Útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:06:29 (2107)

2001-11-28 14:06:29# 127. lþ. 38.1 fundur 238. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Það er á mörkunum að maður leggi í að leyfa sér að beina þessari fyrirspurn til hæstv. menntmrh. Ráðherrar eru greinilega ekki uppteknir af smámálum á borð við þau að svara fyrirspurnum. Ég ætla samt að láta á það reyna í þessari stuttu fyrirspurn sem er að sönnu þekkt í herbúðum hæstv. menntmrh. því að hann hefur svarað ámóta fyrirspurnum fyrr. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur verið einkar duglegur við að kalla eftir þessum svörum hæstv. ráðherra.

Þessi fyrirspurn er sett fram á þskj. 265 í ljósi síðustu svara hæstv. ráðherra um sama efni, varðandi móttökuskilyrði fyrir útvarps- og sjónvarpssendingar.

Í svari hæstv. ráðherra í mars 1999 segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Raunar hef ég beint því erindi til útvarpsstjóra og Ríkisútvarpsins að vinna verði sett í að skoða þetta mál nánar. Ef það kosti á bilinu 60--80 millj. kr. á ári að senda út sjónvarps- og útvarpsdagskrár héðan frá Íslandi um gervitungl þá er það miðlunarleið sem skoða ber af mikilli alvöru.``

Í ljósi þessarar yfirlýsingar vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvar þessi athugun standi. Hefur alvara málsins aukist eða minnkað á þessum tveimur árum? Það liggur enn fremur ljóst fyrir að á þessu tímabili hafa u.þ.b. 25 skip í íslenska fiskiskipaflotanum komið sér upp búnaði til þess að taka á móti sjónvarpssendingum um gervitungl. Þau geta með þessum búnaði tekið á móti sjónvarpsefni, til að mynda frá öðrum Norðurlöndum. Það er því brýnt að fá um það skýrt svar, hafi ráðherrann til þess tíma og nennu, hvort þessi rannsókn standi enn þá yfir, hvort sjái fyrir endann á henni og hvort einhver von sé til að íslenskir sjómenn og raunar íslenskir útvarpshlustendur í afskekktum byggðum landsins, jafnvel Íslendingar búsettir erlendis, muni eiga þess kost á að ná útsendingum sjónvarps og útvarps með þessum tæknibúnaði sem rutt hefur sér til rúms á síðari árum.

Ég vænti skýrra svara við þessu.