2001-11-28 01:17:53# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það veit sá sem allt veit að ég geri ekki lítið úr þeim verkefnum sem hér hafa verið nefnd eða sem fjárln. gerir tillögu um að hljóti stuðning, þvert á móti. Ég viðurkenni fúslega að þar er um mjög mörg þörf verkefni að ræða. Sannarlega hefðum við í menntmn., sem fékk til umsagnar safnliðina, viljað hafa meira svigrúm til þess að láta öll þessi góðu verkefni hafa eitthvað sem við töldum að væri rétt og sanngjarnt og metnaðarfullt og menningarlegt.

En hvað gerist, herra forseti? Við höfum svo lítið svigrúm af því safnliðirnir, eins og allir þingmenn vita, voru skornir svo mikið niður.

Svo eftir að tillögum eða áliti hv. menntmn. er skilað gerist náttúrlega það sama og gerist venjulega, safnliðirnir vaxa að umfangi. Og í þetta skipti varð vöxturinn gífurlegur miðað við það hve safnliðirnir voru lágir í upphæðum í frv. því fjárln. gaf sér 30 millj. til viðbótar.

Herra forseti. Ég rifja enn upp að stóri styrkurinn hjá húsafriðunarnefnd er 2,5 millj. á verkefni.

Ég spyr enn og auglýsi eftir því að hv. formaður fjárln. skýri það fyrir okkur: Hvers vegna er þá ekki aftur leitað til menntmn. sem hafði liðina til umsagnar þegar liðurinn vex allt í einu um heilar 30 millj.?

Herra forseti. Þarna finnst manni lítið gert úr störfum þeirra þingmanna sem þó lögðu það á sig að fara vel og gaumgæfilega yfir allar umsóknir sem fyrir lágu. Við forgangsröðuðum í menntmn. og höfðum ákveðnar hugmyndir um það, ef liðirnir stækkuðu, hvað ætti að fara þar inn. Ég nefni t.d. leikminjasafn sem var eitt af verkefnunum sem sótt var um fyrir. Menntmn. var jákvæð gagnvart því, en hv. fjárln. því miður ekki.