Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:16:01 (2741)

2001-12-07 18:16:01# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Nú stendur yfir 3. umr. um fjárlög og því ekki óeðlilegt að líta örlítið til baka og rifja upp í hvaða sporum við vorum þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 var lagt fram hér á þinginu. Þá var mikið deilt um þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í frv. Í stuttu máli mætti segja að í raun hafi ýmislegt af því sem þá var bent á ræst, þ.e. að horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar voru því miður ekki jafnbjartar og forsendur frv. gerðu ráð fyrir og ýmsir stjórnarliðar vonuðust eðlilega eftir.

Þetta hefur á margan hátt komið fram í störfum fjárln. og eins í tillögugerð inn í þingið. Þess er skemmst að minnast að við 2. umr. um fjárlögin lágu fyrir tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárln. um aukin útgjöld, upp á 2,2 milljarða, þrátt fyrir að sama dag og við afgreiddum þá niðurstöðu frá fjárln. hafi hæstv. forsrh. boðað að þetta væri ekkert að marka, vegna þess að í raun og veru ætti eftir að ljúka nær allri vinnu við fjárlagafrv. og þess vegna mundi þetta allt gjörbreytast við 3. umr.

Segja má að það hafi verið rétt hjá hæstv. forsrh., miklar urðu breytingarnar. Nú er lagt til að draga úr útgjöldum um nokkurn veginn sömu upphæð og lagt var til við 2. umr. að útgjöld yrðu aukin. Þar munar þó nokkru og er það unnið upp með því að gera ýmsar tillögur um auknar tekjur. Þannig stöndum við í raun og veru á svipuðum stað og við vorum þegar við hófum þessa umræðu, þ.e. afgangurinn á þessum pappírum er svipaður, rúmir 3 milljarðar kr.

Vissulega hafa verið farnar ýmsar leiðir til þess að ná þessu marki sem ríkisstjórnin setti sér. Við verðum auðvitað að vona að það standist sem allra mest þó að við verðum því miður að benda á að margt sem bendi til sú áætlunargerð sem hér liggur fyrir standi að mörgu leyti á veikum grunni.

Til þess að auka tekjurnar og mæta þeim tekjusamdrætti sem augljóslega blasir við á næsta ári eru ýmsar leiðir farnar til að auka tekjurnar. Það er auðvitað augljóst og hárrétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni fjárln., að þessar tillögur hafa greinilega verið unnar með mjög skömmum fyrirvara. Hér er ekki um tillögur að ræða þar sem tjaldað er til framtíðar. Hér of mikið um einnota aðferðir og margar þeirra munu jafnvel ekki standa, þótt þær séu hugsaðar eitthvað lengur, nema eitthvað fram á árið.

Þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar og er eiginlega með ólíkindum, vegna þess að um mjög langan tíma hafa menn mátt vita hvert stefndi í þessum efnum. Þess vegna hefði auðvitað strax í byrjun ársins átt að fara að undirbúa það hvernig menn ætluðu að mæta þessum vanda og fara að velta fyrir sér ýmsum þáttum, m.a. í rekstri ríkisins og hvernig ýmsir hlutir mættu betur fara. Það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að á undanförnum árum, meðan fjármunir hafa streymt í ríkissjóð, hafa menn því miður ekki náð að halda nógu vel í taumana, í góðærinu svokallaða. Þannig má segja að nú reyni á en auðvitað hefði verið miklu heppilegra, meðan góðærið var, að menn stæðu sig þá og reyndu að koma skikk á hlutina. Það er auðvitað miklu erfiðara, þegar fer að þrengja að, að eiga ekki varasjóði til þess að gefa innspýtingu þar sem þörf er á.

Varðandi þær breytingar á gjöldum við 3. umr. er áberandi og stærst frestun margs konar framkvæmda. Sumt er auðvitað umdeilanlegt og sumt hreinlega sérkennilegt og nefni ég þá sem dæmi, sem hefur auðvitað komið hér áður fram í umræðunni, það sem mest er áberandi, þ.e. breyting frá 2. umr. fjárlaga til þeirrar 3. varðandi hið margumrædda Náttúrufræðihús í Vatnsmýrinni. Við 2. umr. komu menn mjög vaskir til leiks og samþykktu tillögu um að auka framlagið til framkvæmdanna um 250 millj. kr. en segja svo 10 dögum síðar: Nei, þetta var ekki að marka, við ætlum að taka aftur til baka 200 millj. kr.

