2001-11-28 02:15:54# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[26:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það vera alrangt mat hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar muni hafa jákvæð áhrif. Ég tel að það muni ekki verða, hvorki fyrir atvinnu- og efnahagslíf á Austurlandi né þjóðfélagið í heild sinni.

Þjóðhagsstofnun hefur bent á að þrenns konar afleiðingar slíkra framkvæmda yrðu augljósar. Í fyrsta lagi yrði að opna fyrir stóraukinn innflutning á vinnuafli, sem hugsanlega yrði skilið eftir í reiðileysi í lausu lofti að loknum framkvæmdum. Í öðru lagi mundi þetta leiða til stórhækkunar á vöxtum. Þetta mundi leiða af sér hærri vexti. Og í þriðja lagi mun þetta óhjákvæmilega leiða til þess að draga verði úr öllum öðrum fjárfestingum í landinu á vegum hins opinbera, bæði á Austurlandi og í öðrum landshlutum þannig að þetta verði þegar á heildina er litið mjög óráðleg ráðstöfun fyrir okkar litla hagkerfi.

Ég sakna þess að hv. þm. færi ekki betri rök í máli sínu en raun ber vitni.