sé til að endurskilgreina hlutverk hans og víkka það út fyrir verðbólgumarkmið I.``

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að þetta var viðtal við hæstv. landbrh., varaformann annars stjórnarflokksins, varaformann Framsfl., um það sem hér er um að ræða, þ.e. þá breytingu sem gerð var á lögum um Seðlabanka og þegar verðbólgumarkmið og fljótandi gengi var tekið upp.

Ég man ekki og hef ekki tiltæk þau orð sem hæstv. félmrh. hafði um þetta sama efni, en þau voru ekki skárri.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni í þessari umræðu og hefur gert að mestu leyti í allan dag, hvort hann sé sammála því áliti sem kemur fram hjá þessum tveimur samráðherrum sínum í ríkisstjórn.

Í öðru lagi hvort einhver möguleiki sé á að skoða ef áfram heldur sem horfir að gengishrunið verði ekki stöðvað, hvort það sé þá virkilega hægt, eins og Guðni Ágústsson ýjaði að, að endurskilgreina hlutverk Seðlabankans í ljósi fenginnar reynslu frá því í mars sl.

Ég vona að hæstv. fjmrh. leyfi okkur að heyra álit sitt á þessu á eftir og við getum þá skipst á skoðunum í framhaldi af því.

[21:45]

Herra forseti. Í lok nóvember árið 2001 blasir þetta við Íslendingum: Viðskiptahalli 200 milljarðar kr. sl. þrjú ár. Verðbólga í lok nóvember rúm 8%. Vextir, sem formaður Framfl., hæstv. utanrrh., kallar reyndar okurvexti, rúm 20%. Gengisfelling eða kannski mætti frekar notað orðið gengishrun 25--30%, eftir því hvaða gjaldmiðill er tekinn. Mikil þensla á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur kynt undir það sem við erum hér að fást við og tala um, en ekki þensla á landsbyggðinni sem hins vegar þarf að búa við sama gengisfallið, sömu okurvextina o.s.frv.

Viðskiptahallinn, rúmir 200 milljarðar sl. þrjú ár, er stórhættulegur og er auðvitað það sem kyndir bálið núna. Ef til vill er --- ja, það er ekki ef til vill, við vitum það að í dag er samdráttur. Minni eftirspurn er eftir atvinnu og minni eftirspurn er eftir lánum. Með öðrum orðum, vonandi er að hefjast endurreisn og jafnvægi komist í þjóðfélaginu. Þetta verður mjög erfið aðlögun, sársaukafull, en engu að síður mjög nauðsynleg.

Ég óttast, herra forseti, að landsbyggðin muni einnig fara verulega illa út úr þessu ekki síður en höfuðborgarsvæðið en e.t.v. verður skaðinn og höggið meira á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þenslan hefur verið þar, eins og ég sagði áðan, en ekki úti á landi. Engu að síður, herra forseti, eru rauð ljós blikkandi gagnvart landsbyggðinni og skal ég hér fara yfir nokkur atriði.

Þær tillögur sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram á haustdögum, skattatillögurnar svokölluðu, eru mjög íþyngjandi fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni og skekkir samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þetta er vegna þeirrar óréttlátu skattheimtu sem þarna er hugsuð til að ná í tekjur, og þá er ég að tala um hækkun upp á 0,77% á tryggingagjaldinu.

Áður hefur komið fram að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega peningastofnanir, tryggingafélög, stórverslunarkeðjur og aðrir munu hagnast mjög mikið á slíkum skattalagabreytingum. Fyrirtæki á landsbyggðinni munu hins vegar ekki njóta þess skattalega ávinnings sem er af fyrirhugaðri tekjuskattslækkun eða eignarskattslækkun en munu fá á sig fullt högg af þungaskattinum.

Komið hefur fram, herra forseti, að atvinnufyrirtæki á Austurlandi mundu borga 32 millj. kr. meira í skatta ef þær skattatillögur hefðu verið komnar til framkvæmda miðað við skattlagningu þessa árs. Í Vestmannaeyjum mundu fyrirtæki þar borga 20 millj. kr. meira í skatta en þau gera í dag. Í nokkrum öðrum landsbyggðarkjördæmum stendur þetta nánast í stað.