Margt annað er sérkennilegt við þetta mál vegna þess að um leið hefur Happdrætti Háskóla Íslands, sem ætlaði að lána til þessara framkvæmda 650 millj., heimild til þess að taka slíkt lán. Samt sem áður segir í texta með brtt. að aðeins verði framkvæmt á næsta ári fyrir 200 millj. við þetta hús, þrátt fyrir að happdrættið hafi heimild til þess að taka lán upp á 650 millj. Það þýðir þá væntanlega að menn ætla að byrja seint á árinu en hugsanlega gera einhverja samninga sem ná inn á árið 2003.

Ef ég man rétt var hins vegar upphaflega áætlunin með þetta hús að ljúka því 1998. Þetta er náttúrlega ein hörmungarsaga allt saman og ástæða til að vekja athygli á því að þetta eru ekki fyrstu hremmingarnar sem þetta hús lendir í. Ég efast um að hægt sé að slá þetta met sem þar hefur verið sett í hringlandahætti og handahófskenndum tillögum, eins og þetta dæmi sýnir.

Það eru ekki bara framkvæmdir sem menn velta fyrir sér heldur er líka verið að leggja aukin gjöld, bæði á nemendur í framhaldsskólum og háskólum og síðan sjúklinga, bæði með lyfjakostnaði og hækkun á komugjöldum og eins og hér var rætt fyrir stuttu varðandi breytingar á svokölluðum sjúkrahótelum.

En lengst er líklega gengið í kúnstunum þegar kemur að hinum svokölluðu lífeyrisskuldbindingum. Það er annað dæmið um hversu handahófskennd þessi vinnubrögð hafa verið hjá ríkisstjórnarflokkunum, hvort sem það er í ríkisstjórninni eða í starfi meiri hluta fjárln. Þegar við litum fjárlagafrv. augum í byrjun október var gert ráð fyrir að þessar lífeyrisskuldbindingar næmu 6,2 milljörðum kr. Við 2. umr. var tilkynnt að einhverrar ónákvæmni hafi gætt við útreikninga á lífeyrisskuldbindingum og þess vegna voru þessar skuldbindingar lækkaðar um 624 millj. kr.

Enn á ný, 10 dögum síðar, hafa uppgötvast einhver reiknimistök. Ég get tekið undir með ýmsum hv. þm. sem hafa gefið yfirlýsingar um að þeir telji starfsfólk í fjmrn. almennt vel til þess fallið að reikna. En það ágæta fólk sinnir auðvitað sínum störfum og setur að sjálfsögðu ekki forsendurnar fyrir öllum sínum útreikningum heldur eru forsendurnar ákveðnar af þar til bærum aðilum. Ég trúi því að þetta sé allt saman rétt reiknað út frá þeim forsendum sem settar eru. En sem sagt, aftur uppgötvaðist einhver misskilningur eða ofreikningur og enn er lögð fram tillaga um að lækka þessar skuldbindingar um 800 millj. Á þessum u.þ.b. hálfa mánuði hafa menn uppgötvað reikningsskekkju upp á um 1,5 milljarða.

Það er ekki einkennilegt að þetta veki hugrenningar um að hér sé um einhvers konar reiknikúnstir að ræða, þ.e. að menn hafi gefið sér fyrst hver útkoman ætti að vera og síðan hafi þeir reiknað inn í dæmið og þetta sé eitt af því sem menn hafi verið að reikna inn í dæmið.

Reyndar vakti ein talan í viðbót sérstaka athygli mína sem erfiðara hefur hins vegar verið að kanna hvernig til er komin. Það er lögð til 250 millj. kr. lækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs og því borið við að það tengist vaxtagjöldum af þeirri skuld sem sjóðurinn á inni hjá ríkissjóði. En það er auðvitað líka afar sérkennilegt að svo há tala skuli finnast allt í einu og passa svona ljómandi vel inn í þá mynd sem menn eru að reyna að teikna. Þetta var varðandi gjöldin.

