Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:48:45 (2707)

2001-12-07 15:48:45# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Mesta vandamál Íslands í dag er uppsöfnun viðskiptahalla. Viðskiptahalli er í rauninni hið sama og ofþensla. Viðskiptahalli af völdum einkaneyslu, vegna óarðbærra fjárfestinga, er alltaf neikvæður því að þá er fjármunum eytt án innstæðu. Viðskiptahalli sem stafar af fjárfestingum sem skila arði er jákvæður því að arðurinn er fyrirsjáanlegur. En skuldasöfnunin hefur átt sér stað og er í raun sjálfskaparvíti á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Íslenska hagkerfið getur ekki brugðist öðruvísi við en nú hefur verið gert og hlaut að verða. Það hlaut að verða gengisfelling fyrr eða síðar í samræmi við það sem við jafnaðarmenn höfðum sagt.

Við Íslendingar höfum ferðast á lúxusfarrými með sólgleraugu eins og skýjaglópar undir forustu ríkisstjórnarinnar, í stað þess að vera á fyrsta farrými eins og við hefðum getað. Sú holskefla sem er að ganga yfir er enn ekki farin að hjaðna, við getum e.t.v. séð fyrir okkur að það styttist í brotið en við erum vonandi á hábárufaldinum eins og er.

Virðulegur forseti. Það er ólíklegt að dollar fari niður fyrir 102--105 kr. í framhaldi af siglingunni sem við höfum verið á. Vonandi náum við að komast í gegnum tvö næstu ár án mikilla sveiflna. Það sem ræður því í íslensku samfélagi er að atvinnuuppbygging verði í samræmi við væntingar og að auðlindin í hafinu gefi af sér ámóta og hún hefur gefið af sér á síðustu mánuðum eftir gengisfellingar.

Allt er þetta samt bundið við festu í stjórn efnahagsmála. Það sem skapar óöryggi um þessar mundir er óvissa vegna kjarasamninga sem eru í uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin missti verðbólgu langt upp fyrir markmið sem voru grundvöllur almennra kjarasamninga sem eru í raun lausir í febrúar nk. Vitna má til spár Landsbanka, Íslandsbanka og Seðlabanka um þróun efnahagsmála. Þess má geta að Þjóðhagsstofnun er varfærnari í spám sínum en þessir aðilar en bendir þó á að atvinnuleysi gæti aukist í allt að 2,5% auk þess að búast megi við styttingu vinnutíma. Þjóðhagsstofnun spáir samdrætti þjóðarútgjalda sem nemur 3,1% í stað 2,5% eins og var þegar frv. var lagt fram. Vonandi leiðir það til minni viðskiptahalla sem léttir vafalaust þeim þrýstingi sem verið hefur á krónunni.

Það veldur sannarlega áhyggjum að spáð er samdrætti í landsframleiðslu. Það hefur ekki gerst síðan 1992 en þá dróst landsframleiðsla saman um 3,3% en nú er spáð um 1% samdrætti.

Virðulegur forseti. Í öllum áætlunum sem gerðar hafa verið er gert ráð fyrir stækkun Norðuráls og að af byggingu Reyðaráls verði og því sem með fylgir. Það er enginn vafi á því að þessar framkvæmdir virðast standa undir væntingum um efnahagsástand í spám þeirra sem áður voru nefndir.

Það er þungt að þurfa sífellt að vera að minnast á skuldakónga heimsins. Við Íslendingar erum skuldugasta landið af þeim sem við berum okkur saman við. Það blasir við að fara verður í sérstakar aðgerðir vegna skulda. Það má minna á að Danir gripu til svonefnds kartöflukúrs sem er vísun til megrunar. Það er ekki um annað að ræða fyrir okkur Íslendinga en að grípa til svipaðra ráða og fara í megrunarkúr varðandi skuldir þjóðarbúsins. Meðan við búum við eigin mynt verður að beita öflugri aðhaldsstjórn en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur beitt. Sú ríkisstjórn hefur gert Íslendinga að skuldakóngum heimsins.

