Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:52:05 (2423)

2001-12-04 16:52:05# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég tel að hv. þm. sé mjög efnilegur talsmaður síns flokks því að hún er þegar komin í það sem forustumenn Sjálfstfl. hafa verið ólatir við að reyna að gera, að bera deilurnar í borgarstjórn Reykjavíkur hingað inn á vettvang Alþingis og reyna að klekkja svolítið á R-listanum héðan og hefna þá þess á Alþingi sem hallast í héraði. Eins og kunnugt er liggur minni hlutinn heldur lágt og á bága daga í borgarstjórn Reykjavíkur.

Auðvitað er það rétt, herra forseti, að Reykjavíkurborg gæti að sjálfsögðu að einhverju leyti komið inn, eins og önnur sveitarfélög landsins, undir almennar aðgerðir sem farið yrði í þar sem samskipti ríkis og sveitarfélaga væru lagfærð og á sveitarfélögin hefur hallað. Tökum þar sem dæmi yfirfærslu grunnskólans og vanmetinn kostnað við einsetningu og annað því um líkt. Hann hefur auðvitað lagst þungt á Reykjavík. Aðrir þættir mundu kannski síður koma til sögunnar hér eins og t.d. skuldbindingar vegna félagslega húsnæðisins. Innlausnarskyldan er yfirleitt ekki byrði vegna þess að fasteignirnar eru á fullu markaðsverði og hvort sem er auðvelt að leigja þær út ef þær eru í höndum sveitarfélaganna. Þannig hafa sveitarfélögin yfirleitt ekki haft kostnað af slíkum hlutum. Það mundi þar af leiðandi, herra forseti, og svarið er það, ráðast af þeim málaflokkum sem teknir yrðu fyrir í slíkri uppstokkun á samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvernig einstök sveitarfélög og þar með talin Reykjavíkurborg eða þéttbýlissveitarfélögin hér kæmu út. Þau hafa mörg hver líka safnað skuldum, það er rétt, og lent í því að verkefnatilflutningurinn og óhagstæð tekjusamskipti sveitarfélaga og ríkis hafa bitnað á sveitarfélögum.

Eitt sem bitnaði á sveitarfélögunum um skeið var það að tekjustofnar þeirra skiluðu minni tekjuaukningu í þenslunni en tekjustofnar ríkissjóðs. Það kann að vísu að snúast við núna og sveitarfélögin að koma hlutfallslega betur út í niðursveiflunni vegna þess að þau hafa meiri hluta tekna sinna af launasköttum en minni af veltusköttum þannig að auðvitað getur þetta breyst eitthvað á næstu missirum og þá taka menn að sjálfsögðu mið af því.