Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:14:45 (2752)

2001-12-07 20:14:45# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:14]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru nú staðreyndir sem menn ættu að kunna að stjórnskipan Íslands er dönsk. Hefðir, venjur og siðir eru meira og minna danskir. Það hefur þekkst hér allan tímann mjög náið samstarf ríkisstjórnarinnar við þingmeirihluta sinn. Í allri Evrópu, kannski helst að Frakklandi undanteknu, er ekki þessi þrískipting, hún er ekkert í gangi samkvæmt þessari 18. aldar ,,ídeólógíu`` um þrískiptingu valds, hún er að vísu í gangi í Bandaríkjunum. Og auðveldasta táknið til að sjá það eru þessir 12 stólar hérna, það eru stólar ráðherranna. Þessir ráðherrar eru allir þingmenn. Og svo eru menn að hneykslast á því að verkaskipting milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins sé ekki nógu skýr.

[20:15]

Herra forseti. Það er enginn munur á tillögu sem kemur um breytingu á t.d. fjárlögunum, þ.e. hvort ég er höfundur að henni eða þingmaðurinn sem gegnir stöðu menntmrh. Á því er enginn munur. Og nákvæmlega sama aðferðin í samskiptum ríkisstjórnar við þingmeirihlutann á sér stað í fjárln. eins og í öllum öðrum nefndum þingsins. Ég hef t.d. setið fjögur ár, herra forseti. í efh.- og viðskn. þingsins ásamt hv. þm. Pétri Blöndal. Við höfðum mjög náið samstarf bæði við fjmrn. og viðskrn., eðlilega og að sjálfsögðu. Því kemur mér mjög á óvart þegar þingmaður kemur og segir þau tíðindi að hann hafi ekki áttað sig á því hver starfstilhögunin er. En það er eðlilegt að mínum dómi og sjálfsagt að þingmenn hafi afskipti af gerð fjárlaga. Þeir hafa alltaf haft það og enginn munur er á því hvort sú tillaga kemur frá þingmanni í nefndinni eða frá þeim þingmanni sem er ráðherra þess málaflokks.