Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:08:56 (2737)

2001-12-07 18:08:56# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í þessar sameiningarviðræður Samfylkingarinnar og frjálslyndra en ég þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir innlegg hans. Hann ræddi á málefnalega um kostnaðarhækkanir í heilbrrn. og hvernig menn mæta þessum aðsteðjandi vanda þar núna.

Ég vildi bara láta það koma fram varðandi ræðu hans að það er rétt að verið er að skjóta lagastoð undir 10 millj. kr. gjaldtöku á sjúkrahótelum sem hefur verið við lýði núna um nokkurra ára skeið á því eina sjúkrahóteli sem hér er rekið. En ég vil undirstrika að það er engin stefnubreyting í því að fara eigi að taka upp innritunargjöld á sjúkrahús. Fram hefur komið að ég hef hafnað slíkum hugmyndum og það er engin stefnubreyting í því frá minni hálfu. Þetta er afmarkað mál og ég tel að það feli ekki í sér neina stefnubreytingu að taka innritunargjöld á öðrum stofnunum. Ég vildi láta þetta koma fram í framhaldi af ræðu hv. þm.