Tekjuhlið frv. hefur auðvitað verið gagnrýnd verulega alveg frá 1. umr. Gerðar hafa verið athugasemdir við ýmsar forsendur. Við höldum áfram, í 1. minni hluta fjárln., í nál. okkar að benda á að ýmislegt sé hæpið í þeim forsendum sem notaðar eru. Við vekjum athygli á því að auðvitað hafa ýmsir aðrir bent á aðra hluti. Við nefnum t.d. Þjóðhagsstofnun sem kemst að annarri niðurstöðu um ýmsa þætti en áætlanir fjmrn. gera ráð fyrir. Það er hins vegar athyglisvert að fjmrn. hefur í ýmsum öðrum þáttum nálgast mun meira þjóðhagsspána frá því í haust, sem er að hluta til staðfest núna. Þannig er auðvitað ljóst að Þjóðhagsstofnun virðist hafa verið nær raunveruleikanum en ráðuneytið var þegar frv. var lagt fram.

Það er sem sagt hægt að færa rök fyrir því að hér sé jafnvel verið að ofreikna tekjur upp á 3,5 til 4 milljarða kr. Auðvitað verður að vona að þetta sé sem næst raunveruleikanum en eins og hv. þm. Einar Oddur Kristrjánsson nefndi þá hafa þessar tekjuáætlanir oft og tíðum ekki staðist vel og það sé kannski ekki aðalatriðið að deila mikið um þær, vegna þess að stóra atriðið í þessu sé í raun og veru útgjöldin, þ.e. hvernig til tekst með að stjórna útgjöldum ríkissjóðs. Vissulega er það stóra málið vegna þess að hitt er kannski erfiðara að halda utan um, nema setja reglurnar um það hvernig gjaldanna er aflað. Það eru svo margir óvissuþættir í því að auðvitað er erfitt að vera með nákvæmni í slíkum spádómum, þótt menn reyni auðvitað að nálgast þá hluti eftir bestu vitneskju.

Hins vegar eru ýmsir þættir sem ég vil minnast á áður en ég fer að mæla fyrir brtt. okkar í 1. minni hluta, varðandi hvernig staðið hefur verið að málum, bæði í sjálfri fjárln., og jafnframt nokkuð aftur í tímann. Þar vil ég fyrst nefna mál sem tengist framhaldsskólunum.

Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að ár eftir ár sé byrjað með fögur fyrirheit að hausti um að hlutir sem allir viðurkenna að þurfi að lagfæra, eins og reiknilíkan framhaldsskólanna, verði skoðaðir og öllu komið í það lag sem menn vilja. Menn nota þetta gjarnan sem fyrirmynd fyrir aðra starfsemi, að svona eigi að standa að hlutunum, þetta sé gegnsætt, menn geti áttað sig á því hvernig fjárveitingum er skipt til stofnana o.s.frv.

Þetta fyrirkomulag var í raun tilraun, til að byrja með, sem var mjög athyglisverð og það sem kannski var mikilvægast var að almennt var mjög góð sátt um það meðal stjórnenda í framhaldsskólum að fara slíka leið. Þó að menn hafi strax bent á að líkanið sem notað væri væri stórgallað treystu menn því að sjálfsögðu að líkanið yrði endurskoðað reglulega og því breytt eftir því sem reynslan gæfi tilefni til. Það hefur því miður ekki orðið. Þessi skref hafa verið allt of fá og allt of stutt. Það hefur valdið vanda mjög víða og hefur m.a. vakið athygli Ríkisendurskoðunar, að það gangi ekki að standa að málum eins og gert er í þessu tilfelli.

