Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:32:36 (2699)

2001-12-07 15:32:36# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir yfirgripsmikla og fræðandi ræðu um fjárlögin og þær tillögur sem hér liggja fyrir við 3. umr.

Ég verð þó að segja, herra forseti, að ég sakna nokkuð skýringa á ýmsum liðum sem ég hef ekki fengið fyllilega skýrða í dag og vil því nota tækifærið og athuga hvort hv. þm. gæti ekki gefið mér einhverjar skýringar. Ég vil byrja á því að það hefur vakið verulega athygli mína og fleiri trúi ég að við 2. umr. var samþykkt tillaga um að setja til viðbótar 250 millj. kr. í svokallað Náttúrufræðihús í Vatnsmýrinni. Nú við 3. umr. kemur tillaga frá sömu aðilum um að taka til baka 200 millj. af þessum 250 millj. sem voru samþykktar við 2. umr. Ég verð að segja, herra forseti, að það skortir algjörlega skýringar á því hvað þarna hefur gerst í millitíðinni.

Ég verð eiginlega að segja til viðbótar, herra forseti, að það er býsna erfitt, þrátt fyrir töluverða leit í pappírum, að átta sig á því hvernig þessar framkvæmdir standa. Þannig er að enn eru heimildir varðandi lántöku Happdrættis Háskólans upp á 650 millj. í frv. og ekkert út af fyrir sig sem bendir til að því verði breytt. Samt sem áður segir hér í texta, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að fyrirhuguðum 400 millj. kr. framkvæmdum við Náttúrufræðihús sem miðað var við að hæfust á miðju ári 2002 verði seinkað þannig að framkvæmt verði fyrir 200 millj. kr. á árinu.``

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvernig á því standi að happdrættið hefur lántökuheimild upp á 650 millj. ef í fyrsta lagi var aldrei fyrirhugað að vinna nema fyrir 400 og enn erfiðara er að skilja þetta núna ef bara á að framkvæma fyrir 200 millj.