Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 19:27:28 (2747)

2001-12-07 19:27:28# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[19:27]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín spurningu varðandi lyfjakostnaðinn, hvernig ég hygðist ná fram sparnaði þar með því að fara inn í heildsölu- og smásöluverðið.

Ég hef átt viðræður við Lyfjastofnun um það mál og ég hef svo sannarlega haft þau áform að greina þann kostnað sérstaklega. Ég hef von um að það geti skilað sparnaði í þessum efnum og ég vona að þau markmið sem við setjum okkur standist varðandi það.

Ég vil undirstrika varðandi sjúkrahótelin að þarna er verið að lögfesta gjöld sem hafa verið tekin um árabil og það hefur engin umræða verið um þau gjöld. Hins vegar eru það fleiri en landsbyggðarfólk sem þarna er því þetta er úrræði í heilbrigðiskerfinu sem er notað víða.

Varðandi Landspítalann og sameiningarferlið, þá er alveg ljóst að það kostar peninga að sameina spítalana. Það var framlag á fjáraukalögum vegna sameiningarinnar. Það var líka framlag í fyrra vegna sameiningarinnar, 150 millj. í hvort skipti ef ég man rétt. Og það eru heimildir til sölu eigna núna sem spítalinn þarf ekki á að halda í sínum rekstri til þess að leggja inn í hagræðingar á spítalanum. Mér er alveg ljós fjárþörfin þar en hins vegar vil ég vara við stórslysaumræðu í þessu sambandi. Því hefur verið mætt ef eitthvað slíkt hefur komið upp á. Það eru dæmi um það og ekki gömul að Landspítalinn hefur fengið sérstök framlög vegna slysaöldu sem reið yfir, því miður.

En ég mun í seinna andsvari taka fyrir Heyrnar- og talmeinastöðina.