Vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 13:50:22 (2488)

2001-12-05 13:50:22# 127. lþ. 43.91 fundur 198#B vinnulag fjárlaganefndar við undirbúning 3. umr. fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. forseta sem ber að fylgjast með því að starfsáætlunum þingsins sé fylgt og ef þeim er ekki fylgt, hvernig skuli þá bregðast við.

Samkvæmt verkáætlun fjárln., sem er hluti af starfsáætlunum þingsins, er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin skili tillögum sínum til 3. umr. 30. nóvember og í mínu dagatali er 30. nóvember löngu liðinn. Frágangi nefndarinnar á að vera lokið ekki síðar en 4. desember og í mínu dagatali er sú dagsetning líka liðin. Ég leyfi mér því að beina máli mínu til hæstv. forseta og forsn. sem stýrir störfum þessa þings, að gæta þess að fylgt sé eftir starfsreglum, ekki síst í ljósi þess að 2. umr. fjárlaga var sýndarumræða og boðaðar voru veigamiklar breytingar bæði á gjalda- og tekjuhliðum frv., óljóst hve miklar og hvar.

Einnig var boðað og tilkynnt að engum lið í frv. væri lokað þannig að það væri allt saman til umræðu og vinnslu fyrir 3. umr. Þess vegna, herra forseti, hafði litla þýðingu að vera að vinna brtt. við frv. við 2. umr. að svo stöddu. Í dag er verið að byrja fyrst að kynna tillögur ríkisstjórnarinnar. Síðan á fjárlaganefnd eftir að fjalla um þær og vinna þær áfram og aðra vinnu og tillögur sem þar gætu komið upp.

Ég vil einnig benda á, herra forseti, að okkur voru birtar spár um efnahagsforsendur annars vegar frá fjmrn. og hins vegar frá Þjóðhagsstofnun. Þær stönguðust á í ákveðnum atriðum. Ég tel það skyldu fjárln. að fara yfir þau mál. Ég legg því áherslu á, herra forseti, að umræðu um fjárlög verði frestað fram yfir helgi.