2001-11-28 01:32:09# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[25:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin sem voru afskaplega greinargóð. Ég fagna því að fyrir þessum hlutum skuli þó vera þannig séð sem hæstv. ráðherra hefur nú lýst. Ég fagna því sömuleiðis að full meðvitund skuli vera um það í hv. fjárln. að þetta mál verði tekið þannig fyrir að þegar málið kemur aftur til 3. umr. komi þessir sjóðir til með að verða nafngreindir liðir í fjárlögunum sem og Fornleifavernd ríkisins þá einnig, miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði.

Varðandi hitt sem hæstv. ráðherra fjallaði um, sem var menningarstefnan, þá vil ég líka fagna. Ég hef sjaldan verið jafnánægð með ræðu hæstv. ráðherra úr þessum stóli því við erum gersamlega sammála um menningarstefnu og nauðsyn þess að menningarstefna sé skýr og að hún sé sett þannig fram að auðvelt sé að framfylgja henni og allir viti hvaða hugmyndafræði á þar að vera við lýði.

Handahófskennd menningarstefna fjárln. er hæstv. ráðherra því greinilega ekki að skapi, ekki frekar en mér, og ég fagna því einlæglega og ég treysti því að sjónarmið hv. fyrrv. formanns fjárln., sem hæstv. ráðherra lýsti, nái til nefndarinnar. Hæstv. ráðherra hefur skýrt fyrir okkur að það hafi verið vilji hans og ég treysti því að hann geti þá miðlað hugmyndum sínum og fróðleik áfram til nefndarinnar og treysti því þess vegna að hægt sé að gera þessa bragarbót þannig að við eigum eftir að leiðrétta þá handahófskenndu útdeilingu fjárln. sem einu sinni hét fjárveitinganefnd, en heitir það ekki lengur.