Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:24:17 (2716)

2001-12-07 16:24:17# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:24]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ýmsar mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á fjárlagafrv. milli 2. og 3. umr. sem nauðsynlegar eru til þess að ríkissjóður skili um þriggja milljarða kr. rekstrarafgangi eins og stefnt var að í upphafi.

Ég styð, herra forseti, að sjálfsögðu allar þær tillögur sem hér eru lagðar fram til breytinga á frv. þó deila megi um hvað eigi að skera og hvað ekki. Meginmarkmið stjórnarmeirihlutans á Alþingi er að vernda velferðarkerfið, menntun og heilbrigðismál, og hefur það náðst og rúmlega það í flestöllum tilfellum.

Það láta margir hátt, herra forseti, þegar kemur að þessum viðkvæmu málum og vilja slá keilur á kostnað stjórnarmeirihlutans. Það er alveg ljóst að slegnar hafa verið margar pappírskeilur að þessu sinni. Tölurnar tala sínu máli þegar borin eru saman framlög á fjárlögum 2001 við framlög árið 2002. Ég ætla að leyfa mér að bera saman nokkrar stofnanir hins opinbera í þessum málaflokkum. Ég fékk frá fjmrn. samanburð þar sem bornar eru saman nokkrar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi sem sinna félagsmálum, málefum fatlaðra, í heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslumálum.

Varðandi málefni fatlaðra er ekki hægt að segja annað en að þar hafi verið tekið vel á og gert ráð fyrir að hægt verði að bæta aðsteðjandi vanda hjá viðkomandi stofnunum sem starfa víðs vegar um landið. Til þess að átta sig á umfangi þessa má nefna að bætt hefur verið við til málefna fatlaðra í Reykjavík, 379,6 millj. kr. eða 45% frá yfirstandandi fjárlagaári. Til málefna fatlaðra í Reykjanesi er bætt við 182,9 millj. eða 29% á milli ára. Til málefna fatlaðra á Suðurlandi er bætt við 69,7 millj. eða 32% á milli ára.

Ef við lítum á heilbrigðiskerfið og nokkrar stórar stofnanir um landið, þá bætast við hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 173,1 millj. eða 8%, hjá Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi bætast við 2.357,2 millj. eða 13%, hjá St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 33,4 millj. eða 7%, hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 38,6 millj. eða 11%, Heilbrigðisstofnunin á Selfossi 59,3 millj. eða 11% og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja bætast við 101,2 millj. eða 15%.

Það er augljóst af þessum tölum, herra forseti, að það er ekki verið að skera niður þjónustu hjá heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið.

Í menntamálum hefur verið bætt við hjá Háskóla Íslands 801,3 millj. eða 25% á milli þess sem var í ár og næsta árs, hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið bætt við 65,6 millj. eða 29%, til Fjölbrautaskólans í Vestmannaeyjum er bætt við 29,4 millj. eða 34%. Hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands er bætt við 87,1 millj. eða 32%. Það er augljóst að á sviði menntamála er verið að bæta við til allra helstu menntastofnana landsins verulegu fjármagni til að mæta þeim vandamálum sem þar er við að eiga og komast hjá því að leggja aukaálögur á fólk eða álögur umfram það sem nauðsynlegt er. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram í tilefni af því að það hefur verið gagnrýnt hér að innritunargjöld hafi verið hækkuð lítillega eftir að hafa verið hin sömu í mörg ár. Það er full ástæða til að benda á að samfara þessari hækkun, sem var vísitöluhækkun, eru framlögin til þessara stofnana hækkuð mjög verulega.