En ég ítreka að orð mín um málið snýr fyrst og fremst að því að ég tel mikilvægt, að svona reiknilíkani sé við haldið og það gefi sem allra besta niðurstöðu. Að öðru leyti tel ég til fyrirmyndar að útdeila fjármunum á þennan hátt vegna þess að þá sjá menn nákvæmlega hvernig að úthlutunni er staðið, að það er ekki tilviljunarkennt, heldur gegnsætt og hægt að fylgjast með því.

[18:30]

Herra forseti. Eins og ég sagði hefur þetta vakið athygli í Ríkisendurskoðun, bæði þegar verið var að endurskoða ríkisreikning fyrir árið 2000 og eins í skýrslu sem nýkomin er út frá þeim sem heitir Framkvæmd fjárlaga janúar--september 2001. Og, með leyfi forseta, vil ég vitna til þessarar skýrslu:

,,Til dæmis námu fjárveitingar til eins menntaskóla 333 millj. kr. í fjárlögum vegna 2001, en sú fjárheimild var skert um 122 millj. kr. vegna halla fyrri ára. Að teknu tilliti til millifærslu annarra fjárheimilda á árinu nam fjárheimild skólans 261 millj. kr. á árinu 2001. Í lok september hafði hins vegar verið stofnað til útgjalda fyrir 318 millj. kr.``

Herra forseti. Ég vil endurtaka: Skólinn hafði fjárheimild upp á 261 millj. kr. árið 2001 en í lok september hafði stofnunin stofnað til útgjalda fyrir 318 millj. kr., sem sagt í lok september komin langt fram úr fjárheimildum ársins.

Og með leyfi forseta held ég áfram í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

,,Ekki verður séð að skólinn geti rétt reksturinn af miðað við þá fjárheimild sem honum er ætluð á árinu nema með mjög verulegum samdrætti í þjónustu, t.d. aðgerð á borð við að hætta að taka við nýjum nemendum. Þessi skóli er síður en svo einsdæmi um stofnun sem býr við svo skertar fjárheimildir að engin leið er til að veita þá þjónustu sem henni er ætlað. Á 30 fjárlagaliðum nemur skerðing fjárheimilda vegna halla fyrri ára 20% eða meiru af fjárheimild ársins. Í þeim hópi eru til að mynda fimm skólar og tvö sýslumannsembætti. Engin áform virðast liggja fyrir um hvort og þá hvernig þessar stofnanir eigi að draga saman þjónustu til að rekstur þeirra falli innan fjárheimilda.``

Herra forseti. Þannig segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þegar hún var gefin út í nóvember bentu þeir á að ekkert gæfi til kynna að taka ætti á þessum vanda. Enn í dag er ekkert sem bendir til þess að taka eigi á honum. Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi að stofnanir þurfi að búa við þessi skilyrði. Það hlýtur auðvitað að vera nauðsynlegt að farið sé nákvæmlega yfir þá þætti sem valda vandræðunum vegna þess að það er ekki hægt að láta stofnanir ár eftir ár sigla inn í umhverfi þar sem fjármunir eru ekki nægir fyrir þjónustunni, öðruvísi en að þá séu teknar ákvarðanir um að skerða þjónustuna. Þær ákvarðanir á auðvitað að taka á réttum stöðum ef það er vilji þeirra sem með völdin fara. Það er auðvitað ekki hægt að láta stjórnendur stofnana búa við slíkar aðstæður sem hér er lýst því í raun og veru er þeim gert ókleift að sinna störfum sínum.

Herra forseti. Þetta var að hluta til útúrdúr frá því sem ég var að ræða hér um, reiknilíkön framhaldsskóla, en þó nátengt því vegna þess að þarna voru tilgreindir fimm skólar og dæmið var tekið um einn skóla sem, þrátt fyrir að vera menntaskóli, er verknámsskóli og er með síaukinn hluta á því sviði. Í raun og veru er þetta nátengt því að reiknilíkanið tekur ekki tillit til breytinga eins og þeirra að þessi tiltekni skóli breyttist frá því að vera hefðbundinn bóknámsskóli og fór að sinna verknámi mun meira en áður.