Þetta er því ekki til að bæta atvinnuástand á landsbyggðinni. Þetta er ekki aðgerð sem mun virka vel til að reyna að ná jöfnuði innan lands, sem er er nauðsynlegur eins og ég sagði hér áðan. Ég held að þetta muni skapa ójafnvægi og miklu meiri erfiðleika en við gerum okkur grein fyrir.

Fyrirtæki á landsbyggðinni kvarta mjög í dag yfir öðrum álögum. Skal ég fyrst nefna margræddan og slæman skatt sem er þungskattur sem samkvæmt útreikningum hefur hækkað um allt að 45% frá 1998 í þeim tveimur breytingum sem gerðar hafa verið á þungaskattslögunum. Á ég þá við flutninga á lengstu leiðum eins og til Austurlands eða Vestfjarða á flutningabíl með tengivagn. Auðvitað hefur þessi hækkun farið beint út í verðlagið, hvernig á annað að vera? Og þegar við bætist síðan þessi óðaverðbólga og gengishrun þá hefur þetta auðvitað þær afleiðingar að flutningsgjöld hækka enn þá meira og þessi fyrirtæki geta ekkert frekar en önnur fyrirtæki gert annað en setja slíkar hækkanir þráðbeint út í verðlagið.

Herra forseti. Þessi tvö atriði sem ég hef nefnt eru hrein aðför að atvinnurekstri á landsbyggðinni sem á þó töluvert undir högg að sækja af ýmsum öðrum ástæðum.

Eitt atriði skal ég nefna í viðbót. Nýlegar breytingar hjá Eimskip á gjaldskrá fyrir strandflutninga kemur aldeilis sæmilega við atvinnurekstur á landsbyggðinni. Haft hefur verið samband við mig af forsvarsmönnum fyrirtækis á landsbyggðinni sem þarf að flytja töluvert mikið af þungavöru annars vegar til landsins og hins vegar frá uppskipunarhöfninni í Reykjavík til landsbyggðarinnar með strandsiglingum. Þar er þetta að hafa þau áhrif að 8--10 millj. kr. hækkun á flutningsgjöldum er fyrirsjáanleg miðað við óbreytt flutningsmagn og það er töluvert meira en hagnaður þess fyrirtækis.

Herra forseti. Þetta vildi ég nefna í umræðunni vegna þess að þetta hangir vissulega saman við fjárlög og efnahagsmálin, sem við erum aðallega að ræða um, og þær forsendur sem verða fyrir þessu fjárlagafrv. Eins og hér hefur komið fram höfum við kannski ekki verið að ræða beint mikla liði í þeim vegna þess að komið hefur fram, m.a. frá hæstv. forsrh., að þetta muni e.t.v. breytast töluvert mikið fyrir 3. umr. og að ýmsir þættir í fjárlagafrv. verði ræddir kannski frekar þar. Nefni ég t.d. niðurgreiðslu á húshitun, sem mér sýnist að muni snarstoppa í þessum þrengingum, og ýmislegt fleira sem þverpólitísk nefnd hæstv. forsrh., svokölluð byggðanefnd, var sammála um sem bráðaaðgerðir, sem fyrstu aðgerðir, og voru aðgerðir sem allir voru sammála um hvar í flokki sem þeir standa og voru settar fram með fullum stuðningi hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, þegar verið var að undirbúa og vinna að því að troða kjördæmabreytingunni, eins og ég hef stundum sagt, í gegnum Alþingi.

Ég ætla ekki að staldra lengur við þá vá og þá hættu og þær árásir sem er beint gegn atvinnurekstri á landsbyggðinni en það nægir að nefna niðurskurð Landsbanka Íslands á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, sama hvort það er á Kópaskeri, Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafirði, Reyðarfirði, Stokkseyri eða Eyrarbakka. Þetta hlutafélag, Landsbanki Íslands, sem er að meirihlutaeign í eigu ríkisins, er að ganga að þessari starfsemi og ganga frá henni, sennilega vegna þess að bankakreppan er það mikil að mikið liggur á að skera allt niður. Áður hefur hér verið rætt um Íslandspóst, ríkisfyrirtækið, að maður tali nú ekki um ýmis önnur svikin loforð eins og í fjarvinnslu og öðrum atriðum. Ég vildi aðeins nefna þetta í umræðunni.