Vegna þess að löggæslumál hafa komið mjög til umræðu í þjóðfélaginu, ekki síst í þingsölum, þá taldi ég ástæðu til þess að skoða hvað löggæslumálin, sýslumenn, hafa fengið út úr þeim fjárlögum sem nú eru til umræðu. Ég ætla að leyfa mér að lesa, herra forseti, það sem fjmrn. upplýsti um hvað það varðar. Í ljós kemur að sýslumaðurinn í Reykjavík bætir við sig 17,6 millj. eða 9%. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum bætir við sig 22,7 millj. eða 21%. Sýslumaðurinn á Selfossi bætir við sig 44,2 millj. eða 23%. Sýslumaðurinn í Keflavík bætir við sig 58 millj. eða 20%. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði bætir við sig 57,8 millj. eða 18% og sýslumaðurinn í Kópavogi bætir við sig 50,3 millj. eða 20%.

Það er ljóst, herra forseti, að framlög til þessara stofnana hafa öll hækkað verulega. Ég held að það sé full ástæða til þess að vekja athygli á sýslumannsembættum á landsbyggðinni þar sem því hefur haldið fram að þar sé verið að skera verulega niður. Þar er ekki verið að skera niður. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hvernig þessum fjármunum er varið en ljóst er að sýslumannsembættin hafa meira til ráðstöfunar til starfsemi sinnar en þau hafa haft á þessu ári.

[16:30]

Herra forseti. Ég vildi að þetta kæmi hérna fram. Ég geri ekki ráð fyrir því að stjórnarandstaðan hafi endilega sérstakan áhuga á að heyra það, en ég heyrði það í þætti í gær þar sem Ögmundur Jónasson var að orða skoðanir sínar að hann sagði að helst væri níðst á sjúkum og skólabörnum. Það voru hans óbreyttu orð í Kastljóssþættinum í gær um það sem ríkisstjórnin væri að gera. Það voru hans orð.

Herra forseti. Ég ætla að snúa mér aðeins að þeim breytingum sem kynntar eru í nál. meiri hluta fjárln. þar sem ég ætla að stoppa við örfá verkefni. Heyrnar- og talmeinastöðin hefur fram að þessu haft einkarétt á að greina sjúklinga og afgreiða hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson hefur ákveðið að fara fram á heimild Alþingis til að einkaaðilar megi veita þessa þjónustu. Ég er sannfærður um að biðlistar vegna þessarar þjónustu eiga eftir að hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar þetta gerist, og mun 12 millj. kr. viðbótarfjárveiting hjálpa til þess. Verð mun lækka við þetta og þjónusta batna án þess að ég sé neitt að gera lítið úr störfum þess ágæta fólks sem vinnur að þessum málum hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Það fólk vinnur gott verk í heftu umhverfi.

Ég fagna einnig því átaki sem boðað er af hæstv. samgrh. Sturlu Böðvarssyni í markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu. Það er sannarlega nauðsyn að efla bjartsýni í þessari grein eftir gjaldþrot gamalgróinna fyrirtækja í greininni.

Flugferðum til og frá landinu hefur fækkað verulega á síðustu tveimur mánuðum og samkvæmt tölum sem ég hef fengið frá Keflavíkurflugvelli hefur þeim fækkað um 14% í október og það sama hefur gerst í nóvember sé miðað við sama tímabil í fyrra. Viðskipti í Fríhöfninni hafa dregist saman um sambærilega prósentutölu, sem þýðir um 100 millj. kr. samdrátt í sölu Fríhafnarinnar á þessum tveimur mánuðum miðað við sömu mánuði í fyrra.

Öllum samdráttarskeiðum, herra forseti, fylgja þó ákveðin tækifæri og tel ég að með þessu útspili hæstv. samgrh. megi gera ýmislegt til að ná þeim. Mér er kunnugt um að í undirbúningi á vegum Flugstöðvarinnar í Keflavík eru ýmsar aðgerðir sem lúta að því að auka sókn erlendra ferðamanna hingað sem geta einnig skipt verulegu máli. Ferðalög eru nauðsynleg fyrir eyþjóð eins og okkar. Okkar eina flugfélag sem hefur haldið uppi áætlunum á milli landa, Flugleiðir, þolir ekki mikinn samdrátt að þessu leyti.