Herra forseti. Það er a.m.k. eitt mál til viðbótar sem ég vildi minnast á vegna þess sem ég tel að skorti á það að við stöndum þokkalega að því að ljúka 3. umr. um fjárlagafrv., og það er býsna mikilvægt mál. Ég hef aðeins minnst á það í andsvörum í dag að í fjárlagafrv. er sagt frá ýmsum fjárframlögum sem tengd voru byggðaáætluninni sem er að ljúka um næstu áramót en hafa verið tekin út af þeirri einföldu ástæðu að áætluninni lýkur um næstu áramót. Þar af leiðandi er ekkert við því að segja að slíkt sé tekið út. En það sem er auðvitað ámælisvert er að í frv. segir að ný áætlun í byggðamálum verði lögð fram, og gert er ráð fyrir að hún verði samþykkt áður en fjárlög verða samþykkt fyrir næsta ár. Og þá er sagt í frv. að gert verði ráð fyrir framlögum vegna hinnar nýju byggðaáætlunar í fjárlögum fyrir árið 2002.

Slíkt liggur ekki fyrir. Við í fjárln. höfum fengið svör frá iðnrn. um að þessi vinna hafi öllsömul tafist og þetta verði ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en eftir áramót.

Það þýðir ósköp einfaldlega að ef þessi nýja áætlun gerir ráð fyrir að peninga þurfi að nota til einhverra hluta í áætluninni verði það væntanlega ekki gert á árinu 2002. Það eru engar heimildir um slíkt í fjárlögum. Mér sýnist þannig stefna í að árið 2002 verði í þeirri merkingu fryst ár svipað og tillögurnar eru um að frysta gjöldin til þjóðkirkjunnar --- það verður sem sagt fryst til byggðamála. Ég sé ekki að á nokkurn hátt sé verið að taka á þeim málum, því miður, í tengslum við þessa nýju byggðaáætlun. Það er auðvitað ámælisvert að svo seint sé af stað farið að ekki sé hægt að ljúka þessari áætlunargerð fyrir áramót. Ef vel hefði átt að vera hefði auðvitað átt að leggja hana fyrst fram á vorþingi og við hefðum síðan getað rætt hana hér í haust meðfram fjárlögunum og verið búin að samþykkja hana með töluverðum fyrirvara þannig að hægt væri að tryggja vel það sem menn hefðu ákveðið að nota þyrfti peninga til þess að koma þeirri áætlun í framkvæmd.

Ég held, herra forseti, að þetta geti því miður leitt til þess að útgjöld ríkissjóðs verði meiri á öðrum sviðum en menn áætla núna vegna þess að það er auðvitað auðvelt að færa rök fyrir því að sú byggðaþróun sem við höfum búið við hér allt of lengi sé þjóðfélaginu mjög dýr. Því miður stefnir í að þar verði framhald á. Það er ekki að sjá að hér liggi neitt fyrir um að menn ætli eitthvað að breyta kúrsinum. Þó hefur hann ekki verið rekinn með miklum krafti, því er verr og miður.

Ég neita því ekki að ég gerði mér töluverðar vonir um að þessi nýja byggðaáætlun yrði kraftmeiri en sú eldri og að hún væri framkvæmdaáætlun þar sem nákvæmlega væri farið yfir það sem menn ætluðu að gera, ekki bara einhver óskalisti eins og við höfum því miður haft allt of oft fyrir framan okkur í þessum efnum. Það væri framkvæmdalisti þar sem væri nákvæmlega ákveðið hver ætti að framkvæma hvað og þá væri auðvitað hægt að búast við því að einhver árangur yrði af því verki.

Herra forseti. Ég ætla einnig í ræðu minni að mæla fyrir brtt. 1. minni hluta, sem dreift hefur verið á þskj. 504 og er í 13 liðum. Ég tel að megnið af þessum liðum skýri sig að miklu leyti sjálft en vil þó fara um þetta nokkrum orðum, í fyrsta lagi segja að þessar brtt. gera ráð fyrir því að tekjuafgangur ríkissjóðs verði rúmlega 3 milljarðar að frádregnum söluhagnaði ríkiseigna. Við erum raunverulega á táknrænan hátt að segja að við séum sammála því að skila þurfi ríkissjóði afgangi af slíkri stærðargráðu árið 2002, m.a. vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Við förum hins vegar töluvert aðrar leiðir en meiri hluti fjárln. leggur til þó að vissulega séu hér einstaka liðir sem eru keimlíkir tillögum meiri hlutans.

