2001-11-28 00:32:49# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[24:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er nokkuð liðið á umræðuna og hefur verið farið mjög vítt um sviðið. Áður en ég fer í mína málaflokka, þ.e. þá málaflokka sem ég hef starfað mest í á vegum þingsins í vetur, sem eru umhverfismálin og mennta- og menningarmálin, langar mig aðeins að hafa nokkur orð um þessar undarlegu kringumstæður sem við erum stödd í þegar við ræðum þetta fyrirliggjandi fjárlagafrv. og þær brtt. sem þegar hafa litið dagsins ljós frá hv. fjárln. og ríkisstjórninni.

Við erum hér með í pappírum brtt. sem gera ráð fyrir hækkun frv. um 2,2 milljarða kr. Þær koma annars vegar frá ríkisstjórninni og hins vegar hv. fjárln. Á sama tíma liggur fyrir, eins og margoft hefur komið fram hér í dag í umræðunni, yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um að frv. skuli skorið niður um 3--4 milljarða. Í dag veit enginn hvort hækkunartillögurnar koma til með að verða skornar eða hvort á að ráðast einhvers staðar allt annars staðar á frv., og í þessari óvissu fer umræðan fram, og óvissa þessi litar vissulega umræðurnar.

Það er harla erfitt að eiga samtal við hæstv. ráðherra eða stjórnarliða hér í þessum sal þegar óvissan er jafnnagandi og hún er í dag. Það var ekki beysið upplit á hv. formanni fjárln. þegar hann þurfti í löngu máli hér fyrr í dag að gera grein fyrir öllum brtt. um hækkanirnar, hafandi yfir sér sveðjuna um niðurskurðinn upp á 3--4 milljarða á frv. sem þýðir þá vafalaust brtt. allar plús 3--4 milljarðar í viðbót.

Fyrir utan þetta er náttúrlega ástandið í fjármálum þjóðarinnar og efnahagsmálunum svo grafalvarlegt að sameiginlegar skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið jafnháar og þær eru í dag. Þetta eru því ekki auðveldar kringumstæður, herra forseti, til að ræða um fjárlagafrv.

Það er búið að fara vítt yfir sviðið. Það er búið að ræða um væntanlegan utanríkisráðherrafund NATO sem á að kosta a.m.k. á fjórða hundrað milljónir. Það er búið að tala um flugstöðina, Schengen, skattalækkanirnar á hátekjufólkið og fyrirtækin og fleira og fleira, og það sem maður saknar auðvitað fyrst og fremst í þeim veigamiklu spurningum sem bornar eru upp er að hæstv. forsrh. skuli ekki sýna sig hér. Þó ber að þakka þær heimsóknir sem við höfum fengið frá hæstv. ráðherrum í dag. Ég hef óskað eftir því sérstaklega að hæstv. menntmrh. verði viðstaddur ræðu mína og ég veit af honum hér í hliðarsal og treysti því að hann komi til með að hlýða á mál mitt þegar ég fer í menntamálin en þar eru ákveðin atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um.

Ég held að ég byrji þó á umhverfismálunum, herra forseti. Á þskj. 399 er nál. frá meiri hluta fjárln. ásamt álitum þeim sem fagnefndirnar hafa sent til hv. fjárln.

Umhvn. var að þessu sinni nokkuð samstiga í afgreiðslu sinni til fjárln. og ber að fagna því. Þau mál sem komu fyrir hv. umhvn. í umræðunum um fjárlagafrv. lutu að nokkrum stofnunum umhvrn., t.d. Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagsstofnun. Allar þessar stofnanir starfa samkvæmt lögum og hafa lögbundin verkefni og allar þessar stofnanir eiga það sammerkt að hafa árum saman þurft að leita til fjárlagavaldsins á hverju einasta ári til að reyna að fá einhverja rýmkun þannig að þær geti staðið undir sínum lögbundnu verkefnum.