Það er skiljanlegt að fólk sé órólegt eftir atburði undanfarinna vikna, en þeir atburðir eru nú liðnir hjá. Atvinnuástand þjóðarinnar býður upp á að hér sé bjartsýnt fólk sem horfir fram á veginn og ferðist bæði innan lands og utan.

Herra forseti. Byggðastofnun fékk fyrir þremur árum samþykkta á Alþingi byggðaáætlun sem m.a. fól í sér styrki til eignarhaldsfélaga sveitarfélaganna og áttu þeir að nema 300 millj. kr. á ári í þrjú ár. Mikil þörf hefur verið fyrir þetta fjármagn úti á landsbyggðinni og hefur það svo sannarlega lyft undir atvinnuuppbyggingu þar sem þörfin er mest. Þetta form hentar líka vel vegna þess að þarna eru það heimamenn sem meta þörfina og fylgjast með því hvernig til tekst.

Af hálfu Byggðastofnunar hafa verið sett afar ströng skilyrði til að þessir peningar væru afhentir og samskiptin við stofnunina þannig að illt er við að una. Í stað þess að leita leiða til að styrkirnir yrðu greiddir út hafa skilyrðin verið breytileg og þannig komið mönnum í opna skjöldu. Aðalásteytingarsteinninn hefur verið að hlutur heimamanna hefur ekki verið metinn eins og um var talað og jafnvel óleysanlegt sumum eignarhaldsfélögum að uppfylla skilyrði Byggðastofnunar. Þetta hefur leitt til þess að nokkur hluti af þessum styrkjum hefur ekki verið greiddur út. Það er ástæðan fyrir því að framlagið hefur ekki verið nýtt undanfarin ár. Þetta er alvarlegt mál, herra forseti, og verður að átelja þessi vinnubrögð Byggðastofnunar.

Lækkun þessa liðar um 100 millj. er einfaldlega andstætt byggðastefnunni. Ég vona að þetta leiði ekki til þess að eignarhaldsfélögin tapi þessu fé enda vart boðlegt miðað við þær tímabundnu aðstæður sem nú eru að skapast.

Herra forseti. Starfsemi Ríkisútvarpsins hefur verið mikið í umræðunni á Alþingi undanfarin ár og sýnist sitt hverjum hvert stefna eigi í rekstrarformi RÚV. Kröfurnar til fyrirtækisins hafa þó alltaf verið vaxandi þó að framlög í afnotagjöldum hafi aukist minna. Til marks um umsvifin hefur útsendingartímum fjölgað hjá sjónvarpinu úr 1.505 klukkutímum á ári í 3.690 á 15 ára tímabili, frá 1985--2000, eða rúmlega tvöfaldast. Innlent efni hefur á sama tíma þrefaldast. Útsendingar sjónvarpsins ná nú til 99% landsmanna og er þessi dreifing víðtækari en í flestum öðrum löndum í kringum okkur.

Þjónusta á Rás 2 hefur einnig vaxið stöðugt frá því að hún var sett á laggirnar 1983 og ber þar sérstaklega að nefna svæðisbundnar útsendingar á landsbyggðinni sem eru hluti af Rás 2. Þetta hefur allt gerst eftir að Ríkisútvarpið hætti að starfa í skjóli einkaleyfis á útvarpi og sjónvarpi árið 1985. Maður spyr sig hvort öll þessi þróun hefði orðið án þeirrar samkeppni sem Stöð 2 hefur veitt á þessu tímabili.

