Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:08:38 (2708)

2001-12-07 16:08:38# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson gagnrýnir ríkisstjórn og meiri hluta fjárln. fyrir sýndartillögur, slæleg vinnubrögð og fljótfærni. Ég saknaði þess alveg fram að þessari umræðu að hafa ekki séð eða heyrt neinar tillögur frá minni hluta fjárln. Þeir hafa reyndar básúnað það hversu illa þetta er unnið hjá meiri hlutanum en þær tillögur sem ég sé allt í einu komnar inn á borð hjá mér, brtt. frá minni hluta fjárln. hafa aldrei komið fyrir augu meiri hlutans. Eins og allar tillögur meiri hlutans hafa verið unnar, þá hefur minni hluti fjárln. fengið að skoða þær í margar vikur. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að bæði fyrir 2. umr. og 3. umr. komu margar tillögur. Ég man ekki eftir einni einustu tillögu frá minni hluta fyrir 2. umr. (Gripið fram í: Þetta er rétt.) þannig að ég held að menn ættu aðeins að reyna að róa taugarnar og átta sig á þeirri stöðu sem þeir eru í, hv. þingmenn. Þar stendur ekki steinn yfir steini.

Ráðist er með miklum hamagangi á ýmis mál sem sagt er að séu til þess að níða niður þá sem minna mega sín aðallega, þ.e. þá sem þurfa að nýta sjúkrahúsin og þjónustu hjá svæðisskrifstofum fatlaðra og annarra slíkra. Því er haldið fram að verið sé að skera niður hjá þeim aðilum.

Ég vil bara benda hv. þm. á að málefni fatlaðra í Reykjavík fá 45% hækkun á milli fjárlaga 2001 og 2002. (Gripið fram í.) 379,6 millj. er bætt við þennan málaflokk í Reykjavík, 183 millj. er bætt við þennan málaflokk á Reykjanesi, 69,7 millj. á Suðurlandi. Er þetta niðurskurður?