Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:17:30 (2694)

2001-12-07 15:17:30# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Einar Már Sigurðarson(andsvar):

Herra forseti. Það er eins og venjulega þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur talað hér, þá lifnar mjög yfir umræðunni enda er ræðan væntanlega hugsuð til að hressa þingsalinn örlítið við.

Ræðan er að vísu æðioft býsna lík fyrri ræðum og svipað er alltaf innihaldið en ég vil nota tækifærið, herra forseti, og fá örlitla söguskýringu hjá hv. þm. Hann fjallaði nokkuð um launaþróun opinberra starfsmanna og það er auðvitað rétt hjá honum að í launaþróun opinberra starfsmanna er líklega svona 20% munur sl. fimm ár í samanburði við hinn almenna markað. Það er spurning hvort hv. þm. getur ekki upplýst okkur um það hvenær þessi þróun hófst og hvað það var sem kom henni af stað. Það vill svo til að við höfum a.m.k. fulltrúa annars viðsemjandans í þessu húsi þannig að það ætti að vera hægt að fjalla eitthvað um hlut þess aðila, hinir eru jú fjarstaddir. Það væri býsna skemmtilegt ef hv. þm. gæti rifjað upp með okkur hvað hann telur að hafi komið þessari þróun af stað.