Sú kenning er uppi að áliðnaðurinn noti oft þann tíma, þegar verð er lágt fyrir afurðina, til að byggja upp. Það er varla fýsilegt að byggja upp þar sem orkugjafinn er olía, eins og er í arabaríkjunum, þannig að með tilliti til mengunar gagnvart heimsbyggðinni er orkugjafinn á Íslandi heppilegri kostur. Vonandi mun atvinnustigið verða traust í ljósi þess.

Það er, virðulegur forseti, enn þá ástæða til að minnast á stuttu hagfræðikenninguna sem byggist á miklum vísdómi. Hún er sú, að það beri ekki aðeins að líta til skammtímastefnu eða skammtímaákvarðana heldur á langtímaáhrif og skoða afleiðingarnar, ekki aðeins fyrir einn hóp heldur fyrir alla hópa. Með tilliti til þessarar kenningar er ekki hægt annað en að finna að ýmsum skyndiaðgerðum ríkisstjórnar varðandi ráðstafanir í ríkisfjármálum sem nú liggja fyrir til afgreiðslu með fjárlagafrv. Sumir kalla það niðurskurð.

Álögur á aðgang að grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu, lyfjum og komugjöldum, eru rangar aðgerðir sem ber að hafna. Samfylkingin hafnar einnig skólagjöldum. Öll þessi áform um aukna gjaldtöku koma harðast við aldraða og þá sem minna mega sín og þurfa lyf og til læknis, og síðan nemendur sem oft eru mjög tekjulágir en búa við mismunandi heimilisaðstæður.

Virðulegur forseti. Ég leggst ekkert gegn gjaldtöku af tóbaki eða áfengi. En það er mikil ástæða til þess að byggja upp að nýju vísitöluviðmiðun. Ég tel að það gangi ekki að munaðarvörur hækki greiðslubyrði lána. Ég tel að ekki eigi að taka mið af varningi af því tagi. Reyndar hef ég miklar efasemdir um sjálfvirkar hækkanir sem verða af völdum verðhækkana einhverra vörutegunda sem ekki eiga erindi inn í verðlagsviðmiðun.

Herra forseti. Ég var ákveðinn í því að halda stutta ræðu en ég er kominn að þeim tilögum sem kallaðar eru af ríkisstjórn og meiri hluta fjárln. sparnaðartillögur. Þar eru stórfelldar blekkingar á ferð. Hér er um að ræða tillögur sem eru ekkert annað en gaddavírstillögur af verstu gerð.

Ég nefni fyrst til 800 millj. kr. lækkun lífeyrisskuldbindinga, sem er fullkomlega óraunhæf tala nema ríkisstjórnin ætli að hefja stórfelldar uppsagnir starfsmanna til að losna við þær skuldbindingar. Ég hef ekki heyrt þá kynningu að til standi að segja upp hópum opinberra starfsmanna. Það getur ekki staðist.

Lífeyrisskuldbindingar hafa hingað til verið vanáætlaðar og nægir í því tilviki að vísa til skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings fyrir síðasta ár. Ég geri það hér með, með leyfi forseta. Í þessari skýrslu er vakin athygli á stöðugri aukningu skulda ríkissjóðs sem námu 413 milljörðum í árslok 2000 og höfðu hækkað um 30 milljarða á árinu. Þar segir:

,,Nýjar skuldbindingar á árinu námu alls 37 milljörðum kr. en voru rúmir 22 milljarðar kr. á árinu 1999.

Aukning nýrra skuldbindinga á einkum rætur að rekja til þess að á árinu var gengið frá nýjum kjarasamningum við kennara í grunn- og framhaldsskólum. Um var að ræða kerfisbreytingu þannig að yfirvinnu- og aukagreiðslur voru felldar inn í dagvinnulaun. Athygli skal vakin á því að lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hafa aukist um rúma 68 milljarða kr. frá 1997 eða um 72% á aðeins þremur árum. Ástæðan er sú að á tímabilinu hafa verið gerðir kjarasamningar við fjölmörg stéttarfélög opinberra starfsmanna sem hafa haft í för með sér verulega hækkun grunnlífeyris.``

Á þessum tíma kemur hæstv. ríkisstjórn með 1.440 milljarða lækkun á lífeyrisskuldbindingum þar sem standa ekki nokkur rök til þessara aðgerða, engin rök. Þess vegna segi ég: Slíkar tillögur eru gaddavírstillögur.

