Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:34:35 (2664)

2001-12-07 13:34:35# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hér eru þingmenn Samfylkingarinnar ekki tilbúnir og í raun alveg á náttfötunum með sínar tillögur þegar kemur að málflutningi hér. Þetta eru sömu þm. hv. og gagnrýnt hafa okkur í meiri hlutanum fyrir að koma seint fram með tillögur til þingsins. Það var vitað með löngum fyrirvara að hér stæði til að ná þriggja milljarða afgangi af rekstrargrunni fjárlaganna og hefði því Samfylkingin vel getað notað þann tíma sem þar gafst til að koma með tillögur sínar og hafa þær tilbúnar. Þannig hefðum við í meiri hlutanum haft tíma til að átta okkur á þessum merku tillögum.

Ég vildi síðan víkja að einu atriði sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni en það var lækkun lífeyrisskuldbindinga um 800 millj. kr. Allir gera sér grein fyrir því að lífeyrisskuldbindingar eru gríðarlega miklar og háar og því er það svo að smávægilegar breytingar þýða háar upphæðir í fjárlagafrv. Ég ætla aðeins að drepa á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi. Áætlaðar lífeyrisskuldbindingar við árslok 2001 reyndust ofmetnar. Nú liggja kjarasamningar við ríkisstarfsmenn fyrir og kerfisbundnar hækkanir á næsta ári. Verulega dregur úr launaskriði samkvæmt endurskoðun á efnahagsforsendum. Lokið er við svonefnda kerfisbreytingu á kjarasamningum þar sem aukagreiðslur færast á dagvinnulaunum, en slíkar breytingar hafa mikil áhrif á skuldbindinguna þar sem hún fylgir dagvinnulaunum.

Fleiri atriði get ég talið sem skýra þá breytingu sem hefur orðið á liðnum sem tengist lífeyrisskuldbindingum í fjárlagafrv.