Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:14:52 (2692)

2001-12-07 15:14:52# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Andsvar mitt var í því fólgið að upplýsa það sem hann virðist reyna að dylja, hv. þm., að hann ber fullkomna ábyrgð á stöðu fjármálanna og afgreiðslu þeirra hverju sinni, meira að segja næstmesta ábyrgð allra þeirra sem eiga sæti á hinu háa Alþingi. Hann setur á tölur um það að ófarnaðurinn í launamálum landsins sé allur opinberum starfsmönnum að kenna. Hann vill ekki taka mark á því sem ég hef áður bent á. Hvar var hann þegar ákveðið var að hækka laun þingmanna daginn eftir síðustu kosningar? Dettur honum í hug að það hafi ekki verið fyrirmynd?

Nei, athugasemdir verða menn að gera við það þegar næstvaldamesti maðurinn í fjármálum setur hér á tölur til þess að reyna að skjóta sér undan ábyrgð sinni, talar að vísu um að ríkisstjórnin beri ábyrgð með fjárln. Þó það nú væri. Um það þræta menn ekki.