Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:33:06 (2364)

2001-12-04 13:33:06# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það eru hörmulegar fréttir sem okkur berast nú frá botni Miðjarðarhafs þar sem langvarandi deila Ísraelsmanna og Palestínumanna er að blossa upp með skelfilegum hætti. Árásum Hamas-samtakanna á Ísrael um helgina hefur verið svarað með grimmilegum árásum af hálfu Ísraelsmanna og raunar virðist af fréttum sem Ísraelsmenn séu beinlínis uppi með tilraunir til að ráða Arafat af dögum.

Alþjóðasamfélagið getur ekki látið slíka árás Ísraelsríkis á svæði Palestínumanna átölulaust. Það væri litið á það sem samþykki við þeirri fráleitu staðhæfingu Sharons, forsætisráðherra Ísraels, að árás þeirra á Palestínu sé liður í alþjóðlegum viðbrögðum og baráttu gegn hermdarverkum.

Íslenska ríkisstjórnin hefur lýst yfir fylgi sínu og fylgi Íslendinga við hina alþjóðlegu baráttu gegn hermdarverkum. Það þarf að vera alveg ljóst, herra forseti, að íslenska ríkisstjórnin styður með engum hætti þá túlkun Sharons forsætisráðherra á því sem hann er að gera, þeim óhæfuverkum sem Ísraelsmenn eru að vinna á Palestínumönnum. Ísraelsmenn hafa beitt Palestínumenn langvinnum og markvissum kúgunum. Það er ítarlega skýrt í greinargerð með tillögu til stuðnings baráttu Palestínumanna sem Samfylkingin hefur lagt fram á hinu háa Alþingi.

Mig fýsir að vita og inni hæstv. utanrrh. eftir því hvort og hvernig íslensk stjórnvöld hyggist bregðast við þessum válegu tíðindum. Munu þau ekki láta uppi andúð sína á árás Hamas-samtakanna um helgina en fordæma jafnframt fortakslaust hina harkalegu og grimmúðlegu árás Ísraelsmanna? Munu íslensk stjórnvöld ekki beita sér fyrir því að Norðurlöndin muni reyna að hafa samstöðu á alþjóðavettvangi til þess að knýja Ísrael til að fara að alþjóðlegum lögum, fara að alþjóðlegum samþykktum og virða samkomulagið sem kennt er við Ósló frá 1993?