2001-11-28 00:02:04# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sem endranær minnti ræða hv. formanns fjárln. mig á ræðu framkvæmdastjóra í meðalstóru bandarísku hlutafélagi á aðalfundi þess. Hv. fjárln. ætlast til þess að löggjafarsamkundan samþykki í fyrsta lagi að reisa nokkur hús, borga húsaleigu, ráða fólk, byggja snyrtiaðstöðu, styrkja myndlistarnám og fjarkennslu. Svo á að styrkja fjöldann allan af söfnum. Síðan á stunda viðgerð á tveimur eikarbátum. Það á að hlaða fjárrétt. Síðan á að styrkja skíði og tefla skák. Halda ráðstefnu NATO og svo á að sinna dýrunum. Sinna hrossum, að ala þorsk, temja hund. Stunda útgáfu, kaupa tölvukerfi, stunda sýklavarnir og byggja skolpræsi. Þetta er það sem ég las út úr tillögum hv. fjárln.

Þetta er náttúrlega ekkert annað en framkvæmdir, herra forseti. Þarna er Alþingi, löggjafarsamkundan, að blanda sér inn í verkefni framkvæmdarvaldsins.

En mér þótti mjög athyglisvert það sem hæstv. utanrrh. sagði um NATO-fundinn og hann benti mér á atriði sem ég hafði ekki komið auga á, því ég hef alltaf átt erfitt með að verja þennan fund. En nú sá ég auglýsingagildið sem er afar mikið. Mér þætti gaman að sjá íslenska ferðaþjónustu kaupa auglýsingatíma í ígildi fréttatíma um allan heim, því að fréttir komast miklu auðveldlegar inn í huga fólks en auglýsingar þar sem fólk er í vörn, og að fá til þess eins hátt launaða leikara og verða hér á þessari ráðstefnu, þannig að þetta er hið besta mál. Ég efast um að ferðaþjónustan fengi betri auglýsingu og betri leikara ókeypis, þ.e. burt séð frá þessum kostnaði.

Herra forseti. Mat mitt er að það sé ekki hlutverk Alþingis að standa í framkvæmdum eins og þeim sem hv. formaður fjárln. las upp í einn og hálfan tíma af tveggja tíma ræðu sinni. Ég lít þannig á að Alþingi hafi þríþætt hlutverk, þ.e. að semja og setja lög, veita fé til framkvæmdarvalds og að hafa eftirlit með ráðstöfun framkvæmdarvaldsins á þeim fjárveitingum. Alþingi semur eiginlega engin lög sem það setur, það hef ég margoft bent á. Það er framkvæmdarvaldið sem semur lög sem Alþingi svo samþykkir eftir að hafa endurskoðað þau og skoðað hvernig gengur að framkvæma þau.

Hins vegar stendur Alþingi, eins og kemur fram í brtt. hv. fjárln., í heilmiklum framkvæmdum. Ég mun koma inn á það á eftir hvaða afleiðingar það hefur um ábyrgð á þeim framkvæmdum.

Herra forseti. Hv. fjárln. fær álit fagnefnda á tillögum sínum. Þar eru veittar u.þ.b. 20 mínútur til að hlusta á erindi forstöðumanna stofnana og svo á að taka ákvörðun um fjárveitinguna. Mér er lífsins ómögulegt að skilja rekstur stofnana á 20 mínútum. Það getur vel verið að ég sé svona takmarkaður, en þegar stofnanir eða fyrirbæri eins og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eða eitthvað því um líkt kemur með óskaplega mikinn rekstur þá er mér ofboðið að skilja það á 20 mínútum, fyrir utan það að við fáum hvorki reikninga né annað til þess að átta okkur og glöggva okkur á rekstrinum.

Þess vegna skrifaði ég ekki undir álit hvorki félmn. né hv. iðnn., sem ég á sæti í, þó ég væri viðstaddur afgreiðsluna. Ég get ekki lagt heiður minn við það að skrifa undir fjárlagatillögur til stofnana eða aðila úti í bæ, og ég veit ekkert hvort þær tillögur sem lagðar voru til voru of háar eða of lágar.

