Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 14:14:26 (2673)

2001-12-07 14:14:26# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður í umræðum um fjárlög einmitt tekið þetta mál fyrir sem hv. þm. spyr um.

Ég tel engan veginn eðlilegt að banka- og peningastofnanir sem eru meira að segja að hluta til enn þá í ríkiseigu séu að skerða þjónustuna, loka útibúum og skerða þjónustuna vítt og breitt um landið, einmitt á svæðum þar sem þessir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar sem skila raunverulegum þjóðartekjum, sem skila útflutningstekjum --- að þar sé verið að skerða þessa þjónustu og loka og væntanlega að færa þjónustuna í aðra landshluta.

Herra forseti. Ég benti líka á það í ræðu minni hvernig hér hefur á síðustu árum, einmitt í ljósi viðskiptahallans, myndast og þróast atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og gefur ekki raunsannar þjóðartekjur. Þessar áherslur dreg ég hér fram.

Ég hef líka bent á, og það kemur fram í tillögum okkar hér, herra forseti, nauðsyn þess að leggja áherslu á að efla menntun og menntunarstarf úti um land til að styrkja búsetuna þar, að veita fjármagn til þessara þátta sem í raun ráða búsetu og því hvort fólk býr í þeim byggðarlögum og vinnur við þær atvinnugreinar sem gefa hinar raunsönnu þjóðartekjur og þar með líka útflutningstekjur.