Í þetta sinn var þessu einnig svona háttað, herra forseti, og þannig kemur það fram í áliti hv. umhvn. til fjárln. að fulltrúi Hollustuverndar ríkisins hafi óskað eftir leiðréttingu á fjárlagafrv. vegna eldri skuldbindinga stofnunarinnar og færði einnig veigamikil rök fyrir því að stofnunina vantaði talsvert fé til að sinna skuldbindingum sem ríkisvaldið hefur lagt á stofnunina og falla undir forgangsmál. Að mati stofnunarinnar og reyndar eftir því sem fram kom í mati nefndarinnar er ekki ágreiningur um forgang þeirra mála sem Hollustuvernd hefur gert nefndinni grein fyrir. Þannig hefur hún fengið virkilega aukin verkefni sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu og það skortir mjög á að stofnunin hafi fjárhagslegan grundvöll til að sinna þessum verkefnum og standa undir kostnaði við þau.

Umhvn. var sammála um það, herra forseti, að nauðsynlegt væri að kanna í fjárln. hvernig hægt yrði að mæta þessum þörfum. Og ég verð að spyrja, herra forseti, hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, formann fjárln.: Hvað gerði fjárln. í þessum efnum? Hvaða meðferð fékk álit hv. umhvn. í hv. fjárln.?

Í framhaldi af þessari spurningu, herra forseti, að þeirri næstu sem varðar Náttúruvernd ríkisins. Það hefur komið fram í máli þeirra sem talað hafa fyrir málefnum Náttúruverndar hér ár eftir ár að sú stofnun hafi á sama hátt og Hollustuvernd ríkisins ekki úr nægilegu fjármagni að spila til að standa undir lögboðnum verkefnum. Og þar skeikar ansi stórum tölum, herra forseti. Vegna verkefnanna sem Náttúruvernd ríkisins hefur tekið að sér, og umhvn. telur brýnt að stofnuninni verði gert kleift að sinna --- það var ekki ágreiningur um þetta í nefndinni, herra forseti --- óskaði umhvn. eftir því að fjárheimildir vegna þjóðgarðsins á Snæfellsnesi yrðu auknar þannig að mögulegt yrði að byggja upp starfsemi í þessum nýopnaða þjóðgarði sem er, eftir því sem manni hefur heyrst á máli hæstv. umhvrh., stolt hennar. Satt að segja verður maður fyrir vonbrigðum þegar maður les brtt. frá hv. fjárln. því að þær ganga út á að þær 2,8 millj. sem þó virtust vera ætlaðar til þessa þjóðgarðs, ef ég skil brtt. hv. fjárln. rétt, verða aftur teknar af þessu verkefni, Snæfellsnesþjóðgarði. Eftir því sem kemur fram í þessu plaggi, þskj. 399, virðist eiga að færa þessar 2,8 millj. á annan þjóðgarð sem hæstv. umhvrh. gerir ráð fyrir að opnaður verði á næsta ári, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarð.

Það er að sönnu rétt, herra forseti, að athugasemdir voru gerðar við það í 1. umr. fjárlaga að ekki skuli ætlað neitt fé til opnunar hins nýja Vatnajökulsþjóðgarðs. En það er ekki alveg sanngjarnt, herra forseti, að taka þessar litlu 2,8 millj. af Snæfellsnesþjóðgarði og setja þær í Vatnajökulsþjóðgarð. Ég vil þess vegna fá skýringu frá hv. fjárln. á því hvers vegna svona er haldið á málum og hvers vegna ekki er farið að tilmælum hv. umhvn. í áliti því sem ég hef verið að gera hér grein fyrir.

Nefndin nefnir meira að segja í áliti sínu ákveðna upphæð og hún segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þjóðgarðurinn [þ.e. Snæfellsnesþjóðgarður] var stofnaður sl. sumar og telur nefndin að þær 10 millj. kr. sem hann á að fá samkvæmt frumvarpinu dugi engan veginn til þessa.``

Ég vil fá viðbrögð frá hv. formanni nefndarinnar vegna þessara þjóðgarða.

Að lokum, herra forseti, varðandi stofnanir umhvrn. eru það málefni Skipulagsstofnunar. Þau voru rædd á fundum umhvn. og nefndin leggur áherslu á í sínu áliti að þess verði gætt að Skipulagssjóður, sem hefur ákveðna eyrnamerkta fjárveitingu í fjárlagafrv., verði þannig úr garði gerður á næsta ári að hann hafi fjárhagslega burði til að ná markmiði sínu sem er að standa að baki og kosta aðalskipulagsgerð fyrir öll sveitarfélög á landinu, og því verkefni á samkvæmt lögum að vera lokið árið 2008.

