Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:41:27 (2368)

2001-12-04 13:41:27# 127. lþ. 42.91 fundur 192#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er ánægð með undirtektir hæstv. utanrrh. og það er undir öllum kringumstæðum alvarlegt og mjög ámælisvert og ber að fordæma ef gerð er hryðjuverkaárás, hvar sem er. Við Íslendingar styðjum að Palestína verði sjálfstætt ríki. Norðurlöndin öll styðja að Palestína verði sjálfstætt ríki. Bandaríkin gáfu út yfirlýsingu um að þau mundu núna vinna að friði fyrir botni Miðjarðarhafs og gera átak í því máli. Um leið kom yfirlýsing frá Evrópusambandinu að það mundi vinna með Bandaríkjunum að því að ná friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú væri að því komið.

Það er því líklega ekki tilviljun að við þessar aðstæður var gripið til vopna við hryðjuverkaárás. Það er ekki tilviljun að mínu mati og það má ekki gerast, virðulegi forseti, að árás hryðjuverkahóps og hópa fram og til baka á þessu viðkvæma svæði verði til þess að hrjáð þjóð í Palestínu verði endanlega hernumin af Ísrael. Ekkert okkar getur látið það gerast og hæstv. utanrrh. nefnir að hann muni vinna með Norðurlöndunum í þessu máli. Ég treysti Norðurlöndunum til réttra viðbragða og það er líka mikils virði gagnvart alþjóðasamfélaginu að afstaða okkar Íslendinga sé afdráttarlaus.