Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:39:05 (2367)

2001-12-04 13:39:05# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það ætti að vera öllum ljóst, svo rækilega hefur það sannast í gegnum bitra reynslu að hefndaraðgerðir og ofbeldi eru ekki leiðin til friðar í Miðausturlöndum. Aðeins með því að hætta ofbeldinu og setjast að samningaborði getur verið einhver von fyrir þetta svæði.

Alls staðar annars staðar þar sem svipað háttaði til og gerir í Palestínu nú væri krafan um alþjóðlegt gæslulið studd og henni hrint í framkvæmd. En vandinn er m.a. sá að ekki aðeins Ísraelsmenn bera nú fyrir sig það sem þeir kalla sjálfsvarnarrétt sinn heldur hefur einnig því miður Bush Bandaríkjaforseti að hluta til tekið undir þá skilgreiningu. Kröfunni um að menn láti af ofbeldinu nægir því ekki að beina bara til Ísraelsstjórnar. Henni verður jafnframt að beina til Bandaríkjastjórnar í hverra skjóli Ísraelsmenn sitja og fara sínu fram.

Gildandi samþykkt Alþingis um þetta mál og þar með stefna Íslands, sem ríkisstjórn Íslands framfylgir að sjálfsögðu, er afdráttarlaus og kveður á um rétt Palestínumanna til að stofna sjálfstætt ríki í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 og kveður á um rétt Palestínumanna til að ráða sjálfir landsvæðum sínum og kveður á um rétt flóttamanna til að snúa heim. Á þeim grunni á auðvitað að reisa aðgerðir málsins og við þetta þarf að bæta stuðningi við kröfuna um að alþjóðlegt gæslulið komi nú á svæðið og reyni að tryggja öryggi borgaranna. Það má ekkert út af bera, herra forseti, til að þarna skelli ekki á allsherjarstríð og maður gæti leitt að því hugann hvernig ástandið væri núna ef Arafat, forseti Palestínu, hefði t.d. fallið í nótt.