Svo ég nefni nokkrar gaddavírstillögur í viðbót þá bendi ég á liðinn Sjúkratryggingar. Það eru ekkert nema gaddavírstillögur þegar menn koma með tillögu um lækkun upp á 310 millj. kr. í ríkisútgjöldum. Það er raunverulega bara tilfærsla yfir á sjúklinga og þá sem þurfa að nota lyf. Þetta eru gaddavírstillögur og ekkert annað. Um er að ræða stórfelldar álögur á sjúklinga og þetta kalla menn sparnað fyrir ríkið en ég segi bara: Þetta er til skammar.

Enn undir liðnum Sjúkratryggingar, virðulegur forseti. Þar er afnumið þak á greiðslu komugjalda til sérfræðilæknis. Með því á að ná í 160 millj. kr. og þetta á að heita sparnaður. Ég segi bara, virðulegur forseti, --- gott að þeir eru tveir fyrir aftan mig --- menn ættu að skammast sín fyrir slík vinnubrögð. Þetta kallar ríkisstjórnin aðhald í útgjöldum í stað þess að kalla það réttu nafni, þ.e. að leggja aukinn kostnað á þá sem þurfa að leita til sérfræðinga.

Að lokum er ekki hægt annað en gera að umtalsefni það sem mér finnst aðhlátursefni, virðulegur forseti, í þessum sparnaðartillögum eða hvað á að kalla þær. Ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. lagði 27. nóv. til við 2. umr. fjárlaga að auka útgjöld til Náttúrufræðihúss um 250 millj. kr. Nokkrum dögum síðar, sem sagt núna, kemur tillagan til baka um frestun framkvæmda sem nemur 200 millj. kr. Ég verð bara að segja það, hvílík snilld, hvílíkur jójóleikur og vita svo ekki einu sinni hvað stendur í fjárlagafrv. eins og hér kom fram áðan. Þar liggur nefnilega fyrir lántökuheimild upp á 650 millj. svo það passar engan veginn saman sem menn eru að gera í þessum málum.

[16:00]

Síðan má nefna, virðulegur forseti, það sem er að gerast við hliðina á okkur. Verið er að byggja þjónustuskála við hliðina á Alþingishúsinu og vert er að minna á að fyrir tveimur árum kom dæmigerð tillaga til sparnaðar upp á 100 millj. á þeim tíma og þá var byggingu skálans frestað. Það er löngu komið í andlitið á okkur allt það sem ég sagði þá, að við erum búin að stórtapa á þeirri frestun.

Verið er að byggja þjónustuskála við hliðina á þessu húsi. En hvað gera menn svo? Loka fyrir framkvæmdina á þann veg að ekki á að vera nein tenging á milli húsa. Þar taka menn sig til og í stað þess að klára þetta verk úr því að það er hafið og tengja saman byggingarnar, þá á að loka þessu. Hvílík snilld. Heilar 80 millj. í sparnað alls og húsið stendur ónotað. Þetta er bara hreint grín.

Virðulegi forseti. Ekki er tekið á því sem unnt hefði verið og sanngjarnt í tillögum minni hlutans en það er að fara eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar með lækkun kostnaðar vegna ferða opinberra aðila innan lands og utan. Þar er unnt, virðulegur forseti, að ná stórum fúlgum með smáaðhaldi en menn vilja ekki eiga við það, hvorki hæstv. ríkisstjórn né virðulegur meiri hluti hv. fjárln. Ekki er verið að eiga við slíka hluti þar sem kostnaður hefur aukist á milli ára um yfir 30%. Nei, það skal ekki tekið á slíkum lúxus.