Herra forseti. Í þeim efnahagsþrengingum sem við erum í og í þeim erfiðleikum sem blessaður ríkissjóður er í vegna tekjufalls og stórhækkandi gjalda, m.a. út af gengisfellingu og hárri verðbólgu, þá sýnist mér að í öllu fjárlagafrv. sé reitt hátt til höggs á ýmsan hátt gagnvart landsbyggðinni, því miður.

Þensla er að minnka, atvinnuleysið er að aukast, við blasa gjaldþrot og rekstrarerfiðleikar atvinnufyrirtækja. Þegar hlustað er á fréttir í dag kemur fram að Samvinnuferðir -- Landsýn hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta og 70 manns missa vinnuna. Forstjóri þess fyrirtækis nefndi þrjár ástæður. Ein ástæðan var gengisfellingar eða gengishrunið, önnur ástæða var 11. september sl. Og í dag var fyrirtæki sem heitir Burnham International, sem ég kann ekki mikið að segja frá hvað er, einnig lokað vegna fjármálakreppu og svona má lengi telja. Í september kom fram að tvö gjaldþrot voru að meðaltali á dag.

Herra forseti. Ég nefni þetta hér en mér er mjög illa við það en get engu að síður ekki sleppt því vegna þess að þetta eru þær stórkostlegu hættur sem blasa við okkur Íslendingum um þessar mundir og næstu tvo, þrjá mánuði. Ég hef nefnt gjaldþrot og rekstrarerfiðleika fyrirtækja og nefni líka erfiðleika almennings sem verða nú töluvert miklir. Og það er kannski rétt að nefna það að einstaklingur sem tók húsbréf fyrir fjórum, fimm mánuðum upp á 6,4 milljónir, ætli það húsbréf standi ekki í einum 7--7,2 milljónum í dag? Það hefur hækkað svo vegna verðbólgu fimm, sex mánuðum síðar.

Ég óttast einnig, herra forseti, að fjármálastofnanir muni lenda í töluverðum vandræðum og miklir erfiðleikar verði í fjármálaheiminum en vonandi ráða fjármálastofnanir sjálfar við að leysa þau vandamál.

Herra forseti. Það má kannski orða þetta á þann veg að eftir þennan íslenska ,,bömmer`` ættum við að hafa í huga að vaxtarmöguleikum eru takmörk sett. Við höfum sennilega verið á algjöru fjárfestingarfylliríi, við höfum verið á algjörum ,,bömmer``. Hinn gullni meðalvegur er vandrataður. Ég hika ekki við að halda því fram, herra forseti, að viðskiptahalli áranna 1998, 1999 og 2000 er stærsti hlutinn af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna gagnvart íslensku krónunni.

Það var hátt risið á ríkissjóði og ríkisstjórn, góðærið var mikið, tekjur ríkissjóðs jukust mikið af innflutningi sem að megni var tekið lán fyrir. Þegar hátt ris verður, eins og hér hefur komið fram, verður fallið mikið. Þetta hefur verið að koma í bakið á okkur undanfarna mánuði. Ég skynja þetta þannig að vorið 2000 fór bjartsýnin mikið að minnka. Haustið 2001 hófst hins vegar leitin að patentlausnum. Fylliríinu var lokið. Það fór að renna af mönnum, jafnt ríkisstjórn sem öðrum. Í slíkri meðferð er kannski ekki mikið hægt að gera, ekki er hægt að fara í sund eða fara út að hlaupa. En menn hafa verið að leita að einhverjum blóraböggli og hæstv. forsrh. hefur þar verið í ákveðinni afneitun og leitað að blórabögglum.

Hæstv. forsrh. hefur m.a. notað orðið ,,klaufaskapur`` um íslenskt efnahagslíf. Hann sagði að klaufaskapur í bankakerfinu hefði valdið því að gengið lækkaði verulega í maí.

