Sérframlag til framhaldsdeilda

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:17:47 (2113)

2001-11-28 14:17:47# 127. lþ. 38.3 fundur 244. mál: #A sérframlag til framhaldsdeilda# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: ,,Hvernig samræmist það skólastefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu hennar í byggðamálum að fella niður ,,í sparnaðarskyni`` allt sérframlag til framhaldsdeilda, 7,8 millj. kr., eins og gerð er tillaga um í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002?``

Svarið er þetta: Í frv. er gert ráð fyrir að sérstakt framlag framhaldsdeilda á fjárlögum, 7,5 millj. kr., falli niður í sparnaðarskyni. Ekki er gert ráð fyrir að þetta hafi áhrif á þær framhaldsdeildir sem eru starfandi. Á undanförnum árum hefur dregið úr umfangi framhaldsdeilda og nú er svo komið að framhaldsdeildir eru einungis reknar að staðaldri á vegum Fjölbrautaskóla Vesturlands í Stykkishólmi og í Ólafsvík. Þá hefur tilkoma reiknilíkans fyrir framhaldsskóla leitt til þess að nú er áætlað fyrir þessari kennslu með öðrum hætti en áður, þ.e. fjárveiting er nú áætluð á fjárlögum viðkomandi skóla. Nemendur í framhaldsdeildum eru taldir með öðrum nemendum móðurskóla og reiknast skólanum því framlag til kennslu og almenns rekstrarkostnaðar vegna þeirra með sama hætti og vegna annarra nemenda, þ.e. áætlað er fyrir því húsnæði sem nýtt er undir framhaldsdeildir í fermetratölu móðurskólans.

Þessu til viðbótar hefur skólinn fengið viðbótarframlag til að mæta auknum stjórnunarkostnaði, ferðakostnaði o.fl. Vegna þessa er talið óhætt að leggja niður fjárlagalið sem ætlað er að mæta sérstökum útgjöldum vegna framhaldsdeilda. Fjárþörf vegna óreglulegrar starfsemi framhaldsdeilda verður, þegar þess gerist þörf, mætt af óskiptum lið framhaldsskólanna með sama hætti og öðrum minni sveiflum í nemendafjölda.