Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 19:11:44 (2354)

2001-12-03 19:11:44# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að ég hefði ekki átt að svara hv. 4. þm. Austurl., Einari Má Sigurðarsyni, úr forsetastóli með undarlegri röksemdafærslu sem var erfitt að skilja, en stundum er erfitt að skilja hv. þm.

Nú vil ég spyrja hv. þm. í fyrsta lagi:

Hvernig stóð á því að hann skyldi ekki hafa gert neinar athugasemdir í fjárln. þegar svarið kom frá forsrn. ef þetta lá honum svona þungt á hjarta eins og hann er að lýsa?

Hvernig stóð á því að ekki lá fyrir hjá skrifstofu Alþingis eins og venja var, a.m.k. meðan ég var í nefndum þingsins, að 1. og 2. minni hluti létu vita ef þeir hygðust skila minnihlutaáliti, hvernig stóð á því að engin slík vitneskja lá fyrir á skrifstofu þingsins?

Ég vil spyrja hv. þm.: Er hv. þm. með sínum orðræðum hér að gefa í skyn að í þingsköpum séu sambærileg ummæli varðandi þagnarskyldu um aðrar nefndir þingsins og eru um utanrmn.?

Hvað gengur hv. þm. til þegar hann er að gefa í skyn að þau ummæli mín hafi verið röng sem hann leyfir sér að kalla úrskurð? Það sem ég sagði í forsetastóli var að í þingsköpum væru engin sambærileg ummæli um þagnarskyldu annarra þingnefnda og væru um utanrmn.? Hvað er rangt við þetta? spyr ég hv. þm. Hvað er rangt við þetta?

Ég vil líka spyrja hv. þm.: Hvernig átti mér að vera annað ljóst en að fjárln. hefði fengið þær upplýsingar sem hún óskaði eftir þegar búið var að dreifa nál.? Hvernig á forseta þá að detta annað í hug en að nefndin hafi fengið fullnægjandi upplýsingar? Ekki var undan því kvartað af þeim fjárlaganefndarmanni sem hér tók til máls að málið hefði verið tekið úr fjárln. gegn vilja minni hlutans og ég hlaut að líta svo á að fjárln. hefði lokið umfjöllun sinni um málið.