Fyrst gerum við tillögu um að auka skatttekjur samanlagt um 810 millj. kr. Eiginlega er nauðsynlegt að skýra það með öðrum lið sem er 12. tölul. á þskj. 504, þ.e. hert skatteftirlit þar sem við leggjum til að 100 millj. fari í að auka þetta skatteftirlit. Það er heldur ekki tilviljum að það eru 100 millj. þar og 810 millj. á tekjuhliðinni. Þetta er gert samkvæmt ráðleggingum þeirra sem nokkuð þekkja til þessara mála, það er talað um sem þumalputtareglu að hlutfallið sem hert skatteftirlit skili sér í betri innheimtu skatts sé svona 1:8,5. Þetta hefur verið reynt í nokkrum löndum og menn telja að þetta hlutfall geti líklega orðið hærra á Íslandi en þar sem þetta hefur verið reynt, m.a. á Norðurlöndum. Þessu til stuðnings get ég bent á rit frá Ríkisendurskoðun frá því í júní sl. þar sem fjallað er m.a. um skattsvikamál; ferli, fjölda og afgreiðslu frá 1997--1999 en þar er m.a. fjallað um tillögur nefndar sem fjallaði um stöðuna varðandi virðisaukaskattinn. Menn komast að eftirfarandi niðurstöðu eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Þó mætti leiða að því líkur að umfangið væri á bilinu 6--8% af reiknuðum virðisaukaskattsstofni sem jafngildir um 4--5 milljarða tekjutapi hjá ríkissjóði á ári.``

Hér er eingöngu verið að tala um virðisaukaskattsstofninn þannig að við teljum góðar líkur á að þessu megi ná ef faglega er að verki staðið. Þess vegna teljum við einsýnt að leggja 100 millj. kr. undir til að freista þess að ná inn betri tekjum því það er auðvitað líka afar mikilvægt upp á það að sinna forvinnu í þessum efnum að skatteftirlitið sé með þeim hætti að sem allra mest skil verði á skattinum.

Í 2. tölul., sem eru breytingar á sundurliðun 2, er fyrst tillaga um að nýbygging á stjórnarráðsreit verði lækkuð um 250 millj. kr. sem er sama upphæð og gerð er tillaga um í fjárlagafrv. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að þarna verði teknar af 200 millj. og 50 millj. skildar eftir. Hér er því við að bæta að nokkur upphæð, ef ég man rétt á annað hundrað millj., er til inni á þessum lið frá fyrra ári og við teljum að það eigi að duga til að framkvæma það sem menn vilja gera á næsta ári án þess að það valdi miklum vandræðum. Það er sérkennileg saga í kringum ýmsar framkvæmdir við þennan stjórnarráðsreit og ég man það frá því í fyrra þegar við gerðum tillögu líka um að taka þarna peninga af var nýkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun um Þjóðmenningarhússframkvæmdirnar og þá töldum við ekki ástæðu til að sömu aðilar færu að fara í miklar framkvæmdir fyrr en þeir væru búnir að læra af þeirri skýrslu. Það má eiginlega segja að við framkvæmdir í Þjóðmenningarhúsinu hafi menn gert nær öll þau mistök sem hægt var að gera og ég held að þau rök geti í raun og veru átt við að stórum hluta til enn þó að vissulega hafi menn verið að reyna að bæta úr með reglugerðum síðan. Menn gerðu ráð fyrir því í fyrra þegar þeir voru að kaupa eitt húsið á þessum ágæta reit að því yrði breytt fyrir nokkur ráðuneyti. Þegar okkur í fjárln. voru í haust kynnt framtíðaráformin á reitnum var greinilega búið að breyta öllu frá árinu á undan því nú átti ekki að breyta þessu tiltekna húsi heldur var húsið metið svo slappt, og svo dýrt að gera við það að vænlegast var talið að rífa það. Þegar búið var að kaupa það var talið vænlegast að rífa það og byggja nýtt á grunninum. Þannig held ég að menn mundu alveg lifa við það þó að þessi fjárveiting yrði látin bíða eitt eða tvö ár til viðbótar.

