Sérframlag til framhaldsdeilda

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:14:31 (2112)

2001-11-28 14:14:31# 127. lþ. 38.3 fundur 244. mál: #A sérframlag til framhaldsdeilda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja fyrir hæstv. menntmrh. fyrirspurn sem lýtur að stefnu í skólamálum og eflingu framhaldsnáms á landsbyggðinni.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 2001 er fjárlagaliður 1.20 Framhaldsdeildir undir lið 02-319 Framhaldsskólar, almennt, þar sem hafa verið 7,8 millj. kr., ætlaðar til þess að styrkja framhaldsdeildir um landið. Í fjárlagfrv. fyrir næsta ár er lagt til að þessi upphæð verði öll felld niður, þessar 7,8 millj. kr. Textinn sem þeirri breytingu fylgir hljóðar upp á að það sé gert í sparnaðarskyni.

Nú er það svo, herra forseti, að framhaldsdeildir og framhaldsnám sem víðast á landinu skiptir afar miklu máli fyrir fólkið sem þar býr og fyrir byggð í landinu. Auk þess er það í stefnuskrá bæði ríkisstjórnarinnar og hefur verið áréttað í samþykktum Alþingis varðandi byggðamál að efla beri menntun sem víðast um land. Í nýbirtri skýrslu Byggðastofnunar um veikleika og styrkleika í byggðum er einmitt lögð þung áhersla á gildi menntunar í byggðunum og það hversu miklu máli það skipti að sem mest, hæst og best menntunarstig og menntunarframboð sé í hverri byggð. Það er talin ein af meginforsendunum fyrir velferð og vellíðan í viðkomandi byggðum og þar af leiðandi sjálfsögð mannréttindi.

Það er alveg ljóst að það eru mikilvæg og sjálfsögð mannréttindi að ungt fólk, á aldrinum 15--18 ára, geti sem lengst sótt nám heiman frá sér. Nú er það svo að samkvæmt svari sem hæstv. menntmrh. hefur gefið undirrituðum skriflega, við fyrirspurn um hve margar framhaldsdeildir væru starfandi í landinu og hvar þær væru, eru enn starfræktar framhaldsdeildir í Stykkishólmi og Ólafsvík sem útibú frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Samkvæmt svari hæstv. menntmrh. hefur Hólmavíkurhreppur einnig sótt um eða óskað eftir viðræðum við menntmrn. um að athuga möguleika á framhaldsdeildum þar. Mér er kunnugt um, herra forseti, að víðar er áhugi á því að geta komið á framhaldsdeildum og framhaldsnámi heima í byggðunum. Í þessu sambandi má ekki gleyma Grundarfirði, þar er reyndar ekki formleg framhaldsdeild en formlegt framhaldsnám. Þess vegna finnst mér skjóta skökku við, herra forseti, að í fjárlagafrv. skuli einmitt skornar niður sérmerktar fjárveitingar til þessa starfs. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. menntmrh.: Er hér ekki bara um hrein mistök að ræða?