Samkeppni frá öðrum löndum er einnig staðreynd og fer eflaust vaxandi þar sem lítill sem enginn kostnaður vegna afnotagjalda fylgir notunum þaðan. Stjórnendur RÚV hafa reynt að draga mjög úr öllum rekstrarkostnaði á undanförnum árum með ágætum árangri. Tekið er tillit til þess í fjárlagafrv. með ýmsum hætti, m.a. hækkun afnotagjalda um 7%. Þessi hækkun afnotagjalda er þó ekki í neinum takt við það sem þyrfti svo mætt yrði auknum umsvifum síðustu ára eða hækkun vísitölunnar. Hallinn á RÚV á næsta ári gæti því orðið um 147 millj. kr. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt, herra forseti, að það þurfi að reka svo mikilvæga stofnun með svo miklum halla. Af þessum sökum er ekki hægt að mæta ýmsum kröfum og má þar nefna það dæmi að Alþingi hefur samþykkt að beina þeirri ósk til stofnunarinnar að allt sjónvarpsefni verði textað fyrir heyrnarlausa og heyrnardaufa. Aðeins hefur verið hægt að mæta þessu að hluta, þ.e. með sérstökum fréttatíma og svo textun á takmörkuðu efni. Eðlilegt verður að telja að þjóðin standi með myndarlegum hætti að rekstri RÚV. Þó að styr standi um rekstrarformið má það ekki bitna á stofnuninni sjálfri sem að flestra áliti skilar mjög góðu verkefni.

Herra forseti. Við þetta tækifæri vil ég fara nokkrum orðum um stöðu námsmanna hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég vil vekja athygli á því að sjóðurinn er rekinn með 582 millj. kr. hagnaði í ár. Ýmsar skýringar eru á þessu, m.a. að jafnvægi er ekki enn komið á í vaxtamun og framlög ríkissjóðs eru um 2,5 milljarðar kr. á næsta ári, en miðað er við að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar sjálfur.

Allir milljarðarnir til námsmanna eru með ábyrgðum foreldra og vina viðkomandi. Eftir langt nám hafa margir námsmenn safnað gríðarlegum skuldum og dæmi eru um upp í allt að 16,5 millj. kr. í skuld á einn námsmann. Skuldin er mun minni hjá flestum en staðreyndin er samt sú að eftir langt nám er ekki óalgengt að námsmaður skuldi yfir 10 millj. kr. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni flestra námsmanna að þurfa að burðast með þessar skuldir á herðunum alla sína vinnuævi. Þær bætast ofan á skuldir vegna húsnæðis og annars sem ungt fólk þarf að eignast til þess að lifa eðlilegu lífi.

Herra forseti. Ég lít svo á að ástæða geti verið til þess að skoða þessi mál í öðru ljósi en við gerum í dag. Námsmenn okkar leggja á sig gríðarlega vinnu til að afla sér réttinda og viðurkenningar, oft erlendis, sem gagnast landi og þjóð eins og dæmin sanna. Án þessa fólks getum við ekki verið. Ég tel að til greina gæti komið að framlag lánasjóðsins til þessa fólks verði að hluta til metið sem vinna og að lánasjóðurinn greiði þessu fólki laun.

Hugmynd mín er sú að námsmaður sem skilað hefur þrem árum í háskólanámi fari á laun eftir það ef hann stundar framhaldsháskólanám á sömu braut. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið gætu um 800 námsmenn fallið undir þessa skilgreiningu og launaútgjöld sjóðsins til þeirra orðið um 600 millj. kr. á ári. Ekki er gott að sjá hvort þetta örvaði til lengra náms, en ef svo væri er það ekki þjóðhagslegur skaði nema síður væri.

Ég held að mikil vinna námsmanna og vaxandi kostnaður muni fæla fólk frá löngu námi að óbreyttu. Ljóst er að í allt of mörgum tilfellum er langt nám ekki ,,arðbært`` fyrir námsmanninn sjálfan þótt það sé það fyrir þjóðina í heild. Ég vil að þessi mál verði skoðuð, herra forseti, og mun beita mér fyrir því að svo verði.

Á Norðurlöndunum eru þessi mál með mismunandi hætti en þeir nota þó styrkjaformið meira en við og þá sérstaklega Norðmenn og þá vegna máms stúdenta á erlendri grundu.