3. tölul. er einnig svipaður og hjá meiri hluta fjárln., hið vest-norræna menningarhús í Kaupmannahöfn. Við leggjum til að öll upphæðin sem er á fjárlögum verði tekin en meiri hlutinn leggur til að aðeins hluti verði klipinn af. Athugasemdir hafa komið frá húsfriðunarfólki í Kaupmannahöfn og þarna þarf greinilega að leggja sig fram um að sætta deilur og við getum sagt að það séu líkur á að menn muni ekkert framkvæma á næsta ári. Ég held að nú sé vænlegra að menn eyði betri tíma í það og séu ekki í einhverri tímaþröng við að ná sátt í málinu því ekki viljum við standa í stríði við friðsæla íbúa Kaupmannahafnar við það að breyta húsum í þeirra ágætu borg.

[18:45]

4. liður, 5. liður, 6. liður og 7. liður eru í raun sami pakkinn, þ.e. hér er gerð tillaga um, eins og við höfum gert nokkrum sinnum áður við fjárlagaafgreiðslu, að auka tekjur Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og deila þeim síðan út á þessar þrjár stofnanir, þ.e. Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Fiskistofu. Þannig hafa verið innheimt gjöld af sjávarútvegi og þau síðan nýtt í þágu sjávarútvegsins. Þetta mun hins vegar spara 900 millj. í útgjöldum ríkissjóðs til þessara stofnana á móti. Þannig standa stofnanirnar raunverulega jafnar eftir.

8. tölul. er síðan til marks um að við metum það svo að þrátt fyrir þrengingar í þjóðarbúinu séu löggæslumál því miður með þeim hætti að þar þurfi eitthvað að taka á. Við leggjum því til að liðurinn 06-190 Ýmis verkefni, 1.74 Efling löggæslu hækki úr 0 í 100 millj. kr. Við teljum það eðlilegt miðað við að við höfum ekki nægar upplýsingar um hvernig best væri að deila þessum fjármunum út, að það sé ráðuneytið sem fari yfir málin og noti þessa upphæð þar sem þörfin er mest. Jafnframt hljótum við að átta okkur á að í þessum efnum breytast aðstæður auðvitað nokkuð fljótt. Það gæti þurft á næsta ári að bregðast við einhverju sem við sjáum ekki fyrir í dag. Þess vegna viljum við með þessu vekja athygli á vanda málaflokksins og leggjum til 100 millj. kr. aukningu til að efla löggæslu.

Hér eru síðan tveir liðir undir félmrn., þ.e. annars vegar Málefni fatlaðra og hins vegar Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Segja má svipað um þennan málaflokk, 07-700 Málefni fatlaðra, að við teljum að full þörf sé á að styrkja málaflokkinn. Við leggjum annars vegar til undir liðnum Ýmis verkefni og setjum það þar af leiðandi í hendur ráðuneytisins að meta hvernig þessar 200 millj. verði nýttar til að styrkja málaflokkinn en víst er að af nægu er að taka.

Greiningar- og ráðgjafarstöðin. Við gerum sem sagt ráð fyrir því hins vegar að eyrnamerkja sérstaklega 25 millj. kr. til stofnunarinnar.

Síðan er hér heilbrigðisráðuneytið, þ.e. tölul. 08-190 Ýmis verkefni. Það eru 300 millj. Hér má segja svipað og ég hef sagt um síðasttalda liði, ráðuneytinu sjálfu er ætlað að meta hvernig best verði farið með þessar 300 millj. til að efla rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana. Það er auðvitað ljóst að víða eru mikil verkefni og vandi að leysa úr þeim en við teljum að hæstv. heilbrrh. eigi, þar sem hann býr yfir góðri reynslu af því að skipta fé eftir margra ára formennsku í fjárln., að vera fullfær um að átta sig á því hvar þörfin er mest. Þess vegna gerum við tillöguna á þennan hátt.