Eins og fjárlagafrv. er í dag gerir það ráð fyrir 80 millj. kr., sem er 30 millj. kr. lægri upphæð en var á síðasta ári, og það er nota bene innheimt skipulagsgjald sem er tekjustofn þessa sjóðs. Og eftir því sem gestir þeir er komu til umhvn. sögðu er ekki nein skýring á því hvers vegna gert er ráð fyrir svo lækkaðri innheimtu á næsta ári frá því sem verið hefur á yfirstandandi ári. Af þessum 80 milljónum munu 30 milljónir vera bundnar þannig að einungis 50 milljónir munu verða í verkefnið sem stofnunin hefur gert ráð fyrir að hafa 110 milljónir í. Af þessu hefur umhvn. áhyggjur, en ekki var að sjá nein viðbrögð frá hv. fjárln. í tillögunum sem liggja fyrir frá henni.

Herra forseti. Þá er einungis eitt mál enn sem ég þarf að nefna varðandi umhverfismálin en það kemur fram í bréfi því er fylgdi áliti umhvn. til hv. fjárln. Í því bréfi er fjallað um safnliði sem umhvn. fékk til umfjöllunar og hafði fjárln. óskað eftir því við umhvn. að hún veitti umsögn um möguleg framlög til frjálsra félagasamtaka, og fylgdi umsögn frá Náttúruverndarsamtökum Íslands umsókn um stuðning. Ein eða tvær aðrar umsóknir voru þarna og nefndin gerði ekki neinar athugasemdir við t.d. tillögu um þann safnlið sem við höfðum til umfjöllunar, að 1,5 millj. færi til skráningar á gömlum húsum á Núpsstað á Suðurlandi, en lagði síðan til við fjárln. að umhvrn. yrði falið að skipta þessum tiltekna safnlið á milli frjálsra félagasamtaka og sá hluti safnliðarins sem nefndin telur að eigi að skipta á milli þessara samtaka er upp á 4 millj. kr. Í bréfi frá hv. umhvn. til hv. fjárln. segir, með leyfi forseta:

[24:45]

,,Þessum fjármunum, 4 milljónum, verði skipt eftir vinnureglu sem ráðuneytið hefur mótað í samráði við félagasamtökin og verði þar m.a. tekið tillit til eðlisstarfsemi viðkomandi félaga, umfangs þeirra, og jafnræðis gætt við úthlutun. Nefndin leggur því til að umsókn Náttúruverndarsamtaka Íslands verði vísað til ráðuneytisins jafnframt því sem nefndin mælir með umsókninni. Umhverfisnefnd mun á yfirstandandi þingi taka til umfjöllunar hvernig ákvörðun um fjárframlög til félagasamtakanna verði háttað í framtíðinni.``

Sjálf fagna ég þeirri ákvörðun nefndarinnar að ætla að taka fjármögnun frjálsra félagasamtaka á þessu sviði sérstaklega til umfjöllunar og hlakka einungis til að takast á við það verkefni. Á hitt vil ég benda sérstaklega, og vekja athygli þingheims á, að þessar 4 millj. á safnliðnum sem ætlaðar eru til frjálsra félagasamtaka eru sama upphæð og fer til frjálsra félagasamtaka á yfirstandandi fjárlagaári.

Þá spyr ég, herra forseti: Hvað með loforð hæstv. umhvrh. um 8 milljónirnar sem Náttúruverndarráð hafði á yfirstandandi ári en hæstv. umhvrh. ætlar, eins og þingheimi er kunnugt, að leggja niður og hefur haft hástemmdar yfirlýsingar um að því fé skuli deilt á milli náttúruverndar- og umhverfisverndarsamtaka. Það hefur reyndar komið fram í máli hæstv. umhvrh. á allra síðustu dögum að það muni víst vera hægt að deila þessum 8 millj. út oftar en einu sinni því að hún mun ætla að láta hluta af því fara til Breiðafjarðarnefndarinnar. Engu að síður er ekki hægt, herra forseti, að líða það af hæstv. umhvrh. að hér sé talað um það fjálglega að nú skuli efla frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar sem aldrei fyrr og það er ekki að sjá neinar efndir. 4 millj. voru það og 4 millj. verða það. Þetta þarf að skýra, herra forseti.

