Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:11:01 (2689)

2001-12-07 15:11:01# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var 1995 sem við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar með var frjálst fjármagnsflæði staðreynd. Menn höfðu ekki leyfi eða getu áður fyrr til þess að ganga svo um í útlöndum að sækja sér fé eins og hefur verið gert síðan. Þetta er það frelsi sem við höfum fengið og þetta frelsi verður ekki aftur tekið. En menn verða að fara varlega og við höfum eflaust hagað okkur á umliðnum árum eins og kálfar á vorin, loksins þegar menn sluppu út. Ég efast ekkert um það. Ég vona að sú ræða hafi aldrei verið haldin að menn segðu að þetta gerði ekkert til. (ÁSJ: Jú.) Ja, það finnst mér mjög leiðinlegt ef einhver hefur haldið þá ræðu. Það er allt í lagi að fletta upp á henni vegna þess að sannarlega hefur öllum verið það ljóst alla tíð að þetta er ein þjóð og óvarleg skuldsetning getur komið niður á henni eins og dæmin sanna um litlar þjóðir í sögunni sem hafa misstigið sig í efnahagsmálum. Það eru ljótar og leiðinlegar sögur og ég ætla bara rétt að vona að það liggi ekki fyrir Íslendingum í framtíðinni.