2001-11-28 01:15:50# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:15]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður gat fjárln. ekki orðið við öllum þeim góðu tillögum sem fyrir nefndina komu varðandi þau efni sem hv. þm. gerir hér að umræðuefni, þ.e. margvísleg menningarverkefni, verkefni er snúa að byggingum fornum og nýjum, bátum, söfnum og öðru slíku.

Að sjálfsögðu er það hárrétt hjá hv. þm. að við höfum fagstofnun eða stofnanir til þess að takast á við þessi verkefni. En verksvið þeirra og sjónarhorn og umboð er miklu þrengra en þau sjónarmið sem fjárln. hefur til hliðsjónar við útdeilingu þessa fjár. Þar verður að taka tillit til margra annarra þátta. Ég nefndi ferðamál. Ég nefndi húsavernd og byggðasjónarmið. Og ég vil líka nefna hvatningu sem fjárln. veitir margvíslegum félögum, einstaklingum og sveitarfélögum til þess að efla anda, framsýni og bjartsýni í þeim byggðum sem fá slík verkefni til sín.

Við höfum orðið vör við það í fjárln. að þessu fé hefur verið vel varið. Alltaf má deila um það og að sjálfsögðu verður aldrei lagður neinn algildur mælikvarði á þetta. En ég fullvissa hv. þm. um að við lögðum verulega vinnu í þetta með öll þessi margvíslegu sjónarmið að leiðarljósi og hörmum það fyrst og fremst að við gátum ekki komið lengra til móts við öll þau góðu verkefni sem óskað var eftir fjármagni til.