Herra forseti. Þetta er gölluð framkvæmd. Hæstv. ráðherrar, sem viðkomandi málaflokkur heyrir undir, geta ekki borið ábyrgð eins og þeir eiga að bera samkvæmt stjórnarskránni á þeim framkvæmdum sem Alþingi hefur samþykkt. Það liggur í augum uppi. Þeir geta ekki borið ábyrgð á því ef uppeldið á þessum hundi í Vestmannaeyjum mistekst. Það hlýtur að vera ákvörðun og ábyrgð Alþingis og Alþingi getur þar af leiðandi ekki kallað neinn til ábyrgðar, þannig að þetta vinnulag hv. fjárln. leiðir til ábyrgðarleysis, sem hefur viðgengist í áratugi.

Síðan er það dálítið undarlegt ef maður setur sig í stöðu þeirra gesta sem koma til fjárln. og til viðkomandi fagnefndar og hugsanlega í ráðuneytið. Hvað er verið að gera þessu fólki? Það þarf að fara með betlistaf frá einum stað til annars og tyggja upp sömu rulluna.

Mér þætti miklu eðlilegra að hv. fjárln. setti ráðuneytunum ákveðinn ramma og segði: Hér eru þúsund milljónir. Við viljum að þetta og þetta sé gert, í þessum anda, og síðan sjái ráðuneytið um framkvæmdina. Þegar fé er veitt til ákveðinnar framkvæmdar, hvort sem það er að hlaða rétt, byggja torfbæ, reisa kirkju í Vestmannaeyjum eða eitthvað slíkt, þá þarf fyrst að kanna þörfina. Síðan þarf að hafa eftirlit með framkvæmdinni meðan á henni stendur og svo þarf að hafa eftirfylgni með framkvæmdinni, hvort til hafi tekist eins og til var ætlast. Allt þetta skortir þegar Alþingi veitir fé beint.

Þetta er að mínu mati mjög gölluð og röng nálgun við það að veita fé og ég vildi gjarnan að menn færu að skoða hvort ekki mætti gera þetta á skynsamlegri máta, fela framkvæmdarvaldinu framkvæmd, eins og til stendur, og vera svo mjög harður á því að spyrja það út úr og láta það bera ábyrgð á þeim framkvæmdum sem það fer út í.

Herra forseti. Núna ... (Gripið fram í.) Ég ætla að geta þess að ég mun greiða atkvæði gegn eða sitja hjá við flestar þessar tillögur fjárln.

Herra forseti. Nú þegar fjárln. hefur skilað tillögum sínum (Gripið fram í: Meiri hlutans.) er liðinn tími lokana á deildum sjúkrahúsa, upphlaupa og auglýsinga á biðlistum og því um líkt, þar sem krabbameinssjúkum börnum og geðfötluðum er teflt fram, og vertíðinni hjá þeim iðnaði sem gerir út á ríkissjóð er lokið. Þetta er náttúrlega ekkert annað en markaðsstarf hjá þeim aðilum. Þeir eru að stunda markaðsstarfsemi sína og þeir beina henni að sjálfsögðu að þeim sem veita þeim tekjurnar, eins og aðrir sem stunda rekstur. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa afgang á fjárlögum, það er afskaplega mikilvægt. Það eru teikn til atvinnulífsins að menn ætli sér að stunda öguð vinnubrögð og það eru enn fremur teikn til erlendra matsfyrirtækja og lánastofnana um að ríkisvaldið ætli að gera sitt til þess að stuðla að ró í atvinnulífinu á Íslandi.