Hef ég þá lokið máli mínu varðandi störf umhvn. og gert þær athugasemdir sem ég taldi nauðsynlegar varðandi álit það er umhvn. sendi fjárln. Að öðru leyti má segja um brtt. hv. fjárln. að þær eru svo sem athugasemdaverðar og þar eru hlutir sem koma kannski ekki heim og saman við áherslur umhvn. Ég lýsi því bara yfir, herra forseti, að ég hefði óskað eftir nánara samstarfi milli nefndanna og að samskiptin væru þess eðlis að fagnefndir sem eru að gera tillögur til fjárln. --- ég sé ekki nein rök fyrir því að þær nefndir fái engin viðbrögð, eða viðbrögð sem eru þvert ofan í viðkomandi álit. Hver eru rökin ef álit fagnefnda eru sniðgengin? Þetta er á sömu nótum og ég kom inn á fyrr í dag í andsvari við hv. þm. Kristján Pálsson þar sem við vorum að fjalla um þá áráttu --- vil ég kalla það --- fjárln. að útdeila peningum af safnliðum til hægri og til vinstri þvert ofan í öll álit fagnefndanna og jafnvel þvert ofan í alla menningarstefnu eða fjárútlátastefnu stjórnvalda. Það er alveg spurning hvort ekki eigi að taka upp gamla nafnið á nefndinni og kalla hana fjárveitinganefnd en ekki fjárlaganefnd.

Er þá komið að þeim kafla í ræðu minni, herra forseti, þar sem ég ætlaði að fjalla um menntamálin og mundi ég þá vilja ganga úr skugga um að hæstv. menntmrh. væri einhvers staðar til staðar þannig að hann heyrði þær spurningar sem ég þarf að leggja fyrir hæstv. ráðherra.

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að hæstv. menntmrh. er í húsinu og mun væntanlega heyra málflutning þingmannsins.)

Ég treysti því, herra forseti.

Í menntamálunum vil ég byrja á Þjóðminjasafni Íslands. Eins og þingheimi er kunnugt voru samþykkt ný lög á síðasta þingi um Þjóðminjasafn, lög um Fornleifavernd ríkisins, húsafriðunarnefnd og flutning menningarverðmæta milli landa. Þessi lagabreyting fól í sér að sett yrði á fót ný ríkisstofnun, Fornleifavernd ríkisins, og ekki einasta það heldur tveir nýir sjóðir. Annar sjóðurinn er fornleifasjóður og hinn heitir safnasjóður. Báðir þessir sjóðir áttu að úthluta fé eftir framlagi ríkissjóðs sem ákveðið yrði í fjárlögum hvers árs. Nú sé ég ekki, herra forseti, tilvist þessara sjóða í fjárlagafrv. og ég sé ekki að hv. fjárln. hafi lagt fram nokkrar brtt. varðandi þetta efni. Þá er nauðsynlegt að spyrja: Hvernig á að vera hægt að starfa eftir þessum nýju lögum ef ekkert fjármagn verður ætlað til þessara tveggja sjóða sem er ætlað það hlutverk að fjármagna fornleifauppgröft og starfsemi safna sem heyra undir þessi lög? Það eru byggðasöfnin og fleiri söfn.

Það má svo sem átelja hæstv. menntmrh. fyrir það líka að vera ekki búinn að setja neina reglugerð við þessi nýju lög og þar af leiðandi ekki heldur nánari ákvæði varðandi starf þessara sjóða. Hér er um gríðarlegt stórmál að ræða, herra forseti, því að þessi fornleifaverndargeiri og minjageiri veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, er nánast lamaður á meðan hann veit ekki hvað er fram undan á næsta ári. Nógu erfitt er að þurfa að fara að fóta sig í nýju lagaumhverfi þó að fólki sé ekki boðið upp á það líka að fjárlagafrv. geri ekki ráð fyrir að viðkomandi lög geti tekið gildi.