Í viðtali við hæstv. forsrh. kemur fram að þá hafi gjaldeyrismarkaðurinn farið að titra þegar farið var að borga af lánum Fiskveiðasjóðs og höggið orðið meira en ella. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

,,Mér finnst að í þessu litla kerfi okkar hefði átt að láta vita með tveggja mánaða fyrirvara eða svo um svona hluti þannig að hægt væri að útbúa þetta og undirbúa og það mundi ekki hafa önnur áhrif á viðskipti dagsins. Þetta finnst mér klaufaskapur í bankakerfinu.``

Herra forseti. Ég hygg að klaufaskapurinn sem þarna er rætt um hafi verið sá sem orðrómur gengur um hér á landi, að þeir sem tóku við Fiskveiðasjóði, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins sem síðan rann saman við Íslandsbanka, hafi ekki í tæka tíð, eins og hæstv. forsrh. sagði, uppgötvað að fara átti að borga af erlendum lánum og vantað hafi 2 milljarða kr. sem átti að borga af erlendum lánum. Því hafi verið byrjað að kaupa gjaldeyri hjá næsta banka, og sá banki skildi ekki hvað var um að vera og fór að kaupa gjaldeyri hjá þar næsta banka, og sá banki sneri sér svo til þriðja bankans og fór að kaupa gjaldeyri hjá þeim banka, og þannig fóru allir að elta skottið á sér. Mig minnir, herra forseti, að gjaldeyrisviðskipti þennan dag sem hæstv. forsrh. talar um klaufaskapinn í bankakerfinu, hafi verið rúmir 35 eða 36 milljarðar kr. en aðeins 1 milljarður fór út úr landinu til að borga fyrir einhver vörukaup eða annað.

[22:00]

Með öðrum orðum, á þremur, fjórum viðskiptaborðum í viðskiptabönkunum hafði þessi hringavitaleysa átt að eiga sér stað sem hæstv. forsrh. er hér að vitna í og hann talar um klaufaskap. Þrátt fyrir að Seðlabankanum hefði verið veitt fullt sjálfstæði með breytingunum á lögum um hann, og hæstv. forsrh. hefur margoft sagt að hann hafi engar tilskipunarheimildir núna til Seðlabanka, hvatti hæstv. forsrh. í þessu sama viðtali frá því í kringum 24. júní, Seðlabankann eða sagði sem svo: Seðlabankinn ætti fyrr eða síðar að hugleiða vaxtalækkun. Þetta var í júní.

Herra forseti. Þetta var á þeim tíma þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 4,2%, sem samsvaraði 17--18% verðbólgu á ári. Þetta var þriggja mánaða vísitölumæling. Í maí--júní sl. var hækkun vísitölu á milli mánaða, eins og hún var þarna, sú mesta sem mælst hafði undanfarin tíu ár.

Herra forseti. Þetta vildi ég aðeins draga fram í umræðunni til að benda á hvað efnahagskerfi okkar er brothætt. Það þarf ekki mikið að rugga bátnum til að koma gengisfallinu af stað. ,,Klaufaskapur``, sagði hæstv. forsrh. um bankana þegar tvo milljarða vantaði til að borga. Við fundum að þegar hið ágæta fyrirtæki Bakkavör var að útvíkka sig og kaupa fyrirtæki í Bretlandi að það hafði mikil áhrif á gengi krónunnar. Þannig má lengi telja.

Herra forseti. Einnig má líka leiða líkur að því að við þessa breytingu sem gerð var hafi gjaldeyrisvarasjóðurinn hreinlega verið orðinn allt of lítill. Ef til vill vorum við að gera þessa breytingu of seint. Ef til vill vorum við búin að missa af lestinni og hefðum kannski átt að fresta því enn lengur. Þó hef ég reyndar haldið að Seðlabankinn eða íslenska ríkið hafi nú bara hreinlega ekki getað haldið gjaldeyrinum stöðugum.

