Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:36:07 (2314)

2001-12-03 16:36:07# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað í ræðustól til þess að ræða þessa ágætu skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2000, en hún var tekin fyrir á fundi allshn. þann 12. nóvember. sl. eins og venja er þegar fjallað er um þennan mikilvæga þátt í eftirliti Alþingis með stjórnsýslunni. Að mínu mati skiptir miklu að þessari skýrslu umboðsmanns Alþings sé fundinn farvegur í starfsemi þingsins, eins og raunar hefur verið gert.

Samræður okkar þingmanna, þá kannski fyrst og síðast okkar sem sitjum í allshn. og umboðsmanns, og síðan hér í þingsalnum á hinu háa Alþingi, eru því liður í að gera þetta eftirlit skilvirkt en ekki síður til að farsælt samstarf mótist milli embættisins og Alþingis svo hægt verði að taka á þessum efnisflokki á málefnalegan og skilvirkan hátt.

Við vitum hversu mikilvægu þjónustuhlutverki stjórnvöld gegna og er því áríðandi að stjórnvöld sjái til þess að gætt sé málsmeðferðarreglna sem beinlínis tengjast sjónarmiðum um að niðurstaða máls sé byggð á réttum efnislegum forsendum eins og jafnræðisreglunni, rannsóknarreglunni og andmælareglunni, eins og umboðsmaður sjálfur segir frá í skýrslu sinni.

Annars langar mig að koma sérstaklega inn á tvö atriði í skýrslunni sjálfri, herra forseti. Annars vegar þá ábendingu umboðsmanns að hann hafi fengið þau viðbrögð frá stjórnvöldum að þau séu í ákveðinni óvissu um hvort þau geti að eigin frumkvæði brugðist við tilmælum hans um endurupptöku mála, þ.e. óháð því hvort sá sem borið hefur fram kvörtun við umboðsmann setji fram beina kröfu um að mál hans verði tekið til meðferðar að nýju eða ekki.

Umboðsmaður bendir á í skýrslunni að stjórnvöld hafi víðtækar heimildir til að endurskoða fyrri ákvarðanir sínar að eigin frumkvæði við ákveðnar aðstæður og vísar í 25. gr. stjórnsýslulaganna frá 1993. En þar segir skýrlega að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Það er ekki hægt að sjá að mál sem kvartað er yfir til umboðsmanns geti leitt til tjóns fyrir þann aðila málsins, ef tilmæli umboðsmanns fela í sér endurskoðun stjórnvaldsins á því atriði sem kvartað var yfir.

Ég vil hvað þetta atriði varðar taka undir þau sjónarmið og orð umboðsmanns, að rétt sé og eðlilegt að stjórnvöld taki afstöðu til þess, þegar umboðsmaður hefur beint tilmælum til stjórnvalds um endurupptöku máls, hvort rétt sé að þau nýti heimild 25. gr. stjórnsýslulaga eða ólögfestar afturköllunarheimildir stjórnsýsluréttarins og afturkalli ákvörðun sína að eigin frumkvæði.

Í þessu samhengi er kannski rétt að koma með þá ábendingu af minni hálfu til embættis umboðsmanns Alþingis að það væri gott, bæði fyrir þingmenn og almennt borgarana í landinu, að hafa betra og skýrara yfirlit yfir viðbrögðin við áliti umboðsmanns í stjórnsýslunni. Hugsanlega mætti fá þetta sett upp skematískara en er í skýrslunni. Þetta er allt í skýrslunni, þetta er engin nýlunda, við vitum það. En það væri ágætt að fá þetta sett fram skýrt og skorinort í yfirlitinu yfir störf umboðsmanns Alþingis til hægðarauka fyrir alla.

Ég vil einnig benda á ábendingu umboðsmanns, um málsmeðferðartíma stjórnvalda, sem að mínu mati er líka réttmæt ábending. Málsmeðferðartíminn er stundum lengri en meginregla 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga gerir ráð fyrir. Fyrir slíku kunna að vera margvíslegar ástæður, við vitum það. En eins og umboðsmaður fjallar um þá ber stjórnvaldi, ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast, að skýra aðila máls frá því eins og segir í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaganna. Ef þessu ákvæði er framfylgt leggja stjórnvöld grundvöll að góðum og eðlilegum samskiptum milli þeirra og borgaranna. Þjónustuhlutverk stjórnvalda styrkist með því og eflist.

Ég vil einnig, herra forseti, koma inn á atriði sem ég gat um í ræðu minni um skýrslu umboðsmannsins í fyrra. Það varðar fræðslu um stjórnsýslurétt og skyld málefni, fræðslu til starfsmanna stjórnsýslunnar. Þetta ræddi umboðsmaður einnig sérstaklega á fundi nefndarinnar og í ljósi þeirra samræðna ákvað allshn., í nál. sínu til fjárln. vegna fjárlaga næsta árs, að mæla með tímabundnu framlagi til umboðsmanns svo hægt verði að efla fræðslu og upplýsingu innan stjórnsýslunnar. Það má kannski rökstyðja þetta með því að umboðsmaður og starfsmenn hans, með öllum þeim málum sem liggja fyrir hjá þeim á hverju ári, séu í einna bestri aðstöðu til að meta hvar og á hvaða sviði stjórnsýslunnar þörfin er mest á almennri stjórnsýslufræðslu.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan hvað varðar nafn umboðsmanns Alþingis. Hann hefur tvímælalaust fest sig í sessi svo rækilega að hann er í raun orðinn einn af öryggisventlunum í stjórnsýslu okkar. Því skiptir nafnið máli. Ég held að við ættum alla vega að taka það til umhugsunar að breyta nafni umboðsmanns barna, sem er líka að festa sig í sessi en ég tel engu að síður að við ættum að skoða það rækilega, í ,,talsmann barna`` til að undirstrika mikilvægi þessa embættis eða skýrslu þessa embættis sem við erum að ræða um hér í dag.

Ég vil í lokin þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir ágæta skýrslu fyrir árið 2000. Hún er, eins og hann gat um á fundi allshn., nokkuð hefðbundin. Við lestur hennar kemur glögglega fram hversu mikil réttarbót var gerð með samþykkt laga um umboðsmann Alþingis og starfsemi hans.