Fjárlög 2002

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 13:25:32 (2089)

2001-11-28 13:25:32# 127. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 127. lþ.

[13:25]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 kemur hér til atkvæðagreiðslu við 2. umr. Fram hefur komið af hálfu meiri hluta fjárln. að engum lið frv., hvorki tekna- né gjaldamegin, verði lokað við þessa umræðu. Forsrh. hefur boðað í fjölmiðlum að gjaldahlið frv. veri skorin niður um 3--4 milljarða við 3. umr. Ekki liggur fyrir hvar sá niðurskurður kemur niður en ljóst er að allir útgjaldaliðir koma þar til greina.

Hér er gagnrýnt að tilkynning um niðurskurð birtist fyrst í fjölmiðlum áður en slík aðgerð var kynnt og rædd í hv. fjárln. og hér á hv. Alþingi. Atkvæðagreiðslan sem hér á að fara fram er því alger sýndarmennska. Allt sem hér er verið að greiða atkvæði um getur átt eftir að breytast.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs situr því hjá við atkvæðagreiðslu um frv. að undanskildum bæði tillögum sem þingflokkurinn flytur varðandi utanríkisráðherrafund NATO og kostnað við hann og framlag til einkavæðingarnefndar.

Við 3. umr. mun þingflokkurinn flytja brtt. bæði hvað varðar tekjuöflun og útgjöld miðað við áherslur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þegar efnahagsforsendur, tekjuáætlun og niðurskurðartillögur meiri hlutans liggja fyrir.