2001-11-28 00:30:56# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er eiginlega verið að spyrja mig hérna um sálarfræði og ég get ekki svarað því hvort mínar hugsanir séu einhvern veginn endurómun úr hugsunum annarra hv. sjálfstæðisþingmanna þannig að ég get ómögulega svarað þessu. Ég segi bara það sem ég hugsa og ég get eiginlega ekki lesið í gegnum fjartengingu hvað aðrir hv. sjálfstæðisþingmenn eru að hugsa.

En varðandi það að ég vilji aga. Ég held að íslensku atvinnulífi sé mjög nauðsynlegt að meiri agi sé mjög víða, og við erum að vinna að því. Þess vegna voru fjárreiðulögin sett. Fjárreiðulögin eru ekkert annað en krafa um aukinn aga. Það var mjög mikið atriði í sambandi við þau lög að ná fram þessum aga eins og menn muna kannski frá þeim tíma þegar þau voru sett. Sú grein sem ég las upp er einmitt dæmi um það.

Varðandi það hvort ég vilji taka á þeim sem eyddu umfram efni þarf ég þess ekki. Það fólk er núna því miður skuldum vafið margt hvert og á í miklum erfiðleikum, og það sem kannski hefur skort á er að kenna mönnum hvað það þýðir að taka lán. Kannski mætti segja einstaka manni það sem ekki veit hvað það þýðir. Þegar menn taka lán eru þeir að ráðstafa framtíðartekjum sínum og þeir gera það ekkert voðalega oft nema lenda í miklum vandræðum.

Því miður held ég að reynslan verði ansi dýrkeypt fyrir það fólk sem hefur lifað um efni fram og það fólk þarf ekkert annan aga.