Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:35:32 (2701)

2001-12-07 15:35:32# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um, þó að ég hafi ekki sprangað þarna um daglega eða velt þessu fyrir mér sólarhringum saman, að hv. þm. sé á miklum villigötum ef hann heldur að þessar 200 millj. séu eingöngu sparnaður vegna þess að það er þó hægt að lesa úr þessum texta að ætlunin er að draga úr framkvæmdum eða hefja þær miklum mun seinna en áætlað var.

Það sem ég var að velta fyrir mér er að þessar tölur passa ekki saman. Og það er náttúrlega afar sérkennilegt ef raunin er sú að hv. þm. sem sitja í meiri hluta fjárln. og leggja fram þessar tillögur hafi ekki gert sér grein fyrir í hverju þær felast. Það hlýtur að minna okkur á orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hér áðan um að fyrirvarinn hafi verið svo skammur að varla hafi verið hægt að standa almennilega að þessari tillögugerð. Og það er alveg greinilegt að ekki hefur unnist tími til að uppfræða hv. þingmenn í meiri hluta fjárln. um hvað í þeim felst. Það er auðvitað grafalvarlegt mál, herra forseti, ef hér liggja fyrir tillögur um ýmsa hluti sem flutningsmenn vita ekki hvað þýða.

Ég gæti, herra forseti, ábyggilega tínt til fleiri atriði sem mér fannst hv. þm. sleppa í ræðu sinni þrátt fyrir að hún væri yfirgripsmikil og víða væri komið við.

Ég minnist þess t.d. að það hefur verið margítrekað, og það er til í pappírum í fjárlagafrv., að búið var að lofa hér nýrri byggðaáætlun. Á nokkrum stöðum í fjárlagafrv. er svo sagt að ýmsar fjárheimildir hafi fallið niður vegna þess að byggðaáætlun rennur út en jafnframt sagt að ný byggðaáætlun muni koma inn áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur og þá muni koma fram nýjar tillögur um einhverja fjármuni til að tryggja þá byggðaáætlun.

Svo er ekki að sjá, herra forseti. Ég spyr því hv. þm. hvort hv. þingmenn í meiri hluta fjárln. hafi eitthvað spurst fyrir um þetta eða fengið einhverjar upplýsingar sem af einhverjum ástæðum hefur verið talin ástæða til að halda leyndum fyrir minnihlutamönnum í fjárln.