Herra forseti. Nokkur afturkippur er í þjóðarbúskapnum um þessar mundir og kemur þar margt til eins og allir vita. Engin ástæða er þó til að örvænta enda staða á vinnumarkaði góð og skil fólks í lánastofnunum með betra móti og bendi ég á tölur sem komið hafa frá Íbúðalánasjóði því til staðfestu. Ákveðinn ótti býr þó í hugum margra um stöðu sína og er það eðlilegt miðað við þá umræðu sem farið hefur fram og stjórnarandstaðan hefur kynt undir. Hægt er að tala sig niður og draga þannig úr hvata til að gera eitthvað í málum og bíða heldur. Að almenningur missi trúna er það versta sem getur komið fyrir því ekkert bendir þó til að kreppa sé í aðsigi þótt margt megi gera sem geti hjálpað til.

Ég tel að skoða megi ýmis verkefni hraðar en gert hefur verið. Þar rísa hæst í mínum huga virkjanir og álver eða magnesíumverksmiðja. Samningar um stækkun álversins í Hvalfirði og Straumsvík hafa verið til skoðunar sem og magnesíumverksmiðjan á Reykjanesi. Virkjanir samfara þessum hugmyndum eru á lokastigi í umhverfismati. Allt er því að verða tilbúið svo fara megi af stað þegar ákvörðun er tekin. Brýnt er að það verði sem fyrst.

Til er þumalfingursregla sem segir að hagsæld þjóðar sé í beinu hlutfalli við rafmagnsframleiðslu hennar. Þó að þetta séu ekki algild vísindi er reynsla okkar sú að tilkoma álvera og aukin framleiðsla stóriðjuvera hefur skapað þessari þjóð meiri hagsæld en hún hefur nokkru sinni séð.

Herra forseti. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar hafa komið að hluta til inn við vinnslu þessa frv. Þar kennir margra grasa, m.a. eru viðmiðunarmörk til hátekjuskatts hækkuð um rúmar 40 þús. kr. eða úr 280 þús. í 322 þús. Þetta eru meðaltekjur eða um það bil í dag og því eðlileg viðmiðun hvað sem segja má um hátekjuskatt að öðru leyti.

Ýmislegt hefur verið sagt um þessa eðlilegu ráðstöfun og síðast af hv. þm. Ögmundi Jónassyni í Kastljósinu í gær þar sem hann var í umræðum ásamt hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde. Þar sagði hann um það fólk sem greiðir hálaunaskatt, með leyfi forseta:

,,Ég blæs á það þegar menn eru að hefja upp til skýjanna fólk á ofurlaunum,`` --- segir Ögmundur Jónasson í þessum þætti, og ég held áfram --- ,,sem hefur klórað til sín iðulega allt of mikið í sinn hlut. Ég held það sé meira að segja í mörgum tilvikum vitlausasta fólkið í þjóðfélaginu.`` (Gripið fram í: ... aftur, maður missti samhengið.)

Vegna óska hv. þm. um að ég endurtaki þetta, get ég gert það, herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þetta svona í þessum Kastljóssþætti:

,,Ég blæs á það þegar menn eru að hefja upp til skýjanna fólk á ofurlaunum sem hefur klórað til sín iðulega allt of mikið í sinn hlut. Ég held það sé meira að segja í mörgum tilvikum vitlausasta fólkið í þjóðfélaginu.``

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé dómur þingmannsins um þennan stóra hlut þjóðarinnar. Það er a.m.k. ljóst að ef þetta eru rök Vinstri grænna eru tillögur ríkisstjórnar og þingmeirihlutans í góðu lagi.

Herra forseti. Ég þakka formanni og varaformanni fjárln. fyrir mjög góða samvinnu við vinnu þessa frv. og fjárlaganna að þessu sinni. Formaðurinn Ólafur Örn Haraldsson sem er nýr í starfi hefur staðið sig vel og samstarfsmenn hans í meiri hluta og minni hluta hafa lagt sig fram um að vinna af heilindum að því að koma þessu frv. fram. Ég þakka sérstaklega minni hlutanum fyrir ánægjulegt samstarf fyrir mína parta og ég vil einnig þakka starfsmönnum nefndarinnar sem eru einstaklega liprir og duglegir við að verða við hinum ólíkustu og ótrúlegustu óskum sem koma fram um upplýsingar frá okkur nefndarmönnum.