Útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:09:05 (2108)

2001-11-28 14:09:05# 127. lþ. 38.1 fundur 238. mál: #A útsendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það upp við herra forseta hvort eðlilegt sé að ganga fram með þeim hætti sem hv. þm. gerði í ræðu sinni, að gefa til kynna að það sé eitthvert gustukaverk að svara fyrirspurnum hans og að það hafi verið gert þannig að óviðunandi sé með tilliti til þingskapa. Í ræðu hv. þm. gætti þess hvað eftir annað að ég hefði sýnt þinginu einhverja óvirðingu með því hvernig ég svara fyrirspurnum. Auk þess kom fram í ummælum áðan hjá þingmanninum að það yrði að svara fyrirspurnum hans með einhverjum sérstökum hætti, þ.e. að ekki mætti leita upplýsinga hjá opinberum stofnunum til að leita svara.

Einnig kom það fram, herra forseti, að hann mætti ekki frétta af neinu í blöðum heldur yrðu ráðherrar að sjá til þess að hv. þm. fengi hér fyrst fréttir um það sem fjölmiðlar leita svara við og spyrja um eftir að hann leggur hér fram fyrirspurnir. Herra forseti. Með ólíkindum er að heyra hvernig hv. þm. lagði sitt mál fram.

Svarið við fyrirspurninni er hins vegar að unnið hefur verið að þessu máli. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur unnið að þessu máli og við höfum unnið að því saman að þoka því áfram. Það hefur verið kannað hjá Ríkisútvarpinu og kemur í ljós að nú kostar það um 100 millj. kr. að leigja slíkar rásir. Þeir eru að kanna aðrar leiðir. Þeir eru núna að kanna leiðir með svokölluðum varaleiðum, hvort hægt væri að nýta þær gervihnattarásir til að veita þessa þjónustu.