Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:41:30 (2668)

2001-12-07 13:41:30# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að okkur berast margar skýrslur og margar ábendingar í þeim skýrslum. Ég spurði hv. þm. hvort hún gæti t.d. bent okkur á það, ef við erum að tala um niðurskurð varðandi ferðir og þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi, í hverju hann ætti helst að vera fólginn. Ég vildi gjarnan fá að heyra hugleiðingar þessa ágætisfólks í þeim efnum og finnst nauðsynlegt að skýra það nákvæmlega út.

Mjög margir hafa horft til þess að það fara miklir peningar í þetta, bæði í Alþingi, í ráðuneytunum, hjá fyrirtækjum og öðrum, vegna þess að alþjóðlegt samstarf er gríðarlega mikið. Það er í raun oft á tíðum einfaldara að fara á fundi til nágrannalandanna heldur en ferðast hér innan lands. Þess vegna vildi ég gjarnan að hv. þm. mundi skýra það betur út.

Í raun og veru svaraði hv. þm. ekki þessu með sérfræðikostnaðinn. Þar vildi hv. þm. gera ákveðnar úrbætur og skera niður. Ég spurði hv. þm. hvort skera ætti þann kostnað niður hjá þinginu, eins og oft hefur komið fram er gríðarlega dýrt að svara öllum þeim fyrirspurnum sem við þingmenn leggjum fram, hvort heldur við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég vildi gjarnan fá betri útskýringar á þessum málum.