Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 19:29:44 (2748)

2001-12-07 19:29:44# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég styð hann eindregið í viðleitni hans til að stemma stigu við lyfjaverðinu og því sem viðgengst þar.

Varðandi sameiningarferlið, þá hefur það verið svo að ekki hafa komið fjármunir inn í það fyrr en eftir nokkra umræðu í fjárlögunum. Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því, þ.e. stjórnvöld, að það þurfi að vera peningar þarna.

[19:30]

Mér heyrist á hæstv. ráðherra að það eigi að setja peninga sem koma inn vegna sölu í þann kostnað þannig að þá ætti það að leysast.

Ég ætla ekki að vera með neinar hrakspár eða heimsendaspár í sambandi við slys, alls ekki. En við verðum að vera við öllu búin. Eins og staðan er í dag með sparnaðinn þá eru horfurnar þannig að gott starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni mun hrökklast frá okkur. Það er það sem ég óttast. Ef við erum búin að hrekja frá okkur góða starfsmenn þá erum við auðvitað verr í stakk búin til að takast á við vandann. Ég held að það sé líka eitt af því sem við þurfum að hafa áhyggjur af þegar við stöndum svona að fjárveitingum til þessa stóra sjúkrahúss.

En ég minni á að menn geta enn bætt um betur því hér eru fjárlagatillögur frá Samfylkingunni, frá okkur jafnaðarmönnum, þar sem tekið er á þessum málum, tekið er á greiðslum til spítalans, án þess nokkurs staðar að skera niður í velferðarkerfinu. Við jafnaðarmenn stöndum vörð um velferðarkerfið í öllum okkar tillögum. Ég vil líka minna á tillögur okkar í sambandi við skattamálin.

Herra forseti. Hér vantar svör frá hæstv. ráðherra um Heyrnar- og talmeinastöðina. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari því í seinna andsvari.