Reikningsskil sveitarfélaga

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:49:01 (2300)

2001-12-03 15:49:01# 127. lþ. 41.1 fundur 182#B reikningsskil sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þetta var afskaplega ítarlegt og efnislegt svar hjá hæstv. ráðherra eða hitt þó heldur. Ég hafði gert mér örlitlar vonir um, ekki miklar að vísu, að ég fengi hér einhvern rökstuðning fyrir fyrirspurn minni og einhverjar skýringar á því hvernig á því stæði að hæstv. ráðuneyti eða a.m.k. undirmenn hæstv. ráðherra færu fram með málflutning af þessum toga, sem m.a. birtist í því eins og ég sagði áðan að það væri ekki skylda á hendur sveitarfélögum að færa skuldbindingar af þessum toga í ársreikninga eða fjárhagsáætlun vegna þess að ekki væri um sérhæft húsnæði að ræða, og ég endurtek: sérstaklega byggt skólahúsnæði væri ekki sérhæft, sérstaklega byggt leikskólahúsnæði væri ekki sérhæft, og af þeim sökum einum væri sveitarfélögum vítt og breitt um landið, einkanlega sveitarfélögum þar sem sjálfstæðis- og framsóknarmenn fara með völd, heimilt að fela slíkar skuldbindingar og ljúga að íbúum sveitarfélaganna um raunverulegar skuldir viðkomandi sveitarfélaga. En svar félmrh. talar fyrir sig sjálft, efnislegt og innihaldsríkt.