Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 19:34:22 (2750)

2001-12-07 19:34:22# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[19:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til fjárlaga sem er rætt hér í þinginu. Hún varðar Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillagan liggur fyrir á þskj. 507. Um það er að ræða að breyta fjórum liðum í rekstri og bókhaldi stofnunarinnar án þess þó að tillagan hafi áhrif á heildarniðurstöðu fjárlagafrv. Þessir liðir hjá Náttúrufræðistofnun varða yfirstjórn, setur í Reykjavík, setur á Akureyri og sértekjur.

Tillagan gegnur út á að til yfirstjórnar fari 14,9 millj., til seturs í Reykjavík 211,5 millj. og seturs á Akureyri 47,5 millj., en sértekjur lækki á móti.

Ég les greinargerðina. Hún er stutt, herra forseti:

,,Lögð er til breyting á framsetningu fjárlagaramma Náttúrufræðistofnunar Íslands sem ekki hefur í för með sér breytingar á framlögum úr ríkissjóði. Breytingin felur í sér tilfærslur milli liða þannig að sértekjur seturs stofnunarinnar í Reykjavík hækka um 31,3 millj. kr. og verða 102,8 millj. kr. Á móti hækkar launaliður um 21,3 millj. kr. og önnur gjöld um 10,0 millj. kr.

Þá er lagt til að sértekjur seturs á Akureyri hækki um 10,0 millj. kr. og verði 17,2 millj. kr. Á móti hækkar launaliður Akureyrarseturs um 6,0 millj. kr. og önnur gjöld um 4,0 millj. kr.

Loks eru millifærðar 4,5 millj. kr. af launalið Reykjavíkurseturs á launalið yfirstjórnar og 3,5 millj. kr. af liðnum önnur gjöld Reykjavíkurseturs á liðinn önnur gjöld hjá yfirstjórn.``