Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 14:55:53 (2527)

2001-12-05 14:55:53# 127. lþ. 44.2 fundur 259. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Fyrir tæpu ári eða þann 13. desember sl. svaraði hæstv. landbrh. fyrirspurn minni um útflutningsskyldu sauðfjárafurða og áhrif uppkaupa ríkisins en í þeirri umræðu hafði ég á orði að heimildir mínar sögðu mér að hugsanlegt væri að útflutningsskyldar sauðfjárafurðir hefðu komist á innanlandsmarkað og ráðherra svaraði því til í fyrsta lagi að það kæmi sér á óvart en þyrfti að rannsaka.

Nú hefur það gerst að þurft hefur að gera upp bú eins af alstærstu sláturleyfishöfunum og standa þau skipti yfir. Væri þess vegna ástæða til að draga fram upplýsingar sem þar kunna að hafa komið fram. Raunar er það svo að varðandi þau skipti hafa bændur gert ítarlegar og miklar athugasemdir við viðskipti eða viðskiptahætti þess bús og fyrirtækisins fram að því. Af þeim ástæðum, herra forseti, hef ég lagt fyrirspurn fyrir hæstv. landbrh. sem liggur fyrir á þskj. 304 um þetta efni, sem er svohljóðandi:

1. Hefur verið kannað hvort útflutningsskyldar sauðfjárafurðir hafi verið seldar á innanlandsmarkaði?

2. Ef svo er, hve mikil hefur sú sala orðið og hvernig hefur sú breyting komið fram í ákvörðun um útflutningsskyldu næsta árs?

3. Hvernig hafa sauðfjárbændur fengið skil á verðmun?