Ég vitna til þess að Samfylkingin hefur sett fram tillögur um niðurskurð um 420 millj. sem er 20% af þeim kostnaði sem er vegna þessa liðar. Þetta er liður upp á yfir 2.000 millj. kr., 2 milljarða og 75 millj. En þar vitna ég enn til ábendinga frá Ríkisendurskoðun. Eftir þessu hefðu menn átt að fara. Þarna var hægt að ná í pening en ekki hjá sjúklingunum, ekki hjá gamla fólkinu. Og, með leyfi forseta, les ég upp ábendingu Ríkisendurskoðunar.

,,Hjá nokkrum ráðuneytum hafa verið í gildi reglur sem kveða á um að starfsmenn þeirra sem eru í fylgd með ráðherra fái sömu kjör og ráðuneytisstjóri, þ.e. fái greidda gistingu og 80% dagpeninga. Ríkisendurskoðun telur að þetta sé ekki í samræmi við reglur um ferðakostnað. Í þeim tilvikum þar sem starfsmenn þurfa að vera í gistingu sem er verulega dýrari en gistihluti dagpeninga þá á að greiða fyrir gistingu auk almenns hluta dagpeninga.

Ríkisendurskoðun bendir á að greiðsla dagpeninga er hugsuð sem endurgreiðsla á útlögðum kostnaði en ljóst er að í mörgum tilvikum eru dagpeningar hærri en honum nemur.``

Það er þetta sem á að taka upp. Það þarf ekkert að minnka ferðir, það þarf ekkert að minnka samskipti erlendis. Þau eiga að fara fram eftir þörfum. En það á að gera mönnum það að leggja fram reikninga og fá greitt í samræmi við það sem kostnaðurinn er, ekki að menn geti haft þetta sem tekjupóst eins og bent er á að gert er samkvæmt ábendingum Ríkisendurskoðunar.

Það er einnig annar liður hjá ráðuneytunum sem bent hefur verið á hvað eftir annað af Ríkisendurskoðun. Það eru uppsafnaðar ónotaðar heimildir sem unnt er að lækka verulega. Á þetta hefur verið bent í athugun Ríkisendurskoðunar og það hefur aldrei verið farið eftir því, aldrei nokkurn tíma. Þarna er hægt að sækja mörg hundruð millj. og ég vonaðist eftir að þær kæmu sem niðurskurðartillögur frá hæstv. ríkisstjórn. Nei, þær komu ekki. En álögur á sjúklinga og gamalmenni, þær komu, 310 millj. vegna lyfja og 160 millj. vegna heimsókna til sérfræðinga. Þetta er ekki par fínt. Og síðan blekkingartillögur upp á 800 millj. vegna lífeyrisgreiðslna. Það er ekki svona sem við eigum að vinna.

Ég veit að hægt væri að ná miklu meiri sparnaði en gert er ráð fyrir og við höfum lagt fram tillögur sem ég bíð eftir að hæstv. ráðherrar skoði og athugi hvort þeir eigi ekki möguleika á því að fara að tillögum Samfylkingarinnar um raunverulegan sparnað. Við munum greiða atkvæði með þeim tillögum sem við teljum að rétt sé að eiga við. En ég er búinn að tilkynna að við munum verða á móti hækkun lyfjakostnaðar til þess hóps sem þarna á í hlut. Við munum verða á móti því.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara yfir tillögur sem menn voru að ræða um áðan sem heita menningar- og ferðatengdar tillögur sem meiri hluti fjárln. gerir tillögu um. Ég veit að það er gert af góðum hug og menn hafa reynt að vanda sig í þeim málum. Ég er kannski ekki sammála því sem þar er gert, en ég veit að menn hafa reynt að vanda sig við þau verkefni en það er aðeins lítill hluti þeirra verkefna sem fjárln. er að fást við. Og það ber að segja frá því að nánast er það svo að minni hluti fær tilkynningu um hvað það er sem menn gera tillögu um. En ég segi aftur að ég veit að það er gert af góðum hug sem þar er unnið en það er auðvitað ekki yfir gagnrýni hafið.