Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:18:12 (2653)

2001-12-07 12:18:12# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera viðstaddir þessa umræðu. Auðvitað kunna að vera eðlilegar og lögmætar ástæður fyrir því að þeir geti ekki allir mætt en mér finnst algjört lágmark, þegar verið er að ræða fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2002, að ráðherrar sýni umræðunni a.m.k. þann áhuga og þá virðingu að vera hér viðstaddir til þess að svara fyrir fjárlögin eða taka eftir og eiga orðastað við þá alþingismenn sem vilja ræða um málaflokka þeirra, jafnvel leggja inn gott orð.

Mér finnst, herra forseti, með ólíkindum að hér skuli menn koma upp, eins og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, og bera blak af ráðherrum, vísa til þess að þeir kunni að sitja á skrifstofum sínum. Herra forseti, ef ráðherrar taka ekki frá þá daga sem verið er að ræða fjárlög íslenska ríkisins til að vera hér á Alþingi hljóta starfsskyldur þeirra að vera orðnar allt aðrar en þeim er ætlað samkvæmt þeim leikreglum sem ég hélt að við störfuðum öll eftir. Almennir þingmenn reyna að vera hér í salnum og taka þátt í umræðu, a.m.k. vera til viðtals, þegar verið er að ræða þá málaflokka sem þeim koma við á hverjum tíma.

Það er lágmark, herra forseti, að ráðherrarnir taki þátt í þessari umræðu, séu viðstaddir hana, séu hér til viðtals og hægt sé að eiga við þá orðastað. Ef þeir líta þannig á málin að slíkt sé ekki nauðsynlegt þarf a.m.k. að líta svo á að taka þurfi hér vinnubrögð öll til gagngerðrar endurskoðunar því að við svo búið má ekki standa, herra forseti.