Reyndar skil ég ekki almennilega þau miklu upphlaup og upphrópanir um kreppu á Íslandi. Ég skil það ekki. Það er margt gott að gerast. Til dæmis hefur það gerst eftir 11. september að vextir hafa lækkað um 1% í útlöndum. Það þýðir að Íslendingar borga sennilega 10 milljörðum minna í vexti af öllum þessum skuldum sem þeir hafa búið til, 10 milljarða, og ríkissjóður einn sér sennilega svona 3, 4 milljarða. (Gripið fram í: Hvað með gengisfellinguna?)

Síðan hefur olíuverð stórlækkað. Það er nú aldeilis gott fyrir útgerðina eða flugfélögin. (Gripið fram í.) Herra forseti, get ég fengið frið? Ég vil gjarnan hafa aga jafnt á fundum Alþingis sem annars staðar, herra forseti. Síðan gerist það að ferðaþjónustan --- það má vel vera að hún kunni að njóta góðs af þessum atburðum vegna þess að nú munu ferðamenn leita til landa þar sem er öryggi, og Ísland telst náttúrlega mjög öruggt land. Ég er því ekki viss um að þessir atburðir séu svo neikvæðir.

Varðandi gengisfellinguna eða gengisfallið, gengið er ekki fellt, það fellur sjálft á markaði, þá er það mjög gott fyrir fyrirtæki sem stunda útflutning. Ef við lítum á þau fyrirtæki eða rekstur þeirra með augum erlendrar myntar, þá breytast erlendar skuldir þessa fyrirtækis ekki neitt, erlendar tekjur breytast heldur ekki neitt. Það sem breytist eru innlendar skuldir sem lækka og innlendur tilkostnaður sem lækkar. Þannig að hagur allra fyrirtækja sem flytja út batnar mjög mikið við gengisfallið. Útgerð á Íslandi blómstrar um þessar stundir, þó að bókhaldsreglur sem færa upp erlendar skuldir í einu vetfangi sýni tap fyrsta kastið.

Við Íslendingar búum við atvinnuleysi sem er ekkert atvinnuleysi. Það er skortur á vinnuafli. Þetta er einsdæmi í heiminum. Ég hefði gaman af að kynnast því einhvers staðar að þar sé 1% atvinnuleysi. Og menn tala um kreppu. Hvernig í ósköpunum getur verið kreppa þegar hver einasta hönd er gjörnýtt? Mér þætti gaman að sjá það. Ég skil bara ekki þetta tal.

Það má vel vera að atvinnuleysið, þetta sem ekkert er, sé að nálgast það að vera eðlilegt. Ég hef heyrt að 2% væri eðlilegt, þá er atvinnuleysi orðið eðlilegt, þ.e. fólk sem er að skipta um vinnu. Þegar það er komið upp í 2% þá skal ég fara að hafa áhyggjur með þeim hv. þm. sem hafa hrópað hæst um kreppu.

Svo er það spurningin: Hvaða afleiðingar hefur gengisfallið og af hverju er gengisfall? Gengisfallið er eflaust af mörgum ástæðum, m.a. vegna upphrópana þar sem menn eru að tala um kreppu. En það er líka vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki þeirra hafa skuldsett sig mjög mikið á undanförnum árum. Og menn geta svo sem gagnrýnt það og sagt við landsmenn: Þið eruð eyðsluseggir og eigið ekki að vera að kaupa ykkur jeppa o.s.frv. En ég hef nú einu sinni sagt það að fólk eigi að geta ráðið því sjálft hvað það gerir við peningana sína.

Íslendingar eru því orðnir dálítið skuldsettir og núna eru þeir í óða önn að greiða niður skuldir sínar. Það leiðir til þess að bankarnir, sem fjármögnuðu þær lántökur erlendis eru að greiða niður erlendar skuldir, sem þýðir að fé streymir út. Það vantar dollara til að borga af lánunum og gengið fellur. Gengið fellur vegna þess hve Íslendingar eru duglegir að borga niður skuldir meðal annars. Svo koma náttúrlega inn í kauptækifæri sem íslensk fyrirtæki hafa fengið erlendis, en það skilar sér allt saman í framtíðinni með væntanlega arðgreiðslum frá þeim fyrirtækjum til Íslands og þá hækkar gengið aftur. Ég sé því ekki hvað er vandamálið.

[24:15]

Það sem gæti gerst er að verðbólgan færi í gang vegna þess að gengið fellur en þá kemur á móti að fólkið er svo skuldsett að það getur ekki keypt mikið meira. Öll teikn sýna líka að neyslan er að dragast saman, og það þýðir ekkert að hækka bíla þegar enginn kaupir þá. Samkeppni mun stóraukast á öllum sviðum verslunar og hún vinnur á móti því að gengisfallið komi fram í verðbólgunni. Það er spá manna að verðbólgan minnki. Það er ekki rétt sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði, að verðbólgan hafi nálgast tveggja stafa tölu, hún hefur aldrei farið upp í 10% undanfarið.

Vandamálið núna er að stíga þarf varlega á bremsurnar þannig að menn séu tilbúnir með aðgerðir þegar atvinnuleysið fer upp í 2% og þá kemur skattalækkun ríkisstjórnarinnar eins og himnasending. Hún mun örva atvinnulífið og koma í veg fyrir að lendingin verði harkaleg ef til hennar skyldi koma.

Ég er mjög hlynntur því að fjárlögum sé skilað með afgangi, þeim sama afgangi og lagt var til. Þar sem hv. fjárln. hefur lagt til 2,3 milljarða aukningu á útgjöldum þarf að sjálfsögðu að ná þeim inn og ég er alveg hjartanlega sammála því að skera eigi niður, gera eigi kröfu um betri stjórnun, kröfu um hagræðingu hjá opinberum fyrirtækjum eins og annars staðar. Ég er alveg sannfærður um að það er heilmikið loft í rekstri opinberra fyrirtækja.

Það þarf að auka agann, það þarf að láta menn skilja að við þurfum að gera meiri kröfur um betri stjórnun og við þurfum t.d. að taka á virkni ferðalaga og fundarseta. Það þarf að gera fundarsetur og ferðalög virkari.

Herra forseti. Það sem hefur einkennt fjárlög og rekstur opinberra fyrirtækja í áratugi hér á landi er agaleysi. Menn tóku fjárlög nánast sem einhvers konar áætlun sem menn færu svona nokkurn veginn eftir og það gerði ekkert til þó að þeir færu svona 10--20% umfram í einstökum stofnunum. Þetta er náttúrlega alrangt. Fjárlög eru lög. Sá sem brýtur fjárlög og fer tíu milljónir umfram er að ná sér í peninga úr ríkiskassanum sem Alþingi hefur ekki samþykkt. Hann er að taka sér fjárveitingavald og það gengur ekki. Ég hef bent á að ég sé engan mun á þeim manni sem brýtur stjórnarskrána með því að taka sér fjárveitingavald og nær sér í milljónir úr ríkiskassanum og hinum sem brýst inn í banka. Þetta hef ég sagt hér í þessum ræðustól. Ég vil að menn taki upp miklu meiri og betri aga í þessum málum, menn eigi hreinlega að standa við fjárlög.

Mig langar til, herra forseti, að lesa hérna örstutt úr 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkissjóðs. Þar stendur:

,,Forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila bera ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir. Þessir aðilar bera jafnframt ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög þessi og staðið sé við skilaskyldu á þeim til ríkisbókhalds.

Brot á ákvæðum laga þessara varða skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.``

Ég vil að staðið sé við þessi ákvæði og menn reknir ef þeir ekki standa við fjárlög. Þannig á að vinna. Fjárlög á að taka alvarlega. Það er stjórnarskráin sem segir að ekki megi veita fé úr ríkissjóði nema með lögum frá Alþingi og menn verða að virða stjórnarskrána og vilja Alþingis sem kemur fram í fjárlögum.