Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:46:21 (2706)

2001-12-07 15:46:21# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kemur inn á viðkvæm persónuleg mál, eins og hún gerir gjarnan þegar hún kemur í ræðustól. Það vill þannig til að hv. þm. vann hjá Tryggingastofnun ríkisins og þekkir þennan málaflokk afar vel. Ég er ekkert frá því að hv. þm. héldi þar enn starfi sínu ef hv. þm. dytti út af þingi, en það er auðvitað aukaatriði í þessu máli. (Gripið fram í.)

Hv. þm. kom, eins og ég sagði, inn á afar viðkvæm mál. Þau má því miður alltaf finna í samfélagi okkar. Við finnum þau í heilbrigðiskerfinu, í félagsmálakerfinu, í menntakerfinu og þekkjum þau af störfum sem við höfum verið að vinna að. Það má með sanni segja að öll þessi mál eru þyngri en tárum taki, það er alveg ljóst. Ég er viss um að hver og einn af þeim þingmönnum sem hér sitja á Alþingi, þessara 63 þingmanna, vildu gjarnan að kerfið okkar gæti verið svo fullkomið að svona dæmi kæmu ekki upp.

Hér á landi búa aðeins 280 þús. manns og þegar við skoðum þessi mál og berum okkur saman við aðrar þjóðir, eins og ég var að reyna að segja hér áðan, stöndum við sem betur fer vel að vígi. Við viljum að kostnaðarþátttaka almennings, eins og við höfum margsagt, sé eins lítil og mögulegt er. (Gripið fram í.) Það kom hér fram í ræðu minni áðan. Gott væri ef hv. þm. gæti nú þagað rétt á meðan ég nota þessar tvær mínútur til að svara en það á hv. þm. yfirleitt afar erfitt með. Hún krefur menn svara en gjammar stöðugt fram í þegar reynt er að svara hv. þm., og því miður er ég kominn sjö sekúndum fram úr þeim ræðutíma sem ég hafði, m.a. vegna þessa.