Þjóðminjasafn Íslands er stofnun sem hefur átt undir högg að sækja í gegnum tíðina. Við vitum öll að Þjóðminjasafnið er lokað og okkur tekur öll sárt að horfa upp á það lokað ár eftir ár. Nú er búið að setja upp áætlun um endurbyggingu hússins, og gert er ráð fyrir að hægt verði að opna húsið, þ.e. Þjóðminjasafnið, vorið 2003, draumurinn er að það geti orðið 24. febrúar 2003. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það væri virkilega glæsilegt ef við gætum staðið saman að opnun Þjóðminjasafnsins á þessum degi, 24. febrúar 2003, því það er 140 ára afmælisdagur Þjóðminjasafnsins. (Gripið fram í.) Jú, fjárlögin gera ráð fyrir endurbótum hússins. Það er búið að fjármagna þær, og það er vitað nokkurn veginn að það fjármagn á að duga. En áætlun Þjóðminjasafnsins um að fjármagna grunnsýninguna sem á að fara upp í nýendurbætt húsið hljóðaði upp á, ef ég man rétt, herra forseti, 120 millj. kr. Þjóðminjasafnið hefur verið að óska eftir þessari fjárveitingu til að geta forvarið þá hluti sem eiga að fara inn á grunnsýninguna sem Þjóðminjasafnið ætlar að opna með. En, herra forseti, það er ekki króna í fjárlagafrv. næsta árs til að forverja hluti eða undirbúa þá þannig að þeir geti farið á grunnsýninguna. Og ég spyr, herra forseti, hæstv. menntmrh. og hv. formann fjárln.: Á að bjóða þjóðinni upp á Þjóðminjasafnið tómt?

Aðra hluti verður að nefna varðandi þessa nýju lagasetningu. Ég kom inn á það í ræðu minni þann 19. maí á þessu ári, sem var örlagaríkur dagur í þinginu, herra forseti. Þetta var dagurinn sem við samþykktum 34 lög og 12 þál. á einu bretti, umræðulítið eða umræðulaust. Þennan dag stóð ég í þessari pontu og hélt ræðu, hóf ræðu væri réttara að segja, herra forseti, um þessa nýju löggjöf sem varðar minjaarfinn okkar, Þjóðminjasafnið, Fornleifavernd ríkisins, húsafriðunina og flutning menningarverðmæta milli landa. Ég hélt því fram í þeirri ræðu að það væri illa gert við þennan mikilvæga málaflokk að setja þessi lög í gegnum þingið með hraði því að ég teldi málið vera gott en þyrfti skoðunar við, þingheimur þyrfti upplýsingar þannig að við gætum tekið réttar ákvarðanir á milli 2. og 3. umr. um málið. En herra forseti, ekki reyndist tími til þess, svo sannarlega ekki. Mínar hugmyndir eða mín sýn varðandi Fornleifavernd ríkisins, þessa nýju stofnun sem að mínu mati byggir á mjög góðri hugmyndafræði, fékk ekki byr undir vængina hér. Ég fékk ekki að gera grein fyrir máli mínu. Ég hafði ekki tíma til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra til að reyna að fylgja málinu þannig eftir sem við í hv. menntmn. höfðum þó unnið mjög vel og ofan í kjölinn, vil ég meina. Við vorum samt sammála um að ákveðnir gallar væru á löggjöfinni og nú eru þeir auðvitað allir að koma í ljós, herra forseti.

Hver var einn megingallinn sem við vildum eiga um orðastað við hæstv. menntmrh. sl. vor? Það var umsögn fjármálaskrifstofu varðandi fjármálin til þessarar nýju stofnunar því að ekki var gert ráð fyrir því í lagasetningunni að þessi nýja stofnun ætti að kosta nokkurn skapaðan hlut. Það var helst að skilja á frv. og greinargerð með því að þessi nýja stofnun ætti bara að verða til upp úr sjálfu sér inni í Þjóðminjasafninu, og Þjóðminjasafnið ætti í raun og veru að hafa þessa nýju stofnun á framfæri sínu. Það var í hróplegri andstöðu við lagasetninguna og við anda þessara nýju laga.