Það var einmitt í framhaldi af þessu sem hæstv. fjmrh. tók 25 milljarða kr. lán þegar bandaríski dollarinn var í 105 kr. Á þessum tíma var líka fyrirsjáanlegt sjómannaverkfall sem stuðlaði auðvitað að gengisfalli vegna þess að ekki var innstreymi á gjaldeyri. Líka má tala um hið frjálsa flæði fjármagns milli landa sem hófst 1995. Mér skilst að við höfum lifað það á síðasta ári að 25 milljarðar fóru út úr landinu til fjárfestinga frá lífeyrissjóðum og öðrum en aðeins 10 milljarðar inn. Það er hluti af þessum vandamálum. Útlendingar hafa því ekki verið mjög ginnkeyptir fyrir því að koma hér til Íslands og fjárfesta nema í litlum mæli.

Þetta nefni ég vegna þess að við sjáum það í dag við þessar síendurteknu gengisfellingar að íslenska krónan stenst ekki þá atlögu eða þær aðgerðir sem ýmsir í þjóðfélaginu grípa til. Það kemur lítill gjaldeyrir heim. Því miður er ekki hægt að sjá það frá degi til dags. Í október segja hagspekúlantar og fræðingar að sjávarútvegurinn hafi verið að greiða mikið niður af skuldum. Það er vel. Sjávarútvegurinn er með öðrum orðum ekki að taka erlendan gjaldeyri heim. Hann er ekki að taka hann heim til að fara í fjárfestingar vegna þess að hann telur það ekki fýsilegt. Krónan veikist því enn frekar við það að gjaldeyrir kemur ekki heim. Menn geyma það að taka gjaldeyrinn heim. Menn geyma það að breyta honum yfir í íslenskar krónur vegna þess að þeir hafa getað lifað við það undanfarna daga og missiri að gengisfellingar dagsins munu gera það að verkum að þeir fá miklu meira fyrir þetta á morgun.

Gengisvísitala íslensku krónunnar er nú um þessar mundir yfir 150 stigum, um 151 stig. Þegar verðbólgumarkmiðunum var breytt var gengisvísitalan 123 stig. Daginn eftir þessa breytingu var gengisvísitalan fyrir hádegi --- það er sorglegt, herra forseti, að menn skuli geta talað um gengisvísitölu fyrir hádegi og eftir hádegi --- þennan dag var hún 123 stig. Eftir hádegi var hún hins vegar 125 stig eftir mikil inngrip Seðlabankans.

Það er ansi athyglisvert að lesa það sem kemur fram í yfirliti frá Búnaðarbankanum sem nefnist Hálffimmfréttir þennan dag, 27. mars. Ég held að það sé þörf lesning að gera það hér nú til þess að setja það í samhengi við raunveruleikann í dag, þar sem gengisvísitalan er komin yfir 150 stig. Bandarískur dollari er í tæpum 111 kr. Hann var í 90 kr. þegar breytingin átti sér stað. Evran er í 95 kr. núna en var í 80 kr.

Með leyfi forseta, vil ég lesa hér upp úr Hálffimmfréttum Búnaðarbankans 27. mars sl. þar sem talað er um að krónan sleiki neðri mörk gengisstefnunnar:

,,Við opnun markaða í morgun stóð vísitalan í 123,0 stigum. Hún hækkaði fram eftir morgni og var komin í 124,6 stig rétt fyrir kl. 13.00, þegar Seðlabankinn greip inn og keypti krónur fyrir 18 milljónir bandaríkjadala. Við inngripin styrktist krónan og gengisvísitalan lækkaði niður fyrir 124 stig. Lækkun vísitölunnar var þó skammvinn og hækkaði hún yfir 125,1 stig áður en Seðlabankinn greip inn að nýju og keypti krónur fyrir 24 milljónir bandaríkjadala. Við þetta styrktist krónan aftur tímabundið og lækkaði gengisvísitalan niður í 123,65 stig. Krónan veiktist þó fljótt á ný og endaði vísitalan í 125,1 stigi við lok gjaldeyrismarkaða.``

Herra forseti. Þetta var það sem íslensk peningastofnun sagði um íslensku krónuna 27. mars sl. Síðan er staðan þessi í dag í lok nóvember. Vonandi tekst okkur að skapa skilyrði, jafnvel þjóðarsátt um að verja krónuna frekara falli þannig að hún fari heldur að styrkjast.

