Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:57:22 (2726)

2001-12-07 16:57:22# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að mótmæla því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir um að það eigi að koma framlag á móti. Það hefur samt sem áður gerst að eignarhaldsfélögin koma fram á mjög mismunandi tímum. Sum eignarhaldsfélög eru 7--8 ára gömul, voru stofnuð á þeim tíma með mjög ríflegu framlagi heimamanna. Þau hafa verið skikkuð til að gera nákvæmlega það sama og ný eignarhaldsfélög eru að gera í dag og gott betur og eftir því sem ég hef heyrt hafa reglurnar stundum breyst mjög skyndilega.

Eftir því sem ég hef heyrt, herra forseti, hefur þetta valdið verulegum erfiðleikum. Ég er ekki að ásaka hv. þm., formann Byggðastofnunar, um að hafa gert eitthvað vísvitandi í þessum málum en ég fullyrði það að fyrir þessi félög hefur þetta verið ótrúlega erfitt og illleysanlegt.