Hvað kemur á daginn þegar frv. til fjárlaga ársins 2002 er lesið? Þá kemur í ljós að Fornleifavernd ríkisins eru ætlaðar 5,6 millj. kr. af merktri fjárveitingu Þjóðminjasafnsins. Þessi nýja ríkisstofnun er ekki einu sinni merktur fjárlagaliður í fjárlagafrv. Er furða, herra forseti, þó að maður lýsi undrun sinni hér og nú með þetta metnaðarleysi? Ég spyr hæstv. menntmrh.: Til hvers var þessi lagasetning í vor? Átti Fornleifavernd ríkisins aldrei að fá að verða neitt? Var þetta bara sýndarmennska?

Nú koma forstöðumenn bæði Fornleifaverndar ríkisins, sem ráðinn var í byrjun september sl. þegar lögin tóku gildi, og þjóðminjavörður og reyndar með fjármálastjóra Þjóðminjasafnsins á fund menntmn. og þá er komið upp úr kafinu, þegar forstöðumenn þessara tveggja stofnana fara að bera saman bækur sínar, að ekki er hægt að láta einn fjármálastjóra hafa yfirumsjón með báðum stofnununum eins og voru greinilega hugmyndir hæstv. ráðherra þegar frv. var samið. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hlutverk þessara tveggja stofnana skarast mjög alvarlega þannig að Fornleifavernd ríkisins er gert að standa að útboðum á verkum varðandi fornleifauppgröft og fornleifarannsóknir og Þjóðminjasafnið á að geta boðið í verkin. Hvar stendur þá fjármálastjóri sem ætti að hafa umsjón með báðum stofnununum? Herra forseti. Hann stendur beggja megin við borðið. Það samrýmist auðvitað engum siðareglum eða samkeppnisreglum eða nokkrum öðrum reglum fyrir utan það að fjármálastjóri Þjóðminjasafnsins er náttúrlega störfum hlaðinn í Þjóðminjasafninu og hefur verið að vinna kraftaverk þar, tel ég, og er staðgengill þjóðminjavarðar og hennar nánasti samstarfsmaður og er þar af leiðandi ekki í stakk búinn til að bæta við sig nýrri stöðu, stöðu fjármálastjóra Fornleifaverndar ríkisins. Nú verðum við að fá að vita það hér í þessari umræðu, herra forseti, hvað á að gera. Eigum við að halda svona áfram að setja ný lög sem verður ekki hægt að framfylgja af því að þeim fylgja engar fjárveitingar? Eigum við þá ekki bara að bakka og snúa okkur aftur að gömlu löggjöfinni? Að mínu viti, herra forseti, er það miklu skynsamlegra. Svona vinnubrögð eru engum til sóma og gera þessum mikilvæga málaflokki bara ógagn, og var nóg fyrir. Hér verður að taka virkilega vel á til að lagfæra og leiðrétta þannig að ekki hljótist af óbætanleg slys.

[25:00]

Þá er ég komin að atriðum í brtt. fjárln. sem ég verð að segja að eru nokkuð furðulegar. Eins og kom fram í stuttu andsvari mínu við hv. þm. Kristján Pálsson fyrr í dag eru hér nokkur gæluverkefni sem hv. þm. fjárln. hafa óskað eftir að sett verði í þær brtt. og eru þar ótal verkefni t.d. á sviði þjóðminjaverndar, á sviði byggðasafna eða Þjóðminjasafns. Ég get nefnt endurbyggingu vélbátsins Blátinds í Vestmannaeyjum, endurbyggingu á Brydebúð, endurbyggingu Tryggvaskála á Selfossi, Síldarminjasafnið á Siglufirði, Safnahúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði, viðgerð á eikarbátnum Sædísi, Ísafirði, viðgerð á vélbátnum Gesti, Ísafirði, Safnahúsið í Búðardal, Kjarvalsstofa í Borgarfirði eystra, Saltfisksetur Íslands í Grindavík, Kaupvang í Vopnafirði, Duushúsin í Reykjanesbæ og svona mætti lengi telja. Þar að auki er gert ráð fyrir að húsafriðunarsjóður fái það í sinn hlut að sjá um endurbætur á Syðstabæjarhúsinu í Hrísey, Pakkhúsinu í Borgarbyggð, kaupfélagshúsinu í Breiðdalsvík og svo á hann að endurhlaða Hraunsrétt í Aðaldal og sjá um viðgerðir á gömlum beitiskúr í Grenivík.