Herra forseti. Ég óttast það því miður að afneitun hæstv. ríkisstjórnar á þessum vanda, á þessum heimatilbúna vanda, geri það að verkum að þetta muni ekki gerast. Ef til vill mun það takast hjá hæstv. ríkisstjórn að selja hluta af Símanum núna fyrir áramót og vonandi fá þá mikinn gjaldeyri heim. En ég óttast að það verði tímabundin lækning. (JÁ: Selja hann til útlanda?) Því miður er komið svo fyrir efnahagsástandi íslensks þjóðfélags í dag að við getum ekkert gert annað en að selja hann erlendum aðilum, því miður. Það er verið að selja ættarsilfrið og þær eignir verða ekki seldar aftur. Ég ætlaði að segja það hér áðan að ég óttast að jafnvel sala á Símanum muni ekki vera nema skammgóður vermir í þessu efnahagsflippi sem stendur yfir á Íslandi í dag, því miður.

Það liggur ljóst fyrir og er viðurkennt af öllum að lækkun gengisins á undanförnum mánuðum er nærtækasta skýringin og sennilega eina skýringin á því að verðbólga er nú fyrir ofan þolmörk verðbólgumarkmiðsins og í raun og veru er óðaverðbólga. Það er bara rétt að nota það orð. Nú er árið 2001 og við teljum þetta óðaverðbólgu.

Herra forseti. Ég var áðan að glugga í gamalt Morgunblað frá 1974. Mjög mörgu sem kemur fram í því blaði sem svipar til dagsins í dag. Að vísu var vinstri stjórn að falla. Það var ekki ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem var að falla. Það var vinstri stjórn og gengismál voru aðalmálin, erfiðleikar í þjóðarbúinu og fleira og fleira. Svo mörgu svipar til dagsins í dag að ég ætla ekki að lengja umræðuna með að vitna í það allt. En meira að segja árið 1974, svo ég bæti aðeins gamansömum tón í þetta, var verið að skipta um gangstéttarhellur eða allar hellur í Austurstrætinu í Reykjavík.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða nú að ræða örlítið um það sem kannski mesta hættan er fólgin í. Allra mesta hættan er sú að launþegafélögin í landinu neyðist til að segja upp kjarasamningum í febrúar vegna þess hvernig ástandið er orðið í þjóðfélaginu.

Hæstv. forsrh. segir alltaf að kaupmátturinn hafi aldrei verið meiri. Ég ætla að fara aðeins yfir það hér á eftir og vitna í ágætan hagfræðing ASÍ, Rannveigu Sigurðardóttur. En áður vil ég líka vitna í ágætan formann verkalýðsfélags á landsbyggðinni sem heitir Aðalsteinn Baldursson og er formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Hann er jafnframt formaður fiskvinnsludeildar Starfsgreinasambands Íslands.

Aðalsteinn segir í blaðaviðtali í dag --- ég held að svo sé --- að hann telji að staðan núna sé sú að forsendur kjarasamninga séu kolfallnar og hann telji að jafnvel þótt farið verði í að grípa til einhverra ráðstafana núna þá sé það of seint.

Við höfum heyrt gagnrýni forustumanna verkalýðshreyfingarinnar um að samráð hæstv. ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins hafi ekki verið nægjanlegt. Hæstv. forsrh. nefndi það um daginn að sjálfsagt væri að viðurkenna það og biðjast afsökunar á því að gleymst hefði að tala við verkalýðshreyfinguna í einhvern tíma.

En Aðalsteinn er að vitna í þessi mál og segir að þetta þýði ekkert annað en að kjarasamningar séu kolfallnir og að borðleggjandi virðist að segja launaliðum þeirra upp í febrúar og allt verði í uppnámi í kjölfarið. Hann segir ekkert benda til þess að breytingar verði. En hvað þarf að breytast ef freista ætti þess að koma í veg fyrir að allt fari hér í háaloft?

