Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:26:41 (2659)

2001-12-07 12:26:41# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar var algjörlega út í hött. Ég var ekki að tala um komugjöld á heilsugæslustöðvar. Ég var að tala um greiðslur fyrir ferliverk. Þau voru ekki hærri fyrir sjúklinginn en 6.000 kr. og eru það ekki enn þá. En með þessu frv. ríkisstjórnarinnar á að taka það hámark af þannig að það getur farið upp í yfir 18 þús. kr. þangað til afsláttarkortið fer að virka. Þannig getur ein koma til sérfræðilæknis farið yfir 18 þús. kr. og síðan borgar sjúklingurinn 1/3 af gjaldinu eftir það, eftir að hann er kominn með afsláttarkortið.

Ég minni á að hvert afsláttarkort fellur úr gildi um áramót og þá þurfa menn að safna sér aftur upp í afsláttarkort ef þeir þurfa mikið að sækja til læknis þannig að þarna er verið að auka verulega álögur á sjúklinga með þessari breytingu og, eins og ég sagði, verið er að hækka gjöldin fyrir sérfræðilæknisþjónustuna og ferliverkin um 200--300% í vissum tilvikum. Er það þetta sem flokkurinn vildi með fólk í fyrirrúmi?