Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:16:48 (2712)

2001-12-07 16:16:48# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að biðja um að stjórnarandstaðan gagnrýni ekki fjárlögin, ég átti von á því. En þær tillögur sem hv. 5. þm. Vesturl. kallar gaddavírstillögur eða prumptillögur, eða hvað hann vill kalla það, eru tillögur um að innheimta hluta af aukningunni í heilbrigðiskerfinu með breytingum á gjaldskrá. Það var reynt að hafa það til hliðsjónar að gjaldskrárnar hækkuðu ekki að raungildi. Svo er að vísu ekki með sérfræðikostnaðinn en varðandi lyfjakostnaðinn og komugjöldin á heilsugæsluna þá er reynt að hafa það til viðmiðunar.

Varðandi lyfjakostnaðinn vil ég leiðrétta að það er ekki ætlast til að þessar 310 millj. lendi allar á sjúklingum. Ætlunin er einnig að taka á heildsölu- og smásöluverði innan þessara 310 millj. og breyta viðmiðun varðandi samheitalyf. Við ætlum að fara yfir breytingar þar. Ég vildi koma þessu til skila á þessu stigi umræðunnar.

Ég veit að hv. 5. þm. Vesturl. hlustar og af því að hann er sanngjarn maður þá veit ég að hann tekur við þessum ábendingum mínum. Eins varðandi ferðalög ráðuneyta og utanferðir almennt þá verð ég að halda því til skila að það er gerð 3% hagræðingarkrafa á yfirstjórn ráðuneyta. Ég vil koma því til skila í umræðunni að það er ætlast til að menn dragi saman og líka í þessum kostnaði eins og öðrum.