Herra forseti. Það má náttúrlega vitna í viðtöl við forseta ASÍ, Grétar Þorsteinsson, í þessum efnum, og þetta er auðvitað langmesta hættan sem er fram undan. Ég ætla rétt að vona að hæstv. ríkisstjórn og Alþingi muni takast að rétta örlítið kúrsinn í efnahagsmálunum þannig að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, forustumenn ASÍ og annarra, neyðist ekki til að segja upp kjarasamningum vegna þess að þá verður nú heldur betur darraðardans í þjóðfélaginu. Og þá veit ég ekki hvaða orð við eigum að nota. Ég held að þá muni ekki duga orðið efnahagskreppa.

Herra forseti. Ég sagði frá því áðan að ég hlustaði með athygli á viðtal sem var í þættinum Hér og nú ekki alls fyrir löngu. Þar var m.a. viðtal við Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðing hjá ASÍ, og farið fara yfir þessi mál öll, þ.e. hvernig málin hafa þróast frá gerð kjarasamninga. Fram kom að bílatryggingar hafa hækkað um 46% frá því flest stóru verkalýðsfélögin innan Alþýðusambandsins skrifuðu undir kjarasamning við Samtök atvinnulífs á vordögum árið 2000.

[22:15]

Bandaríkjadollar kostar nú tæpum 50% meira en hann gerði þá, með öðrum orðum kostar 36 þús. kr. meira að kaupa þúsund bandaríkjadollara nú en þegar kjarasamningarnir voru gerðir í mars, apríl árið 2000. Þá var gengið á bandaríska dollaranum 73,49 kr. Breskt pund hefur hækkað um rúm 30% og svipað er að segja um aðra gjaldmiðla. Það er eiginlega alveg með ólíkindum, herra forseti, þegar maður les þessar tölur upp því maður heldur að þetta sé allt saman fullt af prentvillum. Maður heldur að eitthvað hafi misritast en svo er ekki.

Þannig er staðan í þessu og um kaupmáttarþróunina segir Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur ASÍ, með leyfi forseta:

,,Kaupmáttarþróunin hefur náttúrlega verið ákaflega mismunandi eftir hópum. Við getum þó séð að fyrir þá sem hafa fengið umsamdar launahækkanir á samningstímabilinu, þ.e. 3,9% í fyrra og 3% í ár eða 7% samtals, hefur kaupmáttarrýrnunin á þessu tímabili verið um 5%, sem sagt frá því fyrir gerð kjarasamninga. Þannig að 7% launahækkun hefur ekki einu sinni dugað til þess að halda uppi sama kaupmætti og fyrir kjarasamningana. Og þetta er ekki lítill hópur sem hægt er að horfa fram hjá,`` --- segir Rannveig --- ,,því um þriðjungur af starfsmönnum á almennum vinnumarkaði hefur á þessu tímabili fengið umsamdar launahækkanir.``

Herra forseti. Hér kemur fram að kaupmáttarrýrnun þessa hóps er um 5%. Svo kemur hæstv. forsrh. sí og æ og segir að það sé engin ástæða fyrir verkalýðshreyfinguna að vera að kvarta og kveina, kaupmátturinn hafi ekki rýrnað mikið, kaupmátturinn sé voðalega góður.

Það kemur líka fram í þessu viðtali að kaupmáttur opinberra starfsmanna er hærri en hann var við gerð kjarasamninga. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm. Kristján Pálsson núna þegar hann gengur í salinn í kjól og hvítt? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna þingmenn um að vera ekki í samræðum í þingsalnum.)

Enn fremur segir þessi ágæti hagfræðingur:

,,Það segir sig náttúrlega sjálft að 8,1% verðbólga eins og við höfum haft hér síðustu 12 mánuði étur mjög hratt upp. Hún er löngu búin að éta upp umsamdar launahækkanir tveggja ára en hún étur jafnvel mjög hratt upp mikið launaskrið eins og verið hefur hjá nokkrum á vinnumarkaði.``

Herra forseti. Ég skil ekki almennilega þegar hæstv. forsrh. er að gera lítið úr því og tala um að kaupmátturinn hafi ekkert rýrnað. Það er sannarlega svo hjá þeim þriðjungi sem fengið hefur almennar hækkanir á almenna vinnumarkaðnum að þar er hann gjörsamlega að hverfa. 5% kaupmáttarrýrnun frá gerð kjarasamninga. Opinberir starfsmenn halda enn þá meiri kaupmætti og vafalaust er það svo að hæstv. forsrh. hefur verið að tala um meðaltalið. Þá kemur það líka vel fram, sem er þekkt í efnahagskreppum, að hinir lægst launuðu munu fara langverst út úr þeirri kreppu sem nú er. Það er með öðrum orðum, herra forseti, engan veginn viðunandi að 7% launahækkun sé horfin á því tímabili sem ég hef hér verið að ræða um.