Nú spyr ég, herra forseti, og við þessu verður að fást svar: Eftir hvaða menningarstefnu og minjaverndarstefnu vinnur fjárln. Alþingis? Og hvernig stendur á því að Þjóðminjasafninu og húsafriðunarsjóði er gert að styrkja ákveðin verkefni án þess að stjórnendur viðkomandi stofnana eða sjóða hafi komið að þeim málum? Hvernig stendur á því að endurbygging Kútters Sigurfara er sett nafngreind undir Þjóðminjasafnið á meðan endurbygging annarra báta er bara á safnlið Söfn, ýmis framlög? Hver er pólitíkin hér að baki?

Herra forseti. Ég get ekki varist þessarar spurningar vegna þess m.a. að ég var stödd á þingi Bandalags íslenskra listamanna um helgina. Þar var ályktað um heilmargt. Meðal þess sem var ályktað var um menningarstefnu. Óskað var eftir faglegum vinnubrögðum yfirvalda í þeim efnum. Nákvæmlega það sem listamenn og fagmenn t.d. í minjaverndargeiranum hafa verið að vara við, þær gryfjur sem hefur verið varað við að við gætum fallið ofan í eru allar galopnar hér. Og, herra forseti, við erum með lappirnar ofan í þeim, upp fyrir haus. Þetta er ekki fjárveitingavaldi Alþingis til sóma.

Ég spyr hæstv. menntmrh. sem mikið talar um sjálfstæði forstöðumanna stofnana: Hvar er pláss fyrir sjálfstæði þeirra sem starfa í þessum geira?

Þegar fjárln. er að veita hér framlög upp á 7 millj. kr., 4 millj. og guð veit hvað margar milljónir til einstakra verkefna, þá vil ég upplýsa það hér, herra forseti, að stóri styrkurinn sem húsafriðunarnefnd veitir einu sinni á ári til eins verkefnis í hverjum landshluta, stóri styrkurinn sem þeir sem sækja um í húsafriðunarsjóð óska eftir er upp á 2,5 millj. kr. En af því hv. fjárln. hefur öll fjárlögin undir, yfir 200 milljarða, þá getur hún ákveðið sjálf stærð sinna gæluverkefna.

Ég segi, herra forseti, ef fagmennirnir og fagráðin og sjóðstjórnirnar og þeir sem samkvæmt lögum eiga að hafa það hlutverk, að móta menningarstefnu og fylgja henni, ef þeir eiga endalaust að þurfa að kyngja svona löguðu, hvernig halda þingmenn í raun og veru að þetta fólk geti borið virðingu fyrir því sem við erum að gera og þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna, þeim verkefnum sem við fáum þeim í hendur?

Herra forseti. Í ræðu minni hef ég ekki nefnt innritunargjöldin í Háskóla Íslands. Ekki er hægt annað en að krefja Framsfl. einhverra sagna um það mál hér og nú. Við verðum að fá að vita hvort uppi er ágreiningur meðal stjórnarliða varðandi tillögu fjárlagafrv.

Í nál., reyndar eru tvö nál. frá hv. menntmn. og ásteitingarsteinninn eða ástæðan fyrir því að álitin urðu tvö, var ekki síst sú að innritunargjöld í háskólann voru ágreiningsmál í nefndinni. Ég vitna í álitið frá minni hluta menntmn., með leyfi herra forseta:

,,Minni hlutinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á að raunkostnaður við innritun nemenda hafi hækkað tilsvarandi við það sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu. Minni hlutinn telur að með hagræðingu eigi að vera hægt að láta innritunargjöldin nægja fyrir raunkostnaði.``

Þetta, herra forseti, er stefna stjórnarandstöðunnar á Alþingi.

