Rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs

Miðvikudaginn 28. nóvember 2001, kl. 14:26:42 (2118)

2001-11-28 14:26:42# 127. lþ. 38.5 fundur 298. mál: #A rannsókn Samkeppnisstofnunar á hækkun matvöruverðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Í skýrslu sem hæstv. viðskrh. skilaði í maí í vor til þingsins kemur m.a. fram að álagning í smásölu á Íslandi hefur hækkað mikið á árunum 1996--2000 sem er sá tími sem rannsóknin náði til. Í könnun sem ASÍ gerði á matvöruverði í Danmörku og á Íslandi þann 13. september sl. kemur fram að mikill verðmunur er á matvælum á Íslandi og í Danmörku og er verð í flestum tilfellum hærra á Íslandi, en verð er borið saman án virðisaukaskatts.

Þegar borið er saman verðlag á tímum svo örra gengisbreytinga, Íslandi í óhag, ætti það að vera hagstætt verðlaginu hér á landi þar sem gengisbreytingar hefðu að einhverju leyti ekki átt að hafa náð út í verðlagið þar sem vörur, keyptar til landsins á lægra gengi en gengi dagsins, liggja í hillum og innlenda framleiðslan ætti ekki að hafa hækkað í takt við gengissigið.

Rökstuddar ábendingar hafa komið fram um að þennan verðmun megi að einhverju leyti rekja til ólögmætra viðskiptahátta. Undirrituð telur nauðsynlegt að hraða þeirri rannsókn sem þegar hefur farið af stað en ekki gengið sem skyldi vegna skorts á fé og mannafla. Miklir hagsmunir íslenskra neytenda eru í húfi í þessu máli og því mjög brýnt að tekið verði á málinu af festu.

Ástandið hér á Íslandi er farið að minna óþægilega mikið á land þar sem ég þekki nokkuð til en það er Rússland. Almenningur hefur varla til hnífs og skeiðar. Jafnvel þó að fólk hafi vinnu duga launin ekki fyrir nauðþurftum en stór hópur landsmanna hefur fullar hendur fjár og lætur sig hátt matvælaverð litlu skipta. Allar búðir eru troðfullar af vörum sem almenningur á enga möguleika á að kaupa. Við erum hins vegar ekki enn komin með vopnaða verði til að gæta góssins eins og gerist í Rússlandi. Þar skilur á milli.

Mér finnst stjórnvöld bera mikla ábyrgð á því hvernig komið er. Mig hryllir við því að ekki skuli hafa verið látin fara fram sú rannsókn sem lofað var í maí sl. þegar vísbendingar lágu fyrir sem full ástæða var til að rannsaka nánar. Rannsóknin var hins vegar lögð á ís vegna skorts á fé hjá viðkomandi stofnun. Þess vegna spyr ég hæstv. viðskrh.: Hyggst hún útvega það fjármagn sem þarf til að þessi rannsókn geti farið fram sem fyrst og henni verði lokið sem fyrst?