Herra forseti. Því miður hef ég í ræðu minni dregið upp dálítið dökka mynd af stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við í dag. Ég er ekki hagfræðingur. Ég hef hins vegar mjög mikinn áhuga á efnahagsmálum og hef áhuga á því að íslenskt samfélag þróist áfram á betri veg en það er að gera núna. Ég hef miklar áhyggjur af atvinnurekstri eins og ég hef hér farið yfir, litlum atvinnufyrirtækjum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég hef verulegar áhyggjur af skuldastöðu almennings. Og ég hef miklar áhyggjur af þeirri verðbólgu sem geisar í landinu vegna gengisfellingar og gengishruns íslensku krónunnar. Þetta hefur auðvitað hrikaleg áhrif, eins og hér hefur komið fram, á þessa þjóð sem býr við það að þurfa að flytja svo mikið inn í landið af vörum til framleiðslu og til að fæða sig.

Ég vildi óska þess að ég hefði getað komið hér í ræðustól og hælt hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn fyrir góð fjárlög og fyrir góða stöðu efnahagsmála vegna þess að slíkt nýtist okkur öllum. En því miður er það bara ekki hægt eins og staðan er í dag. Því miður. Og þess vegna hlýtur það að vera algjört lykilatriði, og því fyrr því betra, að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni þær staðreyndir að ekkert minna en fullt samráð ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu, aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingar og Samtaka atvinnulífsins, dugar okkur núna til að sigla okkur út úr þeim brimgarði sem við erum í áður en okkur rekur algjörlega upp í fjöruna og við steytum þar á steinum. Staðan er það alvarleg að mínu mati.

Ég hef ekki rætt mikið um fjárlagafrv. eða þær tölur sem þar eru inni. Ég hef átt þess kost að sitja á nokkrum fundum fjárln. sem varamaður og ég tók eftir því núna við lokaafgreiðslu nefndarinnar til þingsins að menn tóku upp ansi marga liði og hækkuðu þá vegna gengisfellingar krónunnar, vegna gengisbreytinga. Og það speglast töluvert í gegnum þessi fjárlög. Það væri óskandi að þau fjárlög sem við e.t.v. samþykkjum hér, 7. desember vonandi ef allar tillögur verða þá komnar fram sem auðvitað er nauðsynlegt að komi sem fyrst, jafnt niðurskurðartillögur sem annað, að maður tali nú ekki um tekjuhliðina, væru fjárlög sem mundu standast fyrir næsta ár. Það væri óskandi.

Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að segja að það er e.t.v. gott og kannski það besta við þessa 2. umr. fjárlaga að hún hefur ekki mikið snúist um þau heldur bíður 3. umr. Það er e.t.v. betra vegna þess að ég held að þessar umræður ættu að breytast og það væri betra fyrir hið háa Alþingi að gera sér fyrst grein fyrir því úr hve miklum tekjum við höfum að spila áður en við förum að taka gjaldahlið frv. Núna og væntanlega við 3. umr. munum við með öðrum orðum hafa tekjuhliðina algjörlega klára --- vonandi verður hún ekki allt of svört --- og þá getum við rætt gjaldahliðina. En ég ítreka það, herra forseti, að ég vildi gjarnan hafa getað verið hér og hælt hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn fyrir góð fjárlög og góða stöðu efnahagsmála en því miður er það ekki svoleiðis. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ég vona að augu ríkisstjórnarinnar opnist sem fyrst fyrir því að þjóðarsátt um aðgerðir gegn þeirri vá sem steðjar að íslensku þjóðfélagi er það sem við þurfum á að halda nú um þessar mundir.