Ég var búinn að skýra tölul. 12 þannig að ég fer beint þá yfir í þann síðasta, tölulið 13. Það eru fjórir nýir liðir við 7. gr. Þeir eru svohljóðandi:

7.13 Að lækka önnur gjöld ráðuneyta um 500 millj. kr.

7.14 Að fresta yfirfærslu ónotaðra heimilda ráðuneyta frá fyrra ári um 500 millj. kr.

7.15 Að fela ráðuneytum að skera niður ferða- og risnukostnað um 420 millj. kr.

7.16 Að lækka sérfræðikostnað hjá A-hluta stofnunum um 500 millj. kr.

Hér er sem sagt um tæplega tvo milljarða að ræða og auðvitað um hreinar og klárar aðhaldsaðgerðir að ræða. Það er ekki hrein tilviljum hvaða þættir eru þarna valdir vegna þess að fyrir liggur, fyrir nær öllum þessum þáttum, rökstuðningur frá Ríkisendurskoðun.

Meðal annars er bent á það hjá Ríkisendurskoðun varðandi ónotaðar heimildir að þar sé vandinn sá að setja þurfi um þetta nýjar reglur. Þess vegna göngum við ekki svo langt að frysta allt saman heldur tökum þarna hálfan milljarð og freistum þess að á næsta ári fari menn í að setja reglur sem duga vegna þess að nú er, liggur mér við að segja, sjálfkrafa færsla yfir áramót þrátt fyrir að jafnvel til fjölda ára hafi stofnunin ekki nýtt ákveðið fjármagn. Auðvitað þarf að vanda sig við þetta því þetta er ekki einfalt en við teljum að svo litlu broti sem hálfum milljarði af öllu þessu fjármagni eigi að vera auðvelt að ná fram.

Að skera niður ferða- og risnukostnað um 420 millj. kr. er um 20% sparnaður. Við bendum á að þetta er ekki endilega tillaga um að skera niður ferðir heldur erum við fyrst og fremst að leggja áherslu á það, sem ég held að flestir kannist við, að í góðæri hafa ákveðnir liðir tilhneigingu til að hækka meira en ella. Við teljum þetta dæmi um það og enn á ný kalla ég Ríkisendurskoðun til vitnis í málinu. Í endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2000 bendir Ríkisendurskoðun á að þarna þurfi augljóslega að taka á, og telur að auki að víða sé jafnvel ekki farið eftir þeim reglum sem um þetta eiga að gilda. Ríkisendurskoðun bendir á að t.d. megi augljóslega lækka þenna kostnað verulega með því að beita þeirri einföldu reglu að greiða eftir reikningum. Við teljum að um raunhæfa tillögu sé að ræða, hafi menn á annað borð áhuga á að sýna aðhald í rekstri.

Sama má segja um síðasta liðinn, þ.e. sérfræðikostnaðinn. Enn bendi ég á skýrslu frá Ríkisendurskoðun. Þar er bent á að svo aumlega hafi því miður verið að þessu staðið víða að menn hafi jafnvel ekki vitað hvað þeir ætluðu sér að fá frá þeim sérfræðingum sem var falið að vinna í ákveðnum verkum. Með því að undirbúa vinnu sérfræðinganna betur og bjóða út hluta af þeirri vinnu á að vera hægt að ná verulegum sparnaði.

Við teljum að þetta séu markmið sem menn eiga að setja sér. Við teljum að ef ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hefðu unnið heimavinnuna sína allt þetta ár, miðað við þær aðstæður sem hægt var að sjá fyrir, hefðu menn þegar unnið þetta starf, menn væru reiðubúnir. Þá væri hægt að ná miklu meira út úr þessum liðum á næsta ári en við gerum hér tillögur um. Tillögur okkar taka auðvitað mið af því að menn eru ekki einu sinni farnir að setja sig í stellingarnar til að ná þessu fram.

Herra forseti. Ég hef þá lokið að gera grein fyrir brtt. 1. minni hluta fjárln. en að honum standa auk mín hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Gísli S. Einarsson.