En við verðum að fá að vita, herra forseti, hvort þetta er líka stefna Framsfl. því það kann að vera. Ég auglýsi því hér eftir svörum frá Framsfl. varðandi þetta mál.

Síðan er hv. menntmn. sammála um að það sé í hæsta máta gagnrýnivert að ekki skuli enn lokið gerð samnings um fjármögnun til rannsókna í háskólanum. Og þess utan er nefndin sammála um að það teljist óeðlilegt að ekki skuli vera samræmi á milli verðbótaþáttar á kennslukostnað og verðbóta á rannsóknakostnað í frv. Nefndin biður um að þetta verði leiðrétt. Ekki er að sjá í brtt. þeim sem liggja hér fyrir að þetta eigi að leiðrétta. Ég spyr hv. formann fjárln. hverju það sætir. Af hverju er þetta ekki leiðrétt? Er einhver ástæða fyrir því? Þá verður að liggja fyrir skýring á því hér, herra forseti.

Þá er rétt að gera athugasemd, herra forseti, vegna þess að ég skrifaði undir nál. minni hlutans með fyrirvara. Ég verð að fá að gera grein fyrir því hver sá fyrirvari er. Hann lýtur aðeins að einum þætti þessa álits frá minni hluta menntmn., þ.e. kaflanum um Ríkisútvarpið.

Í áliti frá minni hluta menntmn. segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að leysa fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins tafarlaust.``

Um þetta deilum við ekki í minni hluta nefndarinnar. Hins vegar segir örlítið síðar í álitinu, með leyfi forseta:

,,Nú þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva hefur verið lagður niður og aðrar stofnanir þurfa ekki lengur að greiða lögbundið framlag til hans heldur Ríkisútvarpið áfram að greiða 25% af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar eða samkvæmt áætlun fyrir næsta ár 103 millj. kr. Undir þann rekstur þarf að skjóta öðrum stoðum.``

Herra forseti. Um þetta erum við í minni hlutanum ekki sammála. Ég vil meina að lítill sparnaður verði af því að skilja milli Sinfóníuhljómsveitarinnar á þennan hátt og Ríkisútvarpsins, því það sem gerðist í staðinn væri einungis að Ríkisútvarpið þyrfti að fara að borga fyrir flutning á sinfóníutónleikum.

Að mínu áliti skiptir það ekki meginmáli hvorum megin fjármunirnir koma, hérna megin borðs eða hinum megin, ef þeir koma frá sömu stofnun, þ.e. í þessu tilfelli Ríkisútvarpinu.

Ég tel satt að segja að skjóta þurfi styrkum stoðum undir báðar þessar stofnanir. Og það höfum við rætt í menntmn. og erum í raun og veru ekki að deila um. Það virðist vera sátt um það í nefndinni. En lausnirnar á málum þessara stofnana hafa ekki legið þannig á borðum stjórnarliða í öllu falli að þær rati hér inn í brtt. þó svo að ég fagni að sjálfsögðu 7% hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins og því að það skuli eiga að takast á við þann vanda sem að þeirri stofnun hefur steðjað, því eins og við höfum svo oft fjallað um hér í þingsalnum er Ríkisútvarpið auðvitað ein af okkar merkustu menningarstofnunum og án þeirrar menningarstofnunar væri íslenskt samfélag mun fátækara en það er í dag.

Herra forseti. Þetta er sjálfsagt orðið miklu lengri ræða en ég ætlaði mér að hafa hana. Ég held ég sé komin í gegnum það sem ég taldi vera nauðsynlegast að koma hér á framfæri og hafi komið frá mér flestum spurningum sem á mér brunnu og mig langaði til að leggja fyrir hæstv. menntmrh. og hv. formann fjárln. Að ósekju má hæstv. fjmrh. hafa skoðanir á því sem ég hef lagt hér til líka.

Ég harma hins vegar að umræðan skuli ekki hafa meira svigrúm eða meiri tíma og að eilíflega skuli vera þessi pressa á okkur þingmönnum þegar við ætlum að ræða fjárlögin, að við erum send inn í nóttina með þá umræðu og orðið mismunandi lágskýjað hjá fólki. Mér finnst umræðan um fjárlög íslenska ríkisins eiga skilið meiri birtu.