2001-11-28 00:21:45# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:21]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. veigrar sér við að svara spurningu minni og snýr út úr henni. Ég veit vel, hv. þm., að við erum á löggjafarsamkundu íslensku þjóðarinnar. En tilvitnun þín í upphafi ræðu þinnar ...

(Forseti (ÁSJ): Hv. þm.)

Tilvitnun hv. þm. gekk út á samlíkingu við meðalstórt bandarískt hlutafélag. Spurningin var þá einfaldlega þessi, sem ég bið hv. þm. um að svara: Ef við setjum hæstv. ríkisstjórn sem stjórn yfir þetta bandaríska fyrirtæki sem er vafalaust með svipuð umsvif og við erum að tala um hér fyrir litla Ísland var spurning mín þessi: Telur hv. þm. að ef þessi stjórn í þessu hlutafélagi, sem hv. þm. vitnaði til í byrjun, hefði skilað slíkri afkomu í fjármálum fyrirtækisins eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert undanfarin ár, að ,,stjórn`` þessa hlutafélags yrði endurráðin, að hún mundi hljóta kosningu til að halda áfram að stjórna á sama hátt? Mig langar bara að fá svar við þessari spurningu.

Hitt atriðið sem ég vil spyrja hv. þm. út í: Telur hv. þm. að barátta heilbrigðisstétta, barátta t.d. Þroskahjálpar, fyrir auknum fjárveitingum til að sinna neyðaraðstoð sé iðnaður sem gerir út á ríkissjóð, svo